trusted online casino malaysia
Úlfar Þormóðsson 03/09/2016

Upphafning

Ríkisútvarpið bauð til veislu í kvöld, annan september 2016. Í tónum, máli og myndum. Á rás 1 Útvarpsins og í Sjónvarpinu. Hún var fyrir okkur þessi veisla, okkur sem fyrir margra hluta sakir komumst ekki í Hörpuna til þess að hlýða á stórfenglega tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Og einleikarana. Og kórana. Og einsöngvarana. Og kynnanna.

Solvi_HelgasonAð sitja og hlusta og fræðast og horfa og líða burt og finna til og týnast í tónaflóði er unaður. Upphafning.

Takk fyrir, takk fyrir mig!

Það er auðvelt að finna út hvað hver og einn borgaði fyrir þetta dýrlega kvöld. Útvarpsgjaldið er 16.400 krónur á ári; tæpar 45 krónur á dag, 1 króna og 87 aura á klukkutíma eða 3 krónur 75 aura fyrir tvo hágæða klukkutíma. Ef rétt er reiknað í upphafningunni.

Fyrir þetta gjald, 16.400 krónur, er hægt að hlusta á Ríkisútvarpið allan sólarhringinn, allt árið: Fréttir og fræðsluefni, ljóð og leikrit, hljóðfæraleik og söng, mas og meira að segja messugjörð til viðbótar við allt hitt sem ekki er upp talið.

Með hugann við útvarpsgjaldið er ekki úr vegi að bera það saman við verð á einum miða á stórtónleika í Laugardalshöll í sæmileg sæti. Hann kostar allt að 25 þúsund krónur. Fyrir tvo til þrjá klukkutíma.

Þessi veisla er búin, sú sem boðið var til í kvöld. Þótt áhrifin sitji eftir sækir raunveruleikinn að. Sjónvarpið heldur áfram að senda út mál og myndir fram á nótt. Útvarpið lifir nóttina alla. Eigi að síður eru til áhrifamenn, ráðamenn, sem vilja draga úr mætti Ríkisútvarpsins. Koma því á vonarvöl. Eða gelda það. Okkur sem njótum þess ber skylda til að verja það. Og efla það ef kostur er. Sem er.

Latest posts by Úlfar Þormóðsson (see all)
Flokkun : Pistlar
1,135