trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 22/04/2018

Um svikin loforð (eða brotin, eins og Bubbi myndi orða það)

Karl Th. Birgisson skrifar

Ein veigamesta ástæðan fyrir vantrausti okkar á stjórnmálamönnum er að þeir standa ekki við loforð eftir kosningar, sem þeir gefa fyrir þær.

Ekki af því að þeir séu verri manneskjur en við hin, alls ekki. Þeir eru hins vegar mannlegir eins og við hin.

Það er víst sami rassinn undir okkur öllum.

Og það bregzt ekki, að fyrir hverjar kosningar gefa stjórnmálamenn í örvæntingu eða taugaveiklun loforð sem þeir vita sjálfir að þeir geta ekki staðið við. Í von um að fá aðeins fleiri atkvæði en ella.

Þessu veldur mannlegur breyzkleiki og það eru afar fágætir frambjóðendur sem standast þessa freistingu.

Sum loforð eru gefin að því er virðist af fullkominni vanþekkingu – viðkomandi flokkur hafði ekki kynnt sér málið. Það gildir um niðurfellingu fasteignaskatts til að allra Reykvíkinga 70 ára og eldri, sem Eyþór Arnalds hefur boðað. Það myndi beinlínis stríða gegn lögum.

Í dag sagðist höfuðborgarlistinn að hann ætlaði – já, ætlaði – að byggja tíu þúsund íbúðir í Reykjavík á næsta kjörtímabili. Ekki efa ég eitt andartak að framboðið meini vel, en þetta er einhvers konar héraðsmet í yfirboðum og skrumi. Ekki bara að því að þetta er praktískt talað ómögulegt (nema hætt verði öllum öðrum húsbyggingum á höfuðborgarsvæðinu næstu fjögur árin), heldur af því að eitt framboð getur ekki sagzt ætla að gera neitt þessu líkt, nema það fái hreinan meiri hluta, sem við vitum að verður ekki.

Framboðið getur hins vegar sagzt vilja þetta. Það er ekki skrum, en að vísu kjánalegt yfirboð samt.

Nú hef ég verið í návígi við stjórmál anzi lengi (hljóma ég nokkuð eins og Styrmir?) og hef horft upp á þessa hegðun oftar en mig langar að muna.

Þess vegna hefur Kallalistinn aðeins eina reglu. Við lofum engu. Við segjum hvað við viljum og hvað okkur finnst (þið getið lesið um það hér), en við lofum engu.

Við erum heldur ekki atvinnustjórnmálamenn og viljum ekki vera það. Við viljum gera borginni gagn og koma stefnumálum okkar á dagskrá, en við lofum engu.

Það virðast nógu margir aðrir vera í þeim bransa.

Eins og endranær.

1,289