trusted online casino malaysia
Valgerður Bjarnadóttir 06/03/2016

Um stjórnarskrártillögurnar

Stundum er látið að því liggja að allir geti orðið sammála um stjórnarskrá. Sumir trúa því að hér hafi aldrei verið deilur um stjórnarskrá og stjórnskipan landsins. Það er mikill misskilningur, sem stafar kannski af því að stjórnarskráin var samþykkt svo til einróma þegar stjórnarskrá lýðveldisins var samþykkt 1944.Alþingi

Í aðdraganda lýðveldisstofnunarinnar var hins vegar ekki eining um stjórnarskrárbeytingar. Einmitt þess vegna varð að samkomulagi að gera einungis bráðnauðsynlegar breytingar á stjórnarskránni og láta frekari breytingar bíða annars tíma.

Á síðasta kjörtímbili var haldin mikil lýðræðisveisla – lýðræðistilraun er kannski orð yfir atbuðarrásina. Afturhaldsöflum landsins tókst að koma í veg fyrir að sú vinna nýttist landi og lýð.

Í upphafi þessa kjörtímabils var horfið aftur til gömlu aðferðarinnar og enn ein nefnd fulltrúa stjórnmálaflokkanna skipuð. Á dögunum kom árangur af 49 funda vinnu nefndarinnar fyrir sjónir almennings.

Afraksturinn er ekki byltingakenndur – og þó. Þjóðareignarréttur á auðlindum er tryggður, kjósendum tryggður réttur til að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslum og náttúru- og umhverfisvernd leidd í stjórnarskrá. Ég held að fyrir tíu árum hefðu þetta þótt róttækar breytingar. Nú þykir hins vegar mörgum þetta heldur þunnur þrettándi.

Gagnrýnt hefur verið að vinna nefndarinnar hafi ekki farið fram fyrir opnum tjöldum. Ég tek ekki undir þessa gagnrýni. Það var engin ástæða til að setja upp leikrit um samráð. Nefndin hafði úr öllu því efni að moða sem unnið var á síðasta kjörtímabili. Úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar 20. október 2012 voru ekki óljós. Fólk vill að stjórnarkrá stjórnlagaráðsins verið lögð til grundvallar nýrri stjórnarskrá.

Afraksturinn af vinnu nefndarinnar er ekki sá sem hann er vegna þess að nefndarmenn hafi starfað í tómarúmi. Það var einfaldlega ekki vilji til að fara að þessum skoðunum fólks. Enda endurspeglar meirihluti nefndarinnar þau öfl sem hvað hatrammast börðust gegn heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar á síðasta kjörtímabili.

Af hverju þá að taka þátt í starfi þessarar nefndar? Það er von að spurt sé. Staðreynd er að breytingar á stjórnarskrá eru á valdi Alþingis. Það þarf að færa stjórnarskrána til nútímans. Þess vegna tel ég rétt að taka þátt í vinnu sem lýtur að því. Að verklokum verður svo að meta árangurinn, er hann einhvers virði eða verður hann kannski bara til trafala.

Hin mikla áskorun er að ná þingmeirihluta til að fara að vilja fólksins og gera gagngerar breytingar á stjórnarskránni á grundvelli tillagna stjórnlagaráðsins. Við getum öll verið viss um að ekki er áhugi hjá þeim sem nú eru við völd að gera nokkuð umfram það sem staðan í stjórnarkrárnefndinni ber vitni um.

Gert er ráð fyrir að tillögurnar verði lagðar fram í þremur frumvörpum. Það var ekki ætlunin í fyrstu heldur átti að bera þær allar fram í einu lagi. Fólk stæði þá frammi fyrir því að samþykkja allar tillögurnar eða hafna þeim öllum.

Það fyrirkomulag fannst mér skynsamlegt, taldi að með því myndu menn vega sjónarmið saman. Nú að verklokum hef ég skipt um skoðun í þessum efnum, engin ein tillaga er þess virði að samþykkja aðrar til að koma henni í gegn. Ég er því mjög sátt við þá ætlan að bera tillögurnar fram hverja fyrir sig.

Nú að efni tillagnanna.

Auðlindaákvæðið.

Ég óttast það ákvæði ekki. Tekinn er af allur vafi um að auðlindin er í eigu þjóðarinnar, það skiptir höfuðmáli. Ég er ósammála þeim sem segja að ákvæðið rammi inn kvótakerfið.

Það er grundvallaratriði að í ákvæðinu segir að það skuli taka gjald. Það er er ekki heimilt að taka gjald heldur er er skylda að taka gjald. Það er og verður Alþingis að ákveða hvernig gjaldtökunni verður háttað. Til að taka dæmi af fiskveiðiauðlindinni þá er það Alþingis ákveða hvort verð á aflakvóta verður ákveðið á markaði eða hvort veiðigjald verður ákveðið með bókhaldsreiknikúnstum eins og nú er. Um það mun stjórnmálabaráttan snúast.

Menn hræðast orðin ,,að jafnaði”. Í vinnu nefndarinnar og umræðum þar um sannfærðist ég um að það þýðir að í þeim tilfelllum sem löggjafinn ætlar ekki að taka gjald þá þarf að rökstyðja það sérstaklega – rökstyðja hvers vegna vikið er frá meginreglunni. Þessi orð eru ekki þarna vegna nýrra fiskistofna, heldur vegna þess að ákvæðið nær til allra auðlinda í þjóðareign. Einfaldasta dæmið er um fjallagrös og ber, kannski viljum við bara ekki leggja gjald á þá sem tína þau.

,,Eðlilegt gjald” fer einnig fyrir brjóstið á mörgum en tilurð þess skýrist af því að gjaldið á að miðast við arðsemi af því að nýta auðlindina. Það þykir eðlilegt en kannski er betra að sleppa eðlilega orðinu.

Gagnrýni á þetta ákvæði finnst mér einkennast af vantrausti fólks á stjórnmálin og stjórnmálamenn, vantrausti á löggjafarsamkunduna, sem á að ákveða hvernig gjaldtökunni er háttað. Það vantraust er því miður alls ekki að ófyrirsynju. Sérhagsmunir hafa verið hafðir í fyrirrúmi og fólk treystir því ekki að svo verði ekki áfram nema það sé beinlínis neglt niður í stjórnarskrá.

Ég er stjórnmálamaður. Mín skoðun er sú að ákveða eigi verðið á markaði, fyrir þeir stefnu mun ég berjast héðan í frá sem hingað til. Það er auðvelt að byggja þá stefnu á þessu ákvæði. – En vissulega mælir ákvæðið ekki fyrir um þá aðferð.

Ákvæði um þjóðaratkvæði.

Ákvæðið er gamaldags, kannski jafnvel þegar úrelt. Einungis má kalla eftir atkvæðagreiðslum um lög sem Alþingi hefur samþykkt. Þröskuldur, sem segir að 25 % atkvæðisbærra manna þurfi að greiða atkvæði gegn lögum til þess að þau séu felld úr gildi, er of hár.

Ágreiningi um hvort kalla megi eftir þjóðaratkvæðagreiðslum um þingsályktanir er vísað til þingsins. En það er ekkert garantí fyrir því að þingið þurfi að taka það mál á dagskrá. Og það þarf aukinn meirihluta á þinginu til að samþykkja slíkt. Það þarf að hafa í huga að þau mál sem nú til dags valda mestum ágreiningi eru afgreidd með þingsályktunum. Nefni bara tvö: rammaáætlun og umsókn um aðild að Evrópusambandinu.

Þetta finnst mér dæmigert fyrir gömlu stjórnmálin og vilja stjórnmálaflokka til að halda stórum ákvörðunum frá almenningi. Það má vel vera að þetta sé betra en ekkert – en ekki er það smart.

Sagt er að vegna þess að getið er um þingsályktanir þá gangi tillögurnar lengra en frumvarp stjórnlagaráðsins. En þá þurfa menn að huga að samhenginu í því frumvarpi öllu. Frumvarp stjórnalagráðsins gerði ráð fyrir þjóðarfrumkvæði. Þjóðin gæti þá haft frumkvæði af því að leggja mál fyrir Alþingi.

Ég er sammála Sigmundi Davið um að hafa viljað sjá þjóðarfrumkvæði í þessum tillögum. En hugmyndum mínum um það var ýtt út af borði nefndarinnar á einum af fyrstu fundum hennar. Svo við tvö sitjum eftir með sárt ennið.

Náttúru- og umhverfisvernd.                                                                    

Minnstur ágreiningur var um náttúru- og umhverfisnefnd. Á lokametrunum voru hins vegar uppi kröfur um orðalag um inntak og afmörkun almannaréttar. Sú umræða endaði með að eftirfarandi setningu var bætt inn í ákvæðið: Mælt skal nánar fyrir í lögum um inntak og afmörkun almannaréttar. – Ég sannast að segja óttast nokkuð þetta orðalag þar sem mér finnst það mjög óljóst og átta mig satt að segja ekki alveg á hvaða hagsmuni er verið að verja, en tel þó að það séu hagsmunir landeigenda.

Framsal valdheimilda í þágu alþjóðasamvinnu.

Aumingjalegast finnst mér þó í vinnu nefndarinnar að ekki var vilji til að leggja til ákvæði um heimildir til alþjóðasamstarfs. Allir eru sammála um að slíkt ákvæði bráðvantar í stjórnarskrána. Alþingismenn komast með vissu millibili í þá stöðu að þurfa að gera upp hug sinn um hvort ákvarðanir þeirra standist stjórnarskrá eða ekki.

Þröngsýni og vilji stjórnarmeirihlutans til innilokunar landsins er slíkur að þeir vilja ekki að stjórnarkráin endurpegli breytta heimsmynd. Vilja ekki horfast í augu við að við höfum gert samning um samstarf á evrópska efnahagssvæðinu. Hvað þá að þeir megi til þess hugsa að frekara samstarf við útlendinga verði að raunveruleika í framtíðinni.

Hver er niðurstaðan af þessum pælingum?

Í rauninni þarf afraksturinn af vinnu stjórnarskrárnefndarinnar ekki að koma neinum á óvart. Er hægt að kalla þetta endurskoðun á stjórnarskránni eins og mælt var fyrir um í stefnulýsingu ríkisstjórnarinnar? Mér finnst það alveg spurning. Þetta eru tillögur að þremur nýjum ákvæðum. Ákvæðin eru rýr og þau eru ekki auðskilin.  (Það er við nefndina að sakast um það en ekki sérfræðinga sem voru henni til halds og trausts).

Þetta var engin svikanefnd, eins og einhverjir vilja halda fram. Allir störfuðu af heilindum, enginn gekk frá borði. Að leikslokum er útkoman augljós. Útkoman er sú sem afturhaldsöflin geta fallist á. Gjörið svo vel.

Þetta eru ekki tillögur sem við sem höfum barist fyrir endurskoðun stjórnarskrárinnar hrópum húrra fyrir. Þetta eru þeirra tillögur og þau hljóta að afla þeim stuðnings.

Við hin hljótum að berjast áfram fyrir því að tillögur stjórnlagaráðsins verði lagðar til grundvallar að nýrri stjórnarskrá, eins og samþykkt var í þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október 2012. Berjast fyrir því að jafna atkvæðisréttinn,  að endurskoða alla stjórnskipanina, samspil löggjafar- og framkvæmdavalds, hlutverk forsetans svo ekki sé minnst á mannréttindakafla stjórnarskrárinnar. Það er hin mikla áskorun.

Er það óábyrgt? Nei, það finnst mér ekki.

Flokkun : Pistlar
1,368