trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 11/11/2017

Um samkvæmni í skoðunum

Eftir Jón Steinar Gunnlaugsson

Þetta greinarkorn er skrifað í tilefni af pistli sem mætur ritstjóri Herðubreiðar birti hér á síðunni á dögunum „Samkvæmni Jóns Steinars“. Hann hefur verið svo vinsamlegur að leyfa mér að birta svar við pistlinum hér á sama vettvangi.

Ein þýðingarmesta grunnreglan í lýðræðislegu samfélagi er um frelsið til tjáningar. Þessi regla hefur ekki síst þýðingu fyrir þörfina á að leyfa óhefta umfjöllun borgaranna um meðferð valdhafa á því valdi sem þeir fara með og þá oftast til að taka ákvarðanir um hag manna og réttarstöðu. Til þessa valds heyrir vald dómenda til að taka íþyngjandi ákvarðanir um hagsmuni einstaklinga, meðal annars til að svipta þá frelsi sínu ef þeir teljast hafa brotið af sér þannig að í bága fari við lagareglur sem leyfa refsiviðurlög við brotum. Með frjálsri tjáningu um meðferðina á þessu valdi er þeim, sem með það fara, veitt aðhald sem felur í sér hvatningu til þeirra til að fara hóflega með það og beita menn ekki viðurlögum nema öllum skilyrðum fyrir því sé fullnægt.

Í réttarframkvæmd hér á landi og öðrum löndum sem skyld eru okkur að menningu og lögum hefur réttinum til að gagnrýna valdhafa verið veitt rík vernd. Þrátt fyrir þetta eru frjálsri tjáningu sett takmörk í lögum. Þau takmörk felast ekki síst í verndinni sem menn skuli njóta fyrir æru sína. Í þessu felst að við megum til dæmis yfirleitt ekki fullyrða að einstakir menn hafi brotið af sér með refsiverðum hætti, nema slíkt brot hafi verið staðfest af þeim stofnunum sem um slíkt fjalla, þ.e.a.s. dómstólum. Af þessum toga var mál Egils Einarssonar sem fjallað hefur verið um að undanförnu. Í tjáningu mannsins sem talaði um hann var fullyrt að Egill væri nauðgari, þ.e.a.s. að hann hefði framið gróft ofbeldisbrot á annarri manneskju. Egill hafði aldei verið fundinn sekur um slíkt brot og þess vegna naut hann verndar fyrir fullyrðingum um hið gagnstæða.

Í bók minni „Með lognið í fangið“, saka ég Hæstarétt Íslands um að hafa framið „dómsmorð“ á Baldri Guðlaugssyni með dóminum yfir honum um innherjasvik. Í dómsmorði felst samkvæmt skilgreiningu að hafa komist vitandi vits að rangri niðurstöðu um sakfellingu þess manns sem í hlut á. Hafi rétturinn gert þetta teldist hann hafa farið með vald sitt í andstöðu við refsilög og ætti slíkt framferði að varða dómarana refsingu samkvæmt almennum hegningarlögum. Og þá spyrja menn, hvort ég sé ekki að gera það sama og maðurinn mátti ekki gera í máli Egils, það er að saka dómendur í Hæstarétti um refsiverð lögbrot.

Hér er hins vegar ólíku saman að jafna. Þeir sem fara með opinbert vald verða að sæta því að um meðferð þeirra á valdinu sé fjallað með hvössum og aðgangshörðum hætti. Auðvitað hefur ekki verið staðfest með dómi, að dómararnir í Hæstarétti hafi misbeitt valdi sínu vitandi vits, þegar þeir sakfelldu Baldur. En ætli að mönnum sé þess vegna óheimilt að láta þá skoðun uppi að dómararnir hljóti að hafa vitað betur og þess vegna hafi þeir framið það sem nefnt hefur verið dómsmorð? Auðvitað ekki. Orðræða mín um þetta byggist reyndar öll á ítarlegum röksemdum sem ég birti í bók minni um meðferð málsins. Þar er meðal annars sýnt fram á að sakborningurinn var sakfelldur fyrir annað en það sem hann var ákærður fyrir. Þetta hljóta allir dómarar að vita að er með öllu óheimilt. Auðvitað hefði ég getað látið við það sitja að segja að dómararnir hafi ekki brotið gegn þessari grunnreglu í refsirétti af ásetningi heldur gáleysi! Þá hefði ég í raun fært fram miklu alvarlegri ásökun á hendur þeim en ég gerði. Sem sagt að þeir kynnu ekki meginreglur í sakamálaréttarfari. Ætli ég hafi þurft að klæða orðræðu mína í þennan búning til að mega segja skoðun mína á þessum dómi? Það var reyndar miklu meira að dóminum en bara þetta. Og dómarar við Hæstarétt hefðu átt að ráða við það flest. Nema þá að vilji þeirra hafi fyrir fram staðið til annars.

Öllum sem lesa bók mína er ljóst að notkun mín á orðinu dómsmorð byggist á ályktun af þeim röksemdum varðandi dóminn sem bókin greinir og varða allar forsendur sem fram koma í dóminum sjálfum (eða koma ekki fram en hefðu átt að gera það). Þetta er það sem í meiðyrðafræðunum hefur verið nefnt „gildisdómur“. Slíkur dómur nýtur sérstakrar helgi relgunnar um málfrelsi, enda verða menn að fá að tjá skoðanir sínar á mönnum og málefnum, jafnvel þó að skoðun lúti að því að farið hafi verið með opinbert vald í andstöðu við lög. Opinber tjáning hlýtur reyndar að teljast njóta sérstaklega ríkrar verndar þegar fjallað er um meðferð á slíku valdi.

Nú hefur einn af dómurum Hæstaréttar höfðað mál á hendur mér fyrir meiðyrði. Verði fallist á málatilbúnað hans um það hlyti að felast í þeim dómi bann gegn því að borgarar í þessu landi megi gagnrýna meðferð opinbers valds á þeim grundvelli að valdhafar hafi misfarið með það gegn betri vitund. Kannski við ættum þá öll að sameinast í því að stofna sellur í lokuðum herbergjum þar sem við gætum talað um misbeitingu ríkisvalds hvert við annað, án þess að aðrir heyri? Sú þöggun sem í því fælist myndi færa þjóðina einu skrefi nær því að vilja beita ofbeldi gegn misnotkun ríkisvalds. Við skulum frekar leyfa aðferð lýðræðisins, frelsið til tjáningar.

Jón Steinar Gunnlaugsson

 

1,250