trusted online casino malaysia
Margrét Tryggvadóttir 22/08/2016

Týndu börnin

Við munum öll eftir ævintýrunum um umskiptingana. Góða barninu var stolið og í stað þess kom umskiptingur sem ekki var þessa heims. Upp kemst þó um síðir og góða barnið kemst heim til foreldra sinna. Við eigum líka sögur af börnum og ungmennum sem villtust af leið sinni, þurftu að leysa þrautir og verkefni en komust heim aftur, reynslunni  ríkari og heil á húfi. Ýmsir hafa haldið fram að við þurfum á slíkum sögum að halda til að sannfæra okkur um að þegar öll sund virðist lokuð sé til leið og að allt verði gott að lokum.

Fjölmiðlar birta okkur oft lífsreynslusögur ungs fólks og foreldra sem hafa þurft að glíma við þungar þrautir. Ungmenni leiðast út í heim vímuefna og hverfa frá fjölskyldum sínum, skóla og vinum. Ástæðurnar geta verið margar og því miður eiga sum ungmenni lítið til að hverfa frá. Annarra er sárt saknað. Sum komast aftur heim, stundum reynslunni ríkari, stundum stórsköðuð. Sum hverfa að eilífu.

Í gegnum tíðina hef ég fylgst grannt með umfjöllun um þessi mál; lesið eða horft á viðtöl við krakkana sjálfa, foreldra þeirra og vini og fólk sem starfar að þessum málum. Alltaf fæ ég stein í hjartað og hugsa um mín eigin börn. Hvað ef? Og næði ég þeim aftur heilum á húfi?

Því miður höfum við búið þannig um hnútana, ekki bara í okkar samfélagi heldur víða um heim, að þegar manneskja notar það sem skilgreint er sem ólögleg vímuefni ýtum við henni út á jaðar samfélagsins. Hún skal vera utangarðs, útskúfuð. Hún verður að bjarga sér sjálf í undirheimum þar sem lögmál hörkunnar gilda. „Honum er nær, hann vissi að þetta var bannað,“ er algengt svar. Mörg okkar hafa þá mynd af vímuefnaneytendum að þar fari glæpamenn. Og glæpamenn eiga enga samúð vísa og því finnst mörgum ekki bara ásættanlegt heldur það besta í stöðunni að loka þá inni eða gera brottræka úr mannlegu samfélagi. Og minnsta mál að þeir missi vinnuna.

En hugsum nú um okkar nánustu. Ímyndum okkur að barnið okkar leiddist út á þessa braut. Ímyndum okkur að okkar eigið afkvæmi væri „týnt barn“ og við vissum ekki hvar það héldi til. Ímyndum okkur að stúlkan okkar seldi aðgang að líkama sínum fyrir fíkniefni. Ímyndum okkur að þegar drengurinn okkar tæki of stóran skammt þyrðu félagar hans ekki að hringja á sjúkrabíl en reyndu þess í stað að setja hann í kalda sturtu og láta hann drekka vatn. Ímyndum okkur að það dygði ekki til.

Við þurfum að horfast í augu við að það verður aldrei mögulegt að koma í veg fyrir vímuefnaneyslu. Ísland verður aldrei fíkniefnalaust. Vímuefni hafa fylgt mannkyninu frá örófi alda og munu gera það áfram. Við getum ekki einu sinni hamið vímuefnaneyslu í fangelsum þar sem öryggisgæsla, skimun og eftirlit er sem mest. Það þýðir ekki að við eigum ekki að ráðast gegn þessum vanda. Við þurfum hins vegar að skipta um aðferð. Hræðsluáróður og glæpavæðing hefur gert illt verra, gert viðskipti með ólögleg fíkniefni ábótasamari og stöðu fíkniefnaneytenda skelfilega. Okkar verkefni er að minnka skaðann. Fíkniefnavandinn er heilbrigðisvandamál og við eigum að ráðast gegn honum sem slíkum. Það er óþarfi að finna up hjólið. Afglæpavæðing fíkniefnaneyslu hefur verið reynd víða og árangurinn betri en af þeirri stefnu sem rekin hefur verið síðustu áratugi. Víða um heim hefur orðið vakning í þessum málum og mannúðlegri nálgun að verða ofan á. Lærum af reynslu annarra þjóða sem hafa fikrað sig þessa leið, en eflum fræðslu og forvarnir. Höldum betur utan um krakkana sem standa höllum fæti. Finnum týndu börnin áður en vandi þeirra verður óyfirstíganlegur. Eflum skaðaminnkandi úrræði á borð við Frú Ragnheiði. Virðum mannréttindi fíkniefnaneytenda því þeir eru fólk eins og við.

Gleymum því aldrei.

Family_Portrait

Mynd: Wikimedia Commons.

Flokkun : Efst á baugi
1,314