Tríó örvæntingarinnar
Í fyrradag kvað Mannréttindadómstóll Evrópu upp dóm yfir réttarfarinu í landinu. Hann svipti hulunni af feysknum stoðum þess. Þess vegna brennur á þeim botninn, talsmönnum Sjálfstæðisflokksins, því það eru þeir sem lengstaf hafa haldið um og í pólitíska þræði dómsmálanna. Og gera enn. Þeir iða vegna dómsins og yfir hugsanlegum afleiðingum hans. Aka sér í takt, skrifa og tala einni röddu, samæfðri, upp úr sameiginlegri orðabók. Hæst lætur í þremur körlum, Tríói örvæntingarinnar.
Það er ekki ætlun pistlahöfundar að kryfja dóminn. Enn síður skrif tríósins eða orðræðu. Tilgangurinn er aðeins sá að benda á hverjir skipa það svo fleiri en ella geti fylgst með hvað frá þeim fer. Þeir eru í stafrófsröð:
Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra frá 23. maí 2003 til 1. febrúar 2009, formaður Verðbergs, “eftirlaunaþegi.”
Davíð Oddsson, fyrrverandi forsætisráðherra, dóms- og kirkjumálaráðherra frá 11. maí til 28. maí 1999, ritstjóri Morgunblaðsins og “eftirlaunaþegi.”
Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómari, starfandi lögmaður.
Nú um stundir koma þeir félagar fram daglega í blöðum, sjónvarpi og á netinu, einn hér annar þar. Sameinað kemur Tríó örvæntingarinnar hins vegar aðeins fram í Valhöll, en líka á fundum hjá Varðbergi. Fólk er hvatt til þess að opna augun og lesa það sem frá þeim fer og leggja eyrun að og hlýða á mál þeirra.
- Sálumessa - 02/07/2020
- Umhverfisvændi - 21/04/2020
- Er brennivínið besti kostur? - 26/03/2020