trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 27/09/2019

Töffarinn

Karl Th. Birgisson skrifar

Nú þarf ég að finna hatt svo ég geti tekið ofan fyrir Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra.

Hún réð sér sumsé tvo aðstoðarmenn í dag. Annar þeirra er Hreinn Loftsson.

Þetta er merkisfrétt á marga vegu og bendir til þess að nýi dómsmálaráðherrann okkar hafi stálhart bein í nefinu.

Aðrir hafa réttilega bent á að Hreinn hefur verið lögmaður annars þeirra sem ríkislögreglustjóri bar fráleitar og fordæmalausar sakir á í sumar, sem hann var svo neyddur til að biðjast afsökunar á.

Hreinn hefur semsagt gagnrýnt og jafnvel fordæmt bæði ríkislögreglustjóra og dómsmálaráðuneytið sjálft. Hann er nú orðinn aðstoðarmaður dómsmálaráðherra.

Allt er þetta satt og rétt, en samt aðeins brot af því sem gerir fréttina merkilega.

Hreinn Loftsson var nefnilega á sínum tíma aðstoðarmaður Davíðs Oddssonar í forsætisráðneytinu og síðar – hallið ykkur nú aftur – stjórnarformaður Baugs Group.

Baugur var í eigu Bónusfjölskyldunnar, uppáhaldsóvina Davíðs Oddssonar á árunum um og upp úr aldamótum. Af því leiddi einn sérkennilegasta skandalinn í kringum Davíð Oddsson og er þó af ýmsu að taka.

Snemma árs 2003 sló Fréttablaðið því upp á forsíðu af Baugur óttaðist aðgerðir lögreglunnar, að undirlagi Davíðs. Heimildin var texti upp úr fundargerð stjórnar Baugs. Lögreglan átti sannarlega eftir að beita sér gegn Baugi, svo að fréttin leit ekkert sérstaklega vel út fyrir Davíð.

Örfáum dögum síðar, að morgni bolludags, kom Davíð í viðtal hjá Ríkisútvarpinu og smurði þar sinni frægustu smjörklípu í feld hlustenda. Hann fullyrti semsagt að Hreinn hefði á fundi þeirra í Lundúnum reynt að múta honum, í einhvers konar sáttaskyni. Fjárhæðir upp á nokkur hundruð milljónir voru nefndar í þessu sambandi.

Þar með fór umræðan frá því að snúast um pólitískar ofsóknir á hendur Baugi og að þessari meintu tilraun til mútugreiðslu. Smjörklípan heppnaðist og Davíð komst upp með að svara því engu, hvers vegna hann hefði ekki vísað þessari svívirðu til lögreglunnar. Hann hefði jafnvel getað kallað til vitnis Illuga Gunnarsson, þáverandi aðstoðarmann sinn, sem var þó hugsanlega á salerninu eða úti í búð þegar samtalið átti sér stað.

Nema hvað. Á eftir fylgdi einhver harkalegasti hjónaskilnaður Íslandssögunnar nánast í beinni útsendingu, þar sem Hreinn sparaði engin orð í garð Davíðs Oddssonar. Og öfugt, því að um engan talaði Hannes Hólmsteinn Gissurarson verr þessi misserin – eða rægði, svo það sé bara sagt – en Hrein Loftsson.

Um bolludagsmálið sagði Hreinn síðar: „Það er furðulegt að enginn skuli hafa krafist rannsóknar á því reginhneyksli, sem var hreinlega rugl.“

Jæja. Setjum þetta nú í samhengi við okkar tíma.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir hefur ekki farið varhluta af gagnrýni – svo við orðum það pent – Davíðs Oddssonar ritstjóra Morgunblaðsins upp á síðkastið. Flest af því hefur verið hefðbundið raus, en annað mun harkalegra.

Hún hefur svarað fullum hálsi og aftur núna.

Hún var nefnilega ekki bara að ráða sem aðstoðarmann sinn skeleggan gagnrýnanda ríkislögreglustjóra – sem hún neitar að lýsa trausti á – heldur einn af einörðustu andmælendum Davíðs Oddssonar.

Það heitir á götustrákamáli að rétta báðar löngutengur upp samtímis.

Í minni orðabók heitir það að vera töffari.

En hafið mig nú afsakaðan. Ég þarf að fara og finna hatt.

1,765