trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 18/06/2014

Til hamingju með mig, Íslendingar!

Eftir Önu Stanićević

(Mynd: RÚV)

(Mynd: RÚV)

Hinn 17. júní 1982 var haldið stórkostlegt brúðkaup í heitu landi í suðrinu. Hjónin vissu ekki að það var á sama tíma haldin 38 ára afmælisveisla einhvers lands norðan við hafið. Þau grunaði alls ekki hvaða afleiðingar þessi forvitnilega tilviljun myndi hafa. Hún hét Snežana, sem þýðir Mjallhvít og hann hét Dragan, altso Dreki. Nokkrum árum seinna fæddist dóttir þeirra, Ana Mjallhvít Drekadóttir − svo að segja. Mjöllin varð að ísi og drekinn spjó eldi − en dóttirin í þessu suðræna landi? Hún var frá blautu barnsbeini dregin að norðrinu þangað til hún loks fann landið norðan við hafið, land íssins og eldsins sem er eins og saumað eftir máli við eðli hennar.

Ég er afkvæmi ástar sem fagnað var á fæðingardegi Íslands og aðdráttaraflið sem ég fann fyrir öll þessi ár dró mig hingað að lokum. Til eyjar í Atlantshafi. Þar sem maður getur sungið upphátt á leiðinni í háskólann, af því að vindurinn spilar á flautu enn hærra, og af því að það eru litlar líkur á því að maður mæti einhverjum á leiðinni sem heyrir sönginn. Þar sem kennitalan segir meira um mann en fésbókarsíðann, þó að það sé reyndar ekki gefið. Þar sem eru fleiri hljómsveitir en menn, því kindur eru svo passé. Þar sem norðurljósin dansa á vetrarhimninum og drukkið fólk dansar á barnum. Þótt réttara væri að nota „vagga“. Um það síðara, sem sagt. Ég kom til landsins fyrir tæplega þremur árum til að læra tungumál þessa fólks og til að skilja betur hrifningu mína.

Aðblástur. Það er stutta svarið við spurningunni „af hverju íslenska?“. Þetta er smá fráblástur sem kemur fyrir lokhljóð og þó að þetta sé mjög sérstakt einkenni sem er ekki víða að finna í heimsins tungumálum, vita fæstir Íslendinga af því. Sem dæmi má taka orðið „ekkert“. Það er eins og maður andi frá sér til að tæma innihaldið og herma eftir sjálfri merkingu orðsins. Ekkert! Þegar ég fékk hljóðfræðilega skilgreiningu á framburðinum mínum á öðru ári í íslenskunámi með umsögninni „frábær aðblástur“ fannst mér eins og ég væri að meika það í lífinu.

Eftir fyrsta árið í íslenskunámi gat ég lesið skáldsögur á íslensku og talað við Íslendinga á móðurmáli þeirra. Eftir annað ár gat ég haldið ræðu á ársfundi Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum fyrir framan sérfræðingana sem maður dáist svo að og jafnvel farið í viðtal á íslenskri sjónvarpsstöð. Og núna eftir þriðja námsárið er ég búin að þýða íslenska bók og skrifa umfjöllun um hana á íslensku. En samt kemur fyrir að Íslendingar, sem ég hitti eða umgengst, vilji tala við mig á ensku. Af því að bara Íslendingar tala íslensku. Um leið og einhver lítur út fyrir að vera útlendingur, þá talar Íslendingur samkvæmt því útlensku við hann. Útlendingar tala bara útlensku. Að minnsta kosti ekki íslensku, enda erfiðasta tungumálið í heiminum! Sannleikurinn er sá að ég tala aðallega bara innlensku við aðra erlenda námsmenn og vini hér á landi. Þetta er tungumál sem ég nota daglega, þó að ég sé dökkhærð og brúneygð. Ég hélt að ég hefði loksins orðið ljósari á hörund hér fyrir norðan í eílifu myrkrinu – vampírudraumur allra goth-krakka – en mér var sagt um daginn að ég væri svo dökk og falleg. Kannski er það ekki svo slæmt að vera smá eksótísk. Eins og segir í einni sænskri kvikmynd: „Exotisch – det betyder „bra“ på tyska!“

Þetta reddast. Lífsstíll sem Íslendingar alast upp við. Það kemur ekki á óvart að þeir skuli lifa svona lengi. Hér er ekkert stress og engum dettur í hug að æsa sig yfir hlutum. Þegar allt virðist svo flókið, finnur Íslendingur lausn með heillandi tilþrifum. Frasinn „þetta reddast“ pirrar mann stundum. Þegar maður er vanur því að hafa stjórn á hlutunum, þá getur þessi ofurafslappaða afstaða farið í taugarnar á manni. En umfram allt er þetta besta lexía sem maður getur lært af Íslendingum – að taka það rólega og skilja að allt leysist. Sjálf hef ég í þessum skilningi alltaf að einhverju leyti verið Íslendingur á fæðingarstað mínum, en jafnvel ég hef lært heilmikið og á eftir að ná því afslöppunarstigi sem ríkir hér á landi.

Erfiðust finnst mér ennþá þessi leið til Útlendingastofnunar. Hringbraut sem verður að Miklubraut. Þessi leið er ekki ætluð fyrir fólk. Fyrir bíla, kannski. Í hvert skipti sem ég fer þangað − og það er nokkrum sinnum í röð tvísvar á ári, eftir að hafa safnað saman ýmsum gögnum út um allan bæ aftur og aftur – þá er veðrið ömurlegt. Hræðilegt rok og rigning. Einu sinni var ógleymanlegur snjóstormur sem gekk yfir bókstaflega á sama augnabliki og ég steig fæti inn á háskólasvæðið. Mér finnst alltaf eins og veðrið endurspegli með mikilli nákvæmni tilfinningar mínar þegar ég labba þessa leið. Sennilega er náttúran að stríða mér – eða er veðrið oftast slæmt hér? Eiríkur Örn Norðdahl leysir gátuna án þess að hika: „Á Íslandi er og verður kalt, sama hvað hver segir og gerir. Í miðju Atlantshafinu er einfaldlega ekkert annað í boði.“

Það er nokkuð skrýtið að þurfa að sannfæra fólk um að maður sé nógu góður til að búa í einhverju landi, sérstaklega ef það er land sem maður oft lítur á sem heimaland. Enn skrýtnara er að hugsa til allra hinna sem þurfa ekki að sannfæra einn eða neinn, annaðhvort af því að þeir eru af íslenskum uppruna eða fæddir í landi sem samkvæmt einhverjum samningi er á lista yfir þjóðir sem þurfa ekki að sýna fram á rétt sinn til að eiga heima hér – margir þeirra myndu sennilega ekki standast þær kröfur og próf sem við hin þurfum að gera. Ástæða þess er einfaldlega sú að þeir eru ekki ofurmanneskjur. En ástin er blind og maður gerir kraftaverk til að geta verið þar sem manni finnst maður eiga heima. Jæja, þetta reddast.

Skáldsagan sem ég er nýbúin að þýða úr íslensku yfir á serbnesku er Mánasteinn eftir Sjón. Í fræðigreininni sem ég skrifaði um hana einbeitti ég mér að aðferðum sem Sjón notar við ritun skáldsögunnar, en þær líkjast expressjónisma í myndlist. Til rökstuðnings notaði ég myndheim Edvards Munchs. Ég er hrædd um að útgefendur í Serbíu eigi frekar eftir að veita grófum kynlífslýsingum milli samkynhneigðra athygli. Sjón hefur hlotið verðlaun fyrir eina þeirra á Íslandi, Rauðu hrafnsfjöðrina, enda ekkert minna en epísk kynlífslýsing:

Drengurinn snýr sér að rennibekknum og beygir sig fram. Matrós inn þrýstir limnum inn í hann.

Fyrst er sunginn þjóðsöngur Danmerkur, „Det er et yndigt land“, og svo sá ís enski, „Ó, guð vors lands“. Húrrahrópunum ætlar aldrei að linna.

Á sama andartaki og Máni Steinn fær fullnægingu finnur hann heitt sæði matrósans sprautast inn í sig – og um leið er lagerhurðinni sparkað upp.

Frá dyrunum berst örvæntingarfullt hróp:

– Nej, Mogens, for helvede, hvad laver du?

Það er eðlilegt að stoppa við þessa lýsingu, en áhyggjur mínar snúast um ástæðurnar sem liggja að baki því að henni er veitt athygli. Það er því miður ekki jafn sjálfsagt að tala opinberlega um efni af þessu tagi allstaðar á þessari jörð, ekki einu sinni allstaðar í Evrópu. Það er heldur ekki sjálfsagt að sjá skeggjaðar manneskjur í ballkjólum út um allan bæ eftir Júróvísjón-söngvakeppnina, eins og maður gerir í Reykjavík. Það kemur örugglega ekki á óvart að ég táraðist af gleði þegar ég sá hóp táningsstráka syngja við lög Haffa Haffs og búa til hjörtu með höndum sínum á fyrstu gleðigöngunni minni í Reykjavíkurborg. Af þessu ættu Íslendingar að vera mjög stoltir.

Annarstaðar í heiminum er heldur ekki venja að setja tölvu eða síma á borð á kaffihúsi til að gefa til kynna að það sé frátekið og fara svo á salerni eða út að reykja. Þegar vinkona mín hendir töskunni sinni frá sér í góðum fíling á dansgólfinu, finnum við hana á barnum næsta dag í hvert einasta skipti. Vinkona mín er nú löngu hætt að hringja í bankann til að aflýsa kortinu sínu. Innihald töskunnar er alltaf ósnert. Ef einhver finnur týnt dót, þá finnur hann líka leið til að koma því til eigandans. Þetta öryggi er afar verðmætt og við verðum að halda í það.

Ekki síður eru smábörn sofandi í kerrum á götum óvenjuleg og sérstök sjón sem vitna um frelsi sem er ekki víða að finna. Og hvaðan koma eiginlega öll þessi börn? Það er augljóslega frábært að vera barn á Íslandi og heldur ekki svo slæmt að vera foreldri. Foreldrar geta farið í nám og unnið samtímis í því að eignast börn og stofna fjölskyldur. Það er lúxus sem ég hef ekki séð annars staðar. Samt sem áður finnst mér ennþá erfitt að venjast því að svo margt ungt fólk eigi börn. Stundum finnst mér eins og fólk ætti að fara aðeins varlegar, samtímis sem ég dáist að því hvað það tekur óvæntum meðgöngum af miklum léttleika og gleði. Það er til fyrirmyndar. Lífinu er fagnað á Íslandi.

Og Íslendingar fagna oft á djamminu. Það er djamm í kvöld. Og það er djamm á morgun. Og ekki á morgun, heldur hinn. Og hinn. Og hinn. Og hinn. Bragi Páll Sigurðarson spýr í Fullkomnu ljóði: „Reykjavík, Ó Reykjavík, Reykjavík Re ýkja vik […] Af hverju drepuru alla snillingana þína? Hvað ertu að fokking gera?!? Ég væri að ljúga ef ég segði að mér fynndist ekki sjarmerandi að vera hluti af þessari einsleitu hreyfingu sem allir verða að í skjóli næturklúbbsins. En ég væri líka að forðast sannleikann ef ég þegði um það hvað mér þykir leitt hvað margir eiga erfitt með að tjá tilfinningar sínar án áfengis. Kærustupör verða til á forvitnilegasta hátt sem ég hef nokkurn tíma séð. Það virðist vera miklu auðveldara fyrir „afkomendur Egils Skallagrímssonar“ að afhjúpa kynfærin, en færi hjartans. Ég bið Bjarka Karlsson innilegrar afsökunar á notkun framvinduhorfs, en ég er ekki að skilja ást!

Stundum líður mér svo illa

að mér finnst eins og ég búi

í Breiðholtinu

 

eins og hjarta mitt sé bara herbergi

í risavaxinni blokk

Orð Dags Hjartarsonar hafa oft bergmálað í eyrum mér á þessari eyju. Þó að ég hafi eiginlega aldrei komið í Breiðholtið. Maður þarf að taka strætó þangað og ég er algjör miðbæjarrotta. Mér finnst meira gaman að súpa á latte í 101 Reykjavík, eða meira að segja, búa til latte fyrir 101 Reykvíkinga! Ég geri jafnvel soya latte. Þetta er alvarleg vinna − kaffi er orkugjafi allra þessara tónlistarmanna, rithöfunda, leikara, myndlistarmanna, heimspekinga sem bíða eftir kaffinu sem ég laga. Ég er í vissum skilningi ljósmóðir listar og menningar í þessu landi.

Meirihluti menningarneyslu minnar hefur í mörg ár verið á íslensku efni og hvílík stórkostleg upplifun það var að geta loksins komist í tæri við skáldin og listamennina. Að geta farið á útgáfuhóf skálds sem maður hefur bara lesið heima í herbergi þrjú þúsund kílómetra fjarlægð og séð fimm uppáhaldshljómsveitir spila á sama kvöldinu – þetta er einstök tilfinning. Fyrst í stað langaði mig til að útskýra fyrir öllum þessum tónlistarmönnum hversu ótrúlega sérstök tónlistarsenan þeirra væri. Allir vinna saman óháð því hverskonar tónlist þeir spila og allar hljómsveitir eru góðar í því sem þær gera, jafnvel þegar meðlimirnir eru bara sautján ára gamlir. Ég veit að þetta hljómar eins og ýkjur, en aldrei hef ég heyrt jafn mikið af góðri tónlist á einum litlum stað. Auk þess hef ég ennþá ekki hitt Íslending sem hvorki leikur á hljóðfæri né syngur. Mér sýnist allir í þessu landi vera með tónlistareyru. Haldgóða skýringu á þessu dularfulla fyrirbæri hef ég enn ekki fundið. En gargandi snilld er það!

Vindarnir syngja á gluggakistinni minni og ég bragða salt af sjónum. Lengi hefur mig langað til að geta svarað spurningunnni „hvar áttu heima?“ með þessum orðum:

Ég á heima við sjóinn

og á nóttunni

þá kafa ég niður

undir allar iður

niður á hafsbotninn

og ég legg út akkerið

hér vil ég vera

hér á ég heima.

Afsakið ákafa minn. En allar klisjukenndu frásagnirnar um að maður verði eitt með náttúrunni rættust hjá mér á Íslandi. Ég sat við öskrandi sjóinn á klettunum undir Snæfellsjökli ein með fuglunum sem minntu mig á að ég væri bara gestur á heimili þeirra. Það var hlý og björt júlínótt. Sumarnæturljósin gerðu allt óraunverulegt og draumkennt, en ég var raunverulegri en nokkru sinni fyrr. Alveg frjáls og lifandi fannst mér ég vera þegar ég hljóp tilgangslaust á Heklu á svörtu hrauni með skærgrænum runnum af grasi hér og þar sem ítrekuðu öfl lífsins á óhugsanlegum stað. Myndhverfing um iðandi líf á Íslandi.

Óskiljanlega mikið fjör er í höfuðborginni. Manni líður eins og maður sé í stórborg. Samt sem áður er hún svo lítil og persónuleg að maður þekkir hvern krók hennar eins og vasann sinn. Þessi samleikur spennu og dáleika gerir samband mitt við Reykjavík að fullkomnu ástarsambandi. Hún lykur um mig löngum armi sínum eins og draumur, en vonandi er fall mitt ekki falið í honum.

stundum líður mér svo vel

að mér finnst eins og ég búi

í Vesturbænum

eins og hjarta mitt sé garður

og þú liggir í grasinu

Dagur skín bjart eins og sólin og lýsir daga mína á eyju í Atlantshafi. Þeir eru töfrandi og galdurinn virðist aldrei hætta að hafa áhrif á mig. Svo mikla fegurð hef ég ekki skynjað áður í öllu sem umlykur mig, í öðrum og mér. Ég er fanginn af ást.

Það er örugglega kominn tími til að loksins koma út úr skápnum og viðurkenna opinberlega að ég er byrjuð að yrkja ljóð á íslensku líka. Af þessu tilefni langar mig að frumflytja eitt ljóða minna sem heitir Ó!þólinmæði.

það sem liggur ekki á

liggur ekki á hjartanu

það sem liggur í hjartanu

liggur ekki á

Ég er Ana Mjallhvít Drekadóttir. Ég er Ana með einu n-i. Á Íslandi er ég reyndar með löngu a-i. Íslendingar kalla mig Önu − og eins gott þeir beygi mig! Þegar þú setur nafnið mitt inn í beygingarmynstur íslenskunnar ertu að taka mig í faðm þér. Hér vil ég vera, hér á ég heima. Í samlífi eldgosa og jökla. Í spennu íssins og eldsins. Í samkeppni ljóss og myrkurs. Á milli Breiðholts og Vesturbæjar, í 101.

Til hamingju með brúðkaupsafmælið, mamma og pabbi!

Til hamingju með afmælið, Ísland!

Til hamingju með mig, Íslendingar!

Ana Stanićević, 17. júní 2014

1,296