trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 31/03/2015

„Þú ert í maníu, þú ert í maníu, viltu ekki koma með mér?“

Héðinn UnnsteinssonNýlegt viðtal í Kastljósi við Héðin Unnsteinsson vakti mikla athygli, en þar lýsti hann samskiptum við heilbrigðiskerfið vegna geðsjúkdóms sem hann er haldinn. Héðinn hefur fest reynslu sína á bók, Vertu úlfur. Herðubreið birtir hér kafla úr bókinni með góðfúslegu leyfi.

 

Næstu nótt reyndi ég að sofa lítið eitt en vaknaði eftir skamman svefn og fór út klukkan sex, ætlaði í sund en það var ekki búið að opna sundlaugarnar. Ég gekk því um göturnar og hélt niður í bæ. Líkaminn var fjaðurmagnaður og kraftmikill. Mér leið eins og toppklassa íþróttamanni. Ég var í hnébuxum, hettupeysu og með derhúfuna. Mig langaði í morgunmat en var vísað frá á tveimur stöðum. Þeim hefur án efa fundist ég eitthvað skrítinn. Loks var það hótel í miðborginni sem seldi mér yndislegan morgunmat.

Allt skipti þar máli. Ég sá að starfsstúlkan hét Þorgerður, nafn úr Egilssögu sem tengdist Grími háleyska. Hann var enn með mér. Ég horfði á uppröðun ávaxtanna á diskinum og hvernig hnífapörin lágu sitt hvorum megin við hann á köldu marmaraborðinu. Lega þeirra táknaði hvert beina skyldi orku minni.

Ég kláraði matinn og fór.

Mig langaði í vindil og fór því í sólarhringsverslun og keypti einn vindil og eldspýtur. Þegar ég hugðist halda út stóðu fjórar manneskjur fyrir utan hurðina og sneru baki í hana. Þetta voru augljóslega eftirlegukindur næturinnar og þær virtust illa á sig komnar. Maður og þrjár konur. Ég gekk ákveðið út, stakk höndum á milli þeirra og stjakaði þeim til hliðar um leið og ég sagði hátt: „Afsakið.“ Þau hrukku til hliðar og ein stúlkan datt. Ég gekk rólega út en fann allt í einu hönd á öxlinni á mér. Maðurinn í hópnum, ungur í annarlegu ástandi, veittist að mér og þrjár ógæfulegar næturdrottningar fylgdu á eftir. Þau réðust öll að mér. Í fullu fjöri, í miðju oflæti, hamrammur, kastaði ég þeim af mér hverju á fætur öðru. Bakkaði svo út af vígvellinum, tók vindilinn sem enn var óskemmdur, kveikti í og horfði á fjórmenningana liggjandi á hellunum. Ég gekk svo beinustu leið inn á Hótel Borg og bað starfsmann þar að hringja á lögregluna. Ég gekk að því búnu heim á leið. Kíkti aðeins fyrir hornið fyrst. Lögreglan var ekki komin.

Punkturinn var ekki langt undan og klukkan að verða átta. Á miðri leiðinni þangað fann ég fyrir skyndilegum ótta. Hvað var á seyði? Eftir á að hyggja þá hafði kerfið mitt legið hálfpartinn niðri í mánuð en var nú að taka við sér. Öll eðlileg viðbrögð virtust vera um fimm mínútum of sein. Ég herti gönguna í sumarveðrinu.

 

Inga Dóra horfði á mig þennan morgun þegar ég kom til baka og spurði mig hvað hefði gengið á. Ég sagði henni frá átökum morgunsins og þá spurði hún mig beint út hvað væri langt síðan ég hefði verið með konu. „Það er langur tími,“ sagði ég henni. „Þú býrð yfir svo ótrúlegri orku núna. Þú verður að fá einhverja snertingu,“ sagði hún og lagði til að ég færi í nudd. Hún vissi um góða kínverska nuddstofu niðri í bæ og bauð mér einn tíma þar. Þannig varð það úr að í stað þess að leita mér að konu til að deila með orku minni og öllu rafmagninu fór ég á nuddstofu. Ég hafði fram að þessu reynt að setja alla þessa orku og rafmagn í tvo steina og vatn. Ég þarfnaðist jarðtengingar í holdi annarrar mannveru.

Á nuddstofunni unnu eingöngu Kínverjar. Eigandinn var ung, kínversk kona sem talaði íslensku og hjá henni unnu tvær konur. Anddyrið var uppfullt af falboðnum munum. Eigandinn benti mér á aðstöðu þar sem ég gæti afklæðst og sveipað mig handklæði og þar til gerðri lendaskýlu. Þegar ég kom út úr klefanum sá ég að það var íþróttasalur innar á ganginum. Ég dróst þangað inn. Á miðju gólfinu var rauður punktur og ég sá umsvifalaust að þetta var minn punktur. Ég fór í punktinn. Það var enginn í salnum að ég hélt og hér gat ég iðkað mínar samúræjaæfingar út frá rauða punktinum. Ég hófst handa, hreyfði mig með mýkt tígursins og hraða snáksins en hægði svo á og spann orkuna upp í innri punkti áður en höggið kom. Ég heyrði hlátur. Á dýnu innst í salnum lá austurlenskur maður, greinilega sérfræðingur í bardagafræðum. Ég hélt áfram mínum æfingum. Rafmagnið og orkan innra með mér kraumaði. Það var kallað á mig á kínversku á ganginum.

Nuddkonan var klár.

Hún var miðaldra og sterkleg. Ég gerði eins og hún sagði. Lagðist á lendaskýlunni einni fata á magann og hún byrjaði að nudda. Hún talaði enga ensku og því hafði eig- andinn sagt mér að slá einu sinni laust í hana ef ég vildi að hún mýkti nuddið og tvisvar ef ég vildi að hún tæki fastar á mér. Hendur hennar voru sterkar, hún nuddaði vel. Ég gat varla legið kyrr. Ég sló tvisvar laust á handlegg hennar og svo aftur tvisvar. Ég sló hana aldrei einu sinni. Ég gat ekki fengið nóg af snertingu hennar. Hún nuddaði axlirnar og ég teygði upp hendurnar og greip um hana. Fyrst handleggina, svo mjaðmirnar og byrjaði að nudda hana af krafti til baka. Hér var hafin hringrás orkuflæðis á milli tveggja einstaklinga, að því mér fannst. Þessi orkuhringur stóð í nærri tvo tíma.

Ég réð ekkert við orku mína og nuddaði þessa kínversku konu fram og til baka um leið og hún nuddaði mig með öllum tiltækum ráðum. Svo þegar kom að því að snúa sér við var orkan búin að sprengja af sér lendaskýluna. Sú kínverska greip flissandi handklæði og breiddi yfir mig. Hún hélt áfram að nudda mig þar sem ég iðaði um á bekknum í rafmögnuðu rússi. Þetta voru ótrúlegir tveir tímar. Hún var rennsveitt, hafði nuddað upp í mér spennu og straum. Ég rann út af stofunni kraftmeiri en nokkru sinni fyrr og beint upp í leigubíl. Allar orkustöðvar fullar og sjálfstraustið í hámarki, auk þess sem ályktunarhæfni mín og þær forsendur sem ég mat og greindi veruleikann og sjálfan mig út frá voru skekktar. Eða eigum við að segja öðruvísi?

Næstu nótt svaf ég ekki neitt. Ók bara um með leigubíl. Veðrið var ekki jafn gott og áður, ég var kominn í síðbuxur og vantaði nú úlfajakkann minn gráa. Ég fór heim til mín og fann hann uppi í skáp. Það var skrítið að koma á eigið heimili. Ég hafði ekki verið þar lengi. Minningarnar um dvölina í sturtubotninum voru slæmar. Ég sveipaði jakkanum um mig og hélt aftur út í nóttina. Þessa nótt reyndi ég að sofa eitthvað en lítið gekk, ég gat þó að mestu haldið mig inni. Ég heyrði af því eftir á að lögreglan hefði verið í sambandi við Símon vegna mín. Þeir vildu taka mig og koma mér undir læknishendur. Ég þótti of mikil ógn við samfélagið. Sími þeirra hjóna hringdi stöðugt vegna mín. Pétur geðlæknir vissi að ég vildi ekki leggjast inn í höfuðborginni vegna vináttu og tengsla minna við yfirlækninn þar. Viðleitni hans til að fá mig innlagðan á geðdeildina á Akureyri skilaði engu.

Doktorinn hafði greinilega frétt eitthvað af ferð minni til uppheima en illa gekk að hitta hann umsaminn dag – ríflega mánuði eftir að inntaka blokkeranna hófst. Símon fór með mér að hitta hann. Við leituðum logandi ljósi að honum í stórri spítalabyggingunni. Hann var hvergi að finna. Okkur var vísað fram og til baka.

Við vorum að lokum komnir upp á efstu hæð spítalans og ég var orðinn viss um að það væri eitthvert samsæri á bak við þetta. Vænisýkin herti tak sitt. Við enda gangsins sat doktorinn inni á kontór, en hann var ekki einn. Með honum var dr. Sefi, kunnur geðlæknir í bænum. Þeir höfðu augljóslega beðið komu minnar. Hvað í ósköpunum er hann að gera hér? hugsaði ég og fylltist ótta. Átti nú að fara að hafa eitthvert geðlæknavit fyrir mér? Ég hafði aldrei haft neitt með dr. Sefa að gera. Hverslags dónaskapur var þetta? Þekktu þessir menn engin mörk þegar kom að stjórnsemi og valdbeitingu? Ég varð órólegur. Þeir komu báðir út úr læknaskotinu þarna á efstu hæðinni.

Doktorinn settist upp við vegginn á ganginum, í hvítum slopp, jafn beinaber og kaldur og síðast. Fætur og hendur þétt krosslagðar. Dr. Sefi sat við hlið hans, horfði í augu mér og klifaði: „Þú ert í maníu, þú ert í maníu, viltu ekki koma með mér?“

Ég svaraði jafnharðan: „Ég er hjartasjúklingur og hef ekkert að gera með þér, spurðu bara sérfræðinginn sem setti mig á hjartalyfin.“ Svona gekk þetta fram og til baka. Doktorinn sat eins og hvít marmarastytta við vegginn, dr. Sefi klifaði. Símon var stressaður og ég gekk í hringi. Ég svaraði alltaf því sama, að ekkert væri að mér í höfðinu, ég væri næmur en hefði fengið hættulegan skammt af hjartalyfi sem sá beinaberi hefði látið mig fá og neitaði nú að taka ábyrgð á.

„Þið vitið ei hvað þið gerið né hverju þið ávísið, ég er farinn,“ sagði ég um leið og ég gafst upp á þessu drama. Dr. Sefi kallaði á eftir mér hvort ég vildi ekki koma með honum á geðdeildina. Mér datt í hug að fara aftur í nudd. Um leið og ég skautaði niður hæðirnar fann ég fima fingur þeirrar kínversku á holdi mínu sem virkaði mun áhugaverðara en bakkamatur með dr. Sefa á deildinni. Auk þess hafði ég sagt þeim að ég vildi ekki leggjast inn í borginni. Einungis fyrir norðan. Ég rauk upp í næsta leigubíl.

„Kínverska nuddstofan, takk,“ sagði ég við bílstjórann.

 

Flokkun : Menning
1,629