trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 20/03/2018

Þú átt tvo kosti í stöðunni, Páll

Karl Th. Birgisson skrifar

Það er til skýring á froðufellingum Páls Magnússonar vegna pistla Braga Páls Sigurðarsonar í Stundinni (sjá hér og hér).

Páll er skaphundur. Ég er ekkert að ljúga þessu upp á hann – hann hefur sjálfur lýst þessum vanda í viðtölum og bætt því við, að æ betur gangi að hafa stjórn á skapinu hin seinni árin.

Svona líka.

Alþjóð varð vitni að því hér um árið þegar hann hellti sér yfir Helga Seljan fyrir framan myndavélarnar. Helgi hafði spurt eðlilegra spurninga á starfsmannafundi og varð þar með „skíthæll“ og fleira fallegt úr munni Páls Magnússonar.

Þessum skapgerðargalla fylgir annar – dómgreindarbresturinn. Reiðin sviptir geðugasta fólk rökhugsun og réttum sjónarhóli.

Auðvitað veit Páll af mikilli reynslu að maður á ekki að skrifa í reiðikasti, en í þessu tilviki voru mistökin alvarlegri.

Hann er nefnilega formaður allsherjar- og menntamálanefndar alþingis. Undir málasvið hennar falla til dæmis fjölmiðlar, en rekstur þeirra og skipulag fjölmiðlamarkaðarins eru einmitt í deiglu um þessar mundir.

Það er þess vegna talsvert alvarlegt þegar formaður þingnefndar bókstaflega frussar út úr sér svívirðingarunum í garð tiltekins fjölmiðils og heimtar af honum afsökunarbeiðni, en telur sig jafnframt vera þess umkominn að fjalla um lög og reglur sem varða jafnvel tilvist þess sama fjölmiðils.

Við þessar aðstæður á viðkomandi þingmaður að hafa vit á – svo við tölum nú bara íslenzku – að grjóthalda kjafti, sama hversu honum er misboðið og sama hversu réttan hann telur málstað sinn vera. Góðir þingmenn skilja stað sinn og stöðu.

Núnú. Af því að mér er hlýtt til Páls sýnist mér hann aðeins eiga tvo kosti í stöðunni.

Annars vegar að fara á reiðistjórnunarnámskeið. Mér skilst að þau hafi gert mörgum gagn.

Hinn kosturinn er að fara nú í svolitla endurmenntun í blaðamennsku og rifja upp það sem kallað er gonzo blaðamennska, en pistlar Braga Páls eru einmitt af þeim meiði (þau fiktuðu líka svolítið við þetta í DV upp úr aldamótum).

Þessi frásagnaraðferð byggist einkum á því að blaðamaðurinn lýsir upplifun sinni af fólki og atburðum, oftast svo mjög að hann verður sjálfur miðpunktur frásagnarinnar. Þetta gerir Bragi Páll einkar vel.

Þegar sá sem skrifar í þessum stíl er vel ritfær líka verða stundum óljós mörk á milli staðreyndalýsinga og skáldskapar – skrifarinn er jú að lýsa eigin upplifun og hughrifum. Útkoman getur orðið hrein snilld og miklu sannari en þurr upptalning á því sem ber fyrir augu.

Mér virðast flestir móðgast þar í skrifum Braga Páls sem hann lýsir því, sem hann hefur skynjað sem sérstaka samúð valdamanna í Sjálfstæðisflokknum með barnaníðingum. Hann dansar þar alveg á mörkunum og sjálfsagt erum við ekki öll á einu máli um hvar þau mörk liggja.

En eru þetta algerlega tilhæfulaus skrif og úr lausu lofti gripin? Því miður ekki. Því miður höfum við á innan við ári horft upp á furðulegt og óútskýrt samband flokksforystunnar við nafngreinda glæpamenn, ekki bara Róbert Árna Hreiðarsson, heldur miklu fremur Hjalta Sigurjón Hauksson, sem níddist á dóttur sinni nær daglega í tólf ár.

Í bók sem kom út nýlega – og Páll Magnússon hefur vonandi lesið – er varpað fram nokkrum spurningum um tengsl Hjalta við forystu Sjálfstæðisflokksins. Nefnum bara fáeinar.

Hvers vegna leitaði Hjalti til Bjarna Benediktssonar þegar uppskátt varð um glæpina? Bjarni var lögmaður, en kom hvergi nærri vörnum fyrir kynferðisafbrotamenn fyrr eða síðar.

Hvers vegna heimsótti Benedikt Sveinsson Hjalta í fangelsi, þegar hann hafði verið réttilega dæmdur? Hvers vegna kom sami Benedikt – stjórnarformaður í Kynnisferðum, fjölskyldufyrirtæki Bjarna Benediktssonar – ítrekað í veg fyrir að Hjalta væri sagt upp störfum sem bílstjóra þar, þegar stjórnendur fyrirtækisins treystu sér ekki til þess að bera ábyrgð á honum í kringum börn?

Hvers vegna laug Benedikt í yfirlýsingu um tengsl þeirra Hjalta? Hvað er verið að fela?

Bíðum nú við, heyri ég einhvern segja. Eiga svona spurningar erindi í opinbera umræðu? Svarið er já. Vegna leyndarhyggju og pukurs Bjarna Benediktssonar í kringum einmitt þetta mál féll heil ríkisstjórn og þótt ekki væri nema þess vegna hefur ómerkilegri spurningum verið svarað.

Það sem hinir viðkvæmu móðgast mest yfir í skrifum Braga Páls eru því hreint ekki einhverjar fabúlasjónir eða hugarórar hans sjálfs. Tilefnið er því miður mjög raunverulegt og dapurlegt. Og óútskýrt enn sem komið er.

En ég var víst að ráða Páli Magnússyni heilt. Einmitt það sem ég kann.

Eftir á að hyggja eru svona reiðistjórnunarnámskeið trúlega ömurlega leiðinleg. Fólk á enda að hafa skap, en hafa þó um leið vit á því hvert það á að beinast.

Hinn kosturinn er miklu betri, að lesa nú svolítið í Hunter S. Thompson, manninum sem fann upp gonzo blaðamennsku og gaf henni nafnið.

Páll hefur líklega séð bíómyndina sem var gerð eftir Fear and Loathing in Las Vegas. Hún er ekkert spes.

Miklu mergjaðri er bókin Fear and Loathing on the Campaign Trail ´72, sem fjallar um Nixon og kosningabaráttu hans.

Í samanburði við lýsingarnar þar er texti Braga Páls eins og hverjar aðrar sunnudagaskólasögur.

Farðu nú inn á amazon.com, kæri Páll, og pantaðu eintak.

Byrjaðu svo að lesa.

1,600