trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 04/12/2016

Þitt bjarta vor í hugum vina þinna – Eftirmæli um Einar Heimisson (1966-1998)

Eftir Hrafn Jökulsson

Forseti Íslands, kæru ástvinir Einars Heimissonar.einar-heimisson

Um vin okkar Einar get ég sagt líkt og Jón Ögmundsson Hólabiskup um fóstra sinn, Ísleif Gissurarson biskup í Skálholti:

„Þá kemur mér hann í hug, er ég heyri góðs manns getið; hann reyndi ég svo að öllum hlutum.“

***

Enn man ég þann sólríka dag í september 1987 þegar Einar arkaði inn á ritstjórnarskrifstofur Þjóðviljans við Síðumúla, það fylgdi honum ferskur og andríkur gustur; ástríða og ákafi, erindið var að segja mér frá þýðingu hans á Hvítu rósinni um Scholl-systkinin sem stóðu uppi í hárinu á ógnarvaldi nasismans og guldu fyrir með lífi sínu.

Fremst í bókinni var ljóð Hannesar Péturssonar, tileinkað þeim systkinum, og það hefst svona:

Frelsi og líf, ekki fjötra og glæpi
né falsanir, þjónkun, rangsnúin mið.
Ekki brennandi lönd, heldur brennandi hugsun
og bróðerni, frið.

Þessi orð má sem best kalla stefnuyfirlýsingu Einars Heimissonar: Ekki brennandi lönd, heldur brennandi hugsun, og bróðerni, frið…

***

Einar hafði ríka og brennandi réttlætiskennd og það er réttlætiskenndin sem er hinn rauði þráður í verkum hans; hvort sem um var að ræða blaðagreinar, útvarpsþætti, sjónvarpsmyndir, skáldsögur, ritgerðir – allstaðar skynjar maður ástríðuna, samúðina, og hvergi einsog þegar hann er að segja frá þeim sem voru órétti beittir; fórnarlömbum nasismans í Þýskalandi, eða þýsku flóttamönnunum sem íslensk stjórnvöld sendu í opinn dauðann…

Það var unun að sitja að skrafi við Einar daginn góða sem við kynntumst. Og við urðum strax vinir og ég fékk að fylgjast með öllu því sem hann tók sér fyrir hendur næstu árin því starfsþrekið virtist óþrjótandi – samhliða glæsilegum námsferli virtist hann geta skilað tveim dagsverkum til viðbótar án þess að blása úr nös.

Hrafn JökulssonOg marga stund sátum við og leystum hinar ýmsu lífsins gátur; stundum bauð hann mér í mat hingað á Seltjarnarnesið, og á sviði matargerðarlistar var hann mér fremri einsog í flestu öðru; hann notaði líka tækifærið og menntaði mig í tónlist meistaranna miklu: Bach og Mahler og Beethoven voru alltsaman nánir vinir hans og sálufélagar, og ég gat bara setið agndofa og notið þessarar alhliða veislu.

***

Mikið var Einari gefið og hann gaf okkur svo óendanlega mikið í staðinn; ekki bara gnótt fjölbreyttra verka – en líka þetta: Brýninguna um að leita sannleikans, standa vörð um réttlætið, njóta fegurðarinnar.

Ég er ekki þess umkominn að yrkja ljóð sem hæfði vini okkar, en ekkert ljóð finnst mér meir viðeigandi en eftirmæli Tómasar Guðmundssonar um Jón Thoroddsen, annan kornungan snilling sem féll í valinn langt um aldur fram.

Í dimmum skugga af löngu liðnum vetri
mitt ljóð til þín var árum saman grafið.
Svo ungur varstu, er hvarfstu út á hafið,
hugljúfur, glæstur, öllum drengjum betri.

Og því varð allt svo hljótt við helfregn þína,
sem hefði klökkur gígjustrengur brostið.
Og enn ég veit margt hjarta, harmi lostið,
sem hugsar til þín alla daga sína.

En meðan árin þreyta hjörtu hinna,
sem horfðu eftir þér í sárum trega,
þá blómgast enn, og blómgast ævinlega,
þitt bjarta vor í hugum vina þinna.

Og skín ei ljúfast ævi þeirri yfir,
sem ung á morgni lífsins staðar nemur,
og eilíflega, óháð því, sem kemur,
í æsku sinnar tignu fegurð lifir?

Sem sjálfur Drottinn mildum lófum lyki
um lífsins perlu í gullnu augnabliki.

Flutt í Neskirkju, 2. desember 2106, daginn sem Einar Heimisson hefði orðið fimmtugur

1,340