Þingmennskan
Eftir Pál Ólafsson
I.
Á alþingi að sitja mér aldrei var hent
og yrðast við spekinga slíka.
Mig vantaði „talent“ og „temperament“
og talsvert af þekkingu líka.
II.
Þegar hann Páll á þingið gekk,
þurradrambi meður
gláptu menn á gráan rekk
og grunaði misjafnt veður.
III.
Þegar hann Páll af þingi rann,
og það við lítinn heiður,
brennivín og hákarl hann
hakkaði öskureiður.
IV.
Heldur vildi ég hafa í barmi mínum
á hverjum degi hvolpatík,
heldur en Íslands pólitík.
Páll Ólafsson (1827-1905)
- Innan við múrvegginn - 15/01/2021
- Fjárhúsið að sumri til og fleiri þankar - 29/12/2020
- Gamall húsgangur - 24/12/2020