trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 02/04/2014

Þegar tjón er tækifæri

Þegar flóðbylgja sópaði burtu híbýlum milljóna manna í Suður-Asíu bentu nokkrir spekingar á að hamfarir gætu haft góð áhrif: Þær gætu orðið til að átök á svæðinu vikju fyrir uppbyggingu. Sumir héldu því fram eftir íslenska bankahrunið að í því fælist líka stórkostlegt tækifæri til að endurnýja stjórnmál og stjórnsýslu, jafnvel sjálfa stjórnmálaumræðuna í landinu.Jón Ólafsson

Kannski hefur forsætisráherranum verið hugsað til slíkra hamfara þegar hann upplýsti fundarmenn á ráðstefnu um orkumál á norðurslóðum í haust um tækifærin sem loftslagsbreytingar skapa í norðri: Vissulega eru fyrirséðar afleiðingar hlýnunar á heimsvísu hrikalegar, en tækifæri okkar til að ná auðlindum úr jörðu mega ekki spillast fyrir það.

Margt hefur orðið okkur Íslendingum tækifæri gegnum tíðina: Tvær heimsstyrjaldir, kalda stríðið. Hvers vegna ekki loftslagsbreytingar á sama hátt? Á endanum erum við jú bara smáþjóð.

Í ræðu sinni á ráðstefnunni benti forsætisráðherra á að þetta kynni ef til vill að hljóma eins og þversögn: Fyrst eru allir sammála um að sjálfbærni eigi að vera leiðarstefið á norðurslóðum. En svo eiga allir að vera sammála um að pumpa upp allri olíu, gasi og málmum sem þar er að finna. Hvernig er hægt að vera bæði sjálfbær og gjörnýta óendurnýjanlegar auðlindir?

Jú, svarið er líklega það sama og við spurningunni hvernig hægt sé að vera giftur mörgum konum: Fyrst einni, svo þeirri næstu. Þannig er hægt að vera margkvæntur án þess að vera fjölkvænismaður. Þetta snýst jú á endanum um tímasetningar. Raðkvæni er ekki fjölkvæni.
Það kann að vera að tjón sé stundum tækifæri, jafnvel að missa allt. En þetta segir maður þó aðeins eftir að skaðinn er skeður.

Forsætisráðherra sjálfstæðs ríkis sem hvetur til þess að stuðla fyrst að sem mestu tjóni, telur tjónið geta verið tækifæri og bendir á að hægt sé að taka upp sjálfbærni þegar engir aðrir kostir verða eftir er annaðhvort óábyrgur eða hann metur það svo að orð hans skipti engu máli og að afstaða hans hafi hvorki áhrif á skoðanir annarra né á gang mála. Ætli maður verði ekki bara að vona að það síðara eigi við um okkar mann?

Jón Ólafsson, 26. nóvember 2013

2,232