trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 26/08/2018

Þegar öll vitleysan er eins

Karl Th. Birgisson skrifar

Upp er sprottin klassísk íslenzk umræða um tiltekið mál, sem felur þó í sér miklu stærri spurningar sem enginn reynir að svara.

Hún er klassísk að því leyti, að hvorugt sjónarmiðið sem þar tekst á stenzt nokkra skoðun.

Ég er tala um mál Kjartans Guðjónssonar leikara. Leiklistarneminn Vilhelm Neto tísti á dögunum í þá veru, að ólíðandi væri að leikarar, sem hefðu verið kærðir fyrir nauðgun, fengju sífellt vinnu eins og ekkert væri.

Ef rétt er haft eftir er þarna í bezta falli hugtaka- eða orðaruglingur hjá Vilhelm. Eitt að vera kærður, annað að vera ákærður og allt annað að vera sakfelldur. Hið síðarnefnda á við í máli Kjartans.

Það er reyndar ekki ljóst, sýnist mér, hvort Vilhelm átti við Kjartan í þessu tísti, en allt að einu leiddi einhver atburðarás til þess að mál hans var rifjað upp. Hann fékk semsagt fimmtán mánaða dóm fyrir nauðgun fyrir næstum 30 árum.

Gott og vel. Vilhelm og samsinnendur hans eru frjálsir að þessari skoðun, en þeir skulda viðmælendum sínum svar við að minnsta kosti einni spurningu. Hvers vegna? Ef leikstjóri eða jafnvel leikhússtjóri vilja nýta ómælda hæfileika Kjartans Guðjónssonar, hvers vegna mega þeir það ekki? Því hefur ekki verið svarað svo vart hafi orðið við.

Það vantar semsagt lágmarksrökstuðning fyrir kröfunni um að Kjartan Guðjónsson megi hvergi leika.

Mig grunar að djúpt sé á þessum rökum, því að þegar þau koma fram þurfa þau líka að fela í sér svar við anzi mörgum öðrum spurningum. Nefnum fáein dæmi.

Nú geri ég vonandi síðastur manna lítið úr alvöru kynferðisbrota – hjálpi okkur –, en til eru aðrir alvarlegir glæpir. Hvað með morðingja? Mega þeir vera leikarar? Mega þeir vera kennarar?

Hvað með þann sem keyrir fullur og verður þannig manns bani? Má hann vera leikari? Má hann vera læknir?

Hvað með fjárglæframennina, sem fengu margir þyngri dóm en Kjartan? Mega þeir vera leikarar? Mega þeir vera sjónvarpsmenn?

Og svo framvegis út í hið óendanlega. Mig grunar að Vilhelm og skoðanasystkin hans hafi ekki endilega hugsað afstöðu sína til hlítar.

Allajafna er betra en ekki, að skoðun eða afstaða sé ígrunduð.

Við þekkjum kröfur til dæmis um að barnaníðingar séu ekki í starfi sem setur þá í návígi við börn. Það eru sjálfsagðar kröfur, eðli málsins samkvæmt.

Það furðulegasta við kröfuna um vinnubann á Kjartan er hins vegar, að brot hans kom starfi hans eða leikhúsinu ekkert við. Nákvæmlega ekki neitt.

Og því er spurt hvers vegna? Hvers vegna má hann ekki starfa sem leikari?

Þangað til þeirri spurningu er svarað – og líka hinum nokkur hundruð um hvaða almenna regla eigi að gilda hér um Berufsverbot á alls kyns fólk – þangað til verður fullyrðing leiklistarnemans merkingarlaus upphrópun ein og meinbægni.

Og svo er það hin hliðin.

Brynjar Níelsson virðist óþreytandi við að bera á torg vondar skoðanir. Stundum eru þær settar fram beinlínis til að stríða eða ögra, en samanlagt benda þær til lífsafstöðu sem er soldið sérkennileg og nauðsynlegt er að andmæla.

Brynjar er sumsé á því að fjölmiðlar eigi ekkert að fjalla um svona mál, sérstaklega gömul mál, sem valda viðkomandi, fjölskyldu hans, vinum og vandamönnum sársauka.

Það er rétt, að þessi umfjöllun hefur áreiðanlega valdið Kjartani og öllum í kringum hann sárindum, og það er alltaf vont þegar fólki líður illa.

En hvað er Brynjar Níelsson samt að segja? Vill hann meina fjölmiðlum að fjalla um tiltekin mál? Það er talsvert stór skoðun þegar alþingismaður á í hlut.

Eða vill hann að ekki sé fjallað um atvik tilteknum árafjölda eftir að þau gerast? Þá gæti orðið brátt um ýmsa sagnfræði, ekki sízt samtímasagnfræði. Eigum við að nefna Guðmundar- og Geirfinnsmál, af svo ótalmörgum öðrum dæmum?

Eða vill hann að fjölmiðlar fjalli bara um hin svokölluðu góðu og jákvæðu mál? Þá yrði sama frétt daglega á forsíðum allra blaða. „Sólin kom upp í morgun og þú ert ennþá á lífi.“

Eða hvað? Hvaða almennu stefnu er Brynjar að boða með þessari afstöðu sinni? Er hún yfirleitt nokkur, ef grannt er skoðað?

Svarið virðist vera einfalt nei. Nema þingmaðurinn færi betri rök fyrir máli sínu.

Sko. Það er ekki hlutverk fréttamiðla að láta fólki líða vel. Ekki frekar en það er tilgangur þeirra að valda fólki vanlíðan. Skárra væri það nú.

Hlutverk þeirra er að greina frá að gefnu tilefni, í mjög einfölduðu máli. Í tilvikinu sem hér um ræðir gafst sannarlega tilefni.

Og allt þetta mál er sannarlega tilefni til að ræða almennilega það sem virðist vera óleyst ágreiningsmál, með rökum og gagnrökum, um fjölmiðla, um hvað má segja og hvað er jafnvel gott að segja – og hver má vinna hvar.

Vilhelm Neto, Brynjar og viðhlæjendur þeirra þurfa nauðsynlega á slíkri umræðu að halda.

Þau virðast nefnilega halda að hálf hugsun nægi, og að rétt sé að öll vitleysan sé eins. Þangað til þau byrja aftur á sömu þulu á næsta ári eða þarnæsta. Án þess að hafa þokazt spönn frá rassi.

Það er líka klassískt.

1,602