trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 07/04/2019

Þannig týnist tíminn

Karl Th. Birgisson skrifar

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir tilkynnti í gær að vefritið Kvennablaðið legðist nú í ótímabundinn dvala.

Það eru ótíðindi og við þurfum ekki einu sinni að vera sammála ritstjórnarstefnu Kvennablaðsins til þess að vera þeirrar skoðunar. Nú verður einni jurtinni færra í flóru íslenzkra vefmiðla.

Hitt er ennþá verri vísbending, að Steinunn biður greinarhöfunda að taka afrit af skrifuðu efni sínu þar sem vefurinn verði ekki lengur aðgengilegur eftir svosem viku.

Nú þekki ég ekki forsöguna eða aðstæður, en það er skiljanlegt ef aðstandendur Kvennablaðsins vilja ekki eða geta kostað upp á vefhýsingu til þess eins að varðveita áður birt efni. Mjög skiljanlegt.

En þessi tilkynning er hluti af mun stærri vanda okkar sem samfélags um hvernig við varðveitum Íslandssöguna.

Ég hef svolítið föndrað við það síðastliðin ár að skrifa svonefndar „blaðamennskubækur“. Þar rekst ég ítrekað á að mikilvægt efni er horfið. Heimildir sem eru nauðsynlegar til þess að sagnfræðingar framtíðarinnar geti sinnt fræðum sínum.

Ég leyfi mér að vitna í formála að bók minni um forsetakosningarnar 2012:

„Íslandssagan birtist okkur núna að stórum hluta á vefnum. En það sem meira er: Hún gerist þar líka í æ meira mæli. Alls kyns mikilvægar upplýsingar birtast þar sem rata aldrei á prent eða í fréttatíma hefðbundinna fjölmiðla. Þar fara einnig fram skoðanaskipti sem eru – þegar bezt lætur – jafnokar fjörugustu ritdeilna fyrri tíma og segja oft mikla sögu.

Það er fánýti að dæma þessa þróun sem góða eða slæma. Hún er þarna og fer ekkert í bráð. Hitt er mikilvægara, að efnið sé aðgengilegt þeim sem hafa áhuga á sögunni og vilja jafnvel skrifa um hana. Reyndin er víðs fjarri því.

Í því tiltölulega litla samhengi sem þessi bók fjallar um – forsetakjör á Íslandi árið 2012 – kristallast þetta vandamál vel. Stór hluti þess, sem var sagt og skrifað um þær kosningar, er horfinn af internetinu.

Vefurinn olafurogdorrit.is er ekki lengur til. Vefurinn thoraarnors.is er ekki lengur til. Facebook-síður framboða þeirra og flestra annarra eru ekki lengur til. Og þar með er efnið á þessum vefjum líka horfið.

Af heilum fjölmiðlum má nefna að smugan.is er horfin. Sá ástsæli vefur, amx.is, er floginn á vit smáfuglanna og var öllum harmdauði. Sama er um fleiri.

Efnið á þessum miðlum er að vísu væntanlega „til“ í einhverjum skilningi. Það er mjög líklega grafið djúpt á einhverjum vefþjónum einhvers staðar í veröldinni, en víðs fjarri því að vera aðgengilegt áhugasömum eða fræðimönnum. […]

Reyndar eru til vélar, sem taka afrit af vefjum á tilteknum dögum og geyma. Alþjóðlega má nefna archive.org og hér heima vefsafn.is. Sú gagnavistun er hins vegar stopul og algerlega tilviljanakennd.“

Frá því þetta var skrifað hefur staðan bara versnað. Nærtækast er að nefna stærsta og alvarlegasta dæmið, varla tveggja ára gamalt.

Pétur heitinn Gunnarsson og fleiri stofnuðu Eyjuna, eyjan.is, fyrir allmörgum árum. Þar skrifuðu sumir af albeztu og fróðustu pistlahöfundum landsins. Eyjan féll síðar undir útgáfufélagið Vefpressuna, en var ennþá til sem sjálfstæður vefur.

Þegar Vefpressan fór svo á hausinn rann Eyjan og fleira undir dv.is, og af einhverjum óskiljanlegum ástæðum hvarf þá lunginn úr því sem hafði verið skrifað á Eyjuna árum saman. Það efni finnst hreinlega ekki, nema grein og grein á stangli.

Í þessum greinum voru engar leiðbeiningar um edik sem hentugt hreinsiefni. Þarna var skrifað margt af því mikilvægasta og dýpsta sem fram kom á sögulegustu árum okkar, í Hruninu og endurreisninni. Það efni er ekki aðgengilegt lengur.

Ég leyfi mér að fullyrða að enginn sagnfræðingur getur skrifað sæmilega vitrænan texta um AGS, Icesave og allt hitt án þess að hafa aðgang að þessum textum. Íslandssagan gerðist nefnilega að stórum hluta með og meðfram því sem var skrifað á Eyjuna. Það hafði mjög mikil áhrif.

Svo mætti áfram telja. Dvali (eða hvarf) Kvennablaðsins er ekki aðeins vandi þess. Það er heldur ekki einkamál nýrra eigenda Vefpressunnar hvort efnið á gömlu Eyjunni er aðgengilegt.

Sagan, upplýsingar og heimildir um hana, snertir okkur öll og er ákaflega mikilvæg. Þess vegna þarf að grípa til ráðstafana.

Eða viljið þið ímynda ykkur hvað það þýddi, ef Kjarninn og Stundin færu á hausinn á morgun, og efni af þessum miðlum væri skyndilega horfið?

Nú er ég enginn tæknikall, en ég veit að hér er starfrækt Landsbókasafn sem heimtar til sín eintök af öllum útgefnum bókum á landinu. Við getum líka lesið gömul blöð og tímarit á timarit.is. Hvort tveggja er góð hugmynd, en tímarnir eru breyttir.

Vefsafn.is er tilraun til þess að gera eitthvað svipað á stafræna vísu fyrir vefina sem koma og fara. Hún er hins vegar máttvana og nánast gagnslaus, eins og dæmin sanna.

Þetta þarf að laga, ef við ætlum ekki að halda áfram árum saman að týna okkur eigin sögu inn í einhverja vefþjóna sem enginn man eftir tíu ár hvar eru eða hvernig á að nálgast. Sú er nefnilega reyndin núna og hefur verið of lengi. Við erum að týna samtímanum.

Þessum furðulegu aðstæðum getur okkar framsýni mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja D. Alfreðsdóttir, breytt með sinni forystu og ég er viss um að hún fær víðtækan stuðning úr öllum flokkum til þess verks. Og áreiðanlega fullt af fólki sem vill leggja sitt af mörkum.

Er það ekki alveg einboðinn díll, kæra Lilja?

Við megum alls ekki týna Kvennablaðinu hennar Steinunnar Ólínu úr sögu okkar allra, frekar en öllu hinu sem við þurfum til þess að skilja okkur sjálf.

1,453