trusted online casino malaysia
Margrét Tryggvadóttir 28/04/2015

Það sem liggur í loftinu …

Nú eru að verða sjö ár frá hruni.

Eftir að hafa komið hrunstjórninni frá prufuðu landsmenn að kjósa hreina vinstri stjórn. Hún varð á skömmum tíma óvinsæl. Að vissu leyti er það afar skiljanlegt og sennilega má segja að hvaða stjórn sem hefði tekið við á þessum tíma hefði beðið sömu örlög. Aðstæður voru einfaldlega þannig. Þó má nefna nokkur atriði sem vinstri flokkarnir voru kosnir til að gera en gerðu ekki og ég á erfitt með að fyrirgefa þeim. Ég nenni ekki að elta ólar við ESB og jafnvel ekki skuldir heimilanna þótt það séu stór og mikil mál. Stærstu og afdrifaríkustu svikin snúa að eignarhaldi á náttúruauðlindunum okkar og þar með fiskveiðistjórnunarmálum og nýrri stjórnarskrá.

Allt síðasta kjörtímabil var samt furðuerfitt að vekja athygli á þessum málum. Það var svo margt annað sem brann á fólki sem stóð því nær. Skiljanlega. Þegar fjárhagur heimilisins eru rústir einar og fólk hefur kannski ekki atvinnu er það vitanlega það sem brennur helst á því. Fólk áttar sig ekki endilega á stóra samhenginu.

Þegar kosið var að nýju fyrir tveimur árum ákváðu landsmenn að prófa hægri flokkana. Sú stjórn er nú jafnvel enn óvinsælli en vinstri stjórnin, þrátt fyrir að hún hafi tekið við mun betra búi og allar aðstæður séu betri.

Síðustu misseri hefur mér fundist eins og hálfgert vonleysi hafi gripið fólk. Vinstrið virkar ekki, hægrið ekki heldur, hvað er til ráða? Mér hefur fundist eins og fólk hafi nánast ákveðið að sætta sig bara við þetta. Óstjórn á Íslandi er hvort sem er ekki nýtt fyrirbrigði.

Þar til nýlega. Nú virðist mér áttin vera að breytast og ýmislegt bendir til þess. Eitt af því er gríðarleg fylgisaukning pírata. Annað er húsfyllir og ríflega það á stóra fundi um hálendi Íslands og náttúruauðlindir okkar. Við erum að vakna til vitundar um að það sé verið að ræna okkur alla daga og að nauðsynlegt sé að bregðast við því. Sterkasta undiraldan er þó vegna kjaramálanna. Eðlilega.

Á Íslandi var löngum þegjandi samkomulag um að passa upp á alla. Yfirstéttin tók sér leyfi til að nýta auðlindirnar sem þjóðin á í orði gegn því að passa upp á að allir hefðu til hnífs og skeiðar. Gömlu kjörorð sjálfstæðisflokksins, Stétt með stétt, ramma þetta samkomulag um séríslenska útfærslu á brauðmolakenningunni ágætlega inn. „Fjárhaldsmenn fjöldans“ máttu gera út togara svo lengi sem fólkið fékk vinnu. Á árunum fyrir hrun raskaðist þetta „samkomulag“. Hér varð til glórulaust ríkidæmi sumra (þótt engin raunveruleg verðmæti hafi verið þar að baki) og gagnrýni var markvisst þögguð niður. Þegar allt hrundi svo báru „fjárhaldsmenn fjöldans“ allt í einu ekki neina ábyrgð og samfélagið er enn að reyna að greiða úr þeim málum.

Eftir því sem tímanum vindur fram áttum við okkur betur og betur á því að – þrátt fyrir hið stórbrotna hrun – erum við rík þjóð. Og þegar ríkiskassinn er tómur þannig að það munar um hverja krónu sjá allir hvað það er galið þegar stjórnmálamenn ætla enn eina ferðina að gefa útvöldum auðlindir þjóðarinnar fyrir lítið eða jafnvel ekkert. Nefna má sérstaklega umdeilt frumvarp um makríl (sjá nánar t.d. hér, hér og hér) en í raun mætti yfirfæra þá gagnrýni sem það hefur hlotið á auðlindastjórnun á Íslandi, áratugum saman. Við erum alltaf að gefa auðlindir okkar fyrir brauðbita.

Noregur og Nígería. Ríkasta þjóð í heimi og ein sú fátækasta. Báðir eiga þó gnægð af olíu en auðlindastjórnunin er með ólíkum hætti. Í Noregi er það ríkið (og þar með fólkið) sem fær arðinn, í Nígeríu einhverjir aðrir.

Úr greinum Indriða H. Þorlákssonar á Herðubreið má lesa að við erum sennilega nær Nígeríu en Noregi í þessum efnum er kemur að arði á auðlindum sjávar. Þjóðin fær um 10% og það finnst okkur flestum óásættanlegt. Jón Steinsson hagfræðingur heldur því fram að Íslendingar eigi hlutfallslega jafnverðmætar orkuauðlindir og Norðmenn – nýtingin sé bara með öðrum hætti, áherslan sé á að skapa atvinnu en ekki arð fyrir okkur öll. Orkuna seljum við sífellt á tombólu.

Þessi viðhorf endurspeglast nú í kjarabaráttunni. Fleiri og fleiri gera sér nú grein fyrir því að það er nóg til. Við gætum keypt alla þá jáeindaskanna sem okkur lysti ef þjóðin fengi arðinn af auðlindum sínum. Við gætum byggt og rekið spítala svo sómi sé af og menntakerfið gæti auðveldlega verið á heimsmælikvarða. Það er nóg til. Það er nóg til skiptanna fyrir okkur öll.

Á meðan þjóðin er hægt og rólega að vakna til vitundar um að það sé á hennar ábyrgð að stöðva arðránið og það muni svo sannarlega enginn gera það fyrir hana, sitja ævintýralega vitlausir menn í skipstjórnarklefa þjóðarskútunnar. Og það er hættulegt. Þetta eru yfirstéttarpeyjar sem deila ekki kjörum með almenningi, sendir í þegnskylduvinnu af þeim sem hafa talið sig til „fjárhaldsmanna fjöldans“ til að tryggja ástandið. Koma í veg fyrir stjórnarskrá með alvöru ákvæði um eignarhald þjóðarinnar á auðlindunum og meiri völd til fólksins í landinu. Festa kvótakerfið varanlega í sessi. Kasta ESB umsókninni út í hafsauga. Og virkja meira. Fóðra svo fjöldann með „aðgerðum í þágu heimilanna“ Færa fólkinu brauðmola. Sem sagt, festa gamla Ísland í sessi aftur.

En þetta er ekki að takast hjá þeim í þetta sinn. Með hroka sínum löðrunga þeir þjóðina aftur og aftur. Fjármálaráðherra telur hækkun lágmarkslauna ógna stöðugleika en að bankabónusar séu nauðsynlegir og leggur fram frumvarp um þá. Forsætisráðherra vænir menn um loftárásir og hefur einstakt lag á að segja hlutina með þeim hætti að ómögulegt er að skilja hvað hann var í raun að meina. Og hvergi finnast siðareglurnar. „Fjárhaldsmenn fjöldans“ geta heldur ekki stillt sig um himinháar arðgreiðslur og svimandi hækkanir á stjórnarlaunum á meðan verkafólkið sem vinnur hjá þeim nær ekki endum saman.

En við erum sem betur fer hætt að trúa því að hlutirnir þurfi að vera svona.

Þann 20. október 2012 fór fram þjóðaratkvæðagreiðsla um nýja stjórnarskrá. Þjóðin er farin að taka mið af stjórnarskránni sem meirihluti landsmanna samþykkti. Stjórnarskrá sem setur ráðamönnum skorður, bannar þeim að ljúga, færir völdin til þjóðarinnar og tryggir fólkinu í landinu arð af auðlindum sínum. Þannig viljum við hafa það.

Þeir einu sem fatta það ekki eru stjórnmálamenn, einkum stjórnarmeirihlutans, og það kemur þeim sí og æ í vandræði.

rich man poor man

 

Flokkun : Efst á baugi
1,345