trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 31/01/2015

Það sem Hitchcock sá, myndaði – og faldi

Sif SigmarsdóttirEftir Sif Sigmarsdóttur

Málið var ein stærsta ráðgáta breskrar kvikmyndasögu. Gat verið að í lok síðari heimsstyrjaldarinnar hafi Alfred Hitchcock leikstýrt heimildarmynd um hryllinginn sem átti sér stað í útrýmingarbúðum nasista? Gat verið að bresk stjórnvöld hafi bannað sýningu hennar?

Ekkert spurðist til „týndu Hitchcock-myndarinnar“ í meira en þrjá áratugi. Við upphaf níunda áratugar síðustu aldar tóku hins vegar að birtast loðnar fyrirsagnir í blöðum: „Hryllingsmyndin sem Hitchcock hafði ekki taugar í að horfa á“; „Það sem Hitchcock sá, myndaði – og faldi“.

Sidney Bernstein, stofnandi eins stærsta framleiðslufyrirtækis sjónvarpsþátta í Bretlandi, hafði starfað hjá breska upplýsingamálaráðuneytinu á tímum styrjaldarinnar og stundað þar kvikmyndagerð. Áður en Bernstein lést staðfesti hann tilvist myndarinnar. Hann greindi frá því að þeir Alfred Hitchcock hefðu unnið að henni í sameiningu en skyndilega hefði þeim verið gert að hætta. En hvers vegna?

Beinagrindur með lífsmarki
Þegar hermenn bandamanna héldu innreið sína inn á þýsk yfirráðasvæði í lok heimsstyrjaldarinnar blasti við þeim fordæmalaus hryllingur útrýmingarbúðanna. Kvikmyndadeild breska hersins var með í för þegar fangar búðanna í Bergen-Belsen voru frelsaðir 15. apríl 1945. Myndavélarnar fönguðu óhugnaðinn; 60.000 fangar, 13.000 lík sem lágu eins og hráviði um búðirnar. „Það var engin leið að sjá muninn á lifandi og dauðum nema þegar einstaka skjálfti lék um eða andvarp barst frá beinagrind sem var með lífsmarki en var of veikburða til að hreyfa sig,“ sagði Richard Dimbleby, einn fyrstu blaðamannanna sem mættu á svæðið.

Sidney Bernstein hélt til búðanna viku eftir að þær voru frelsaðar. Hann óskaði eftir því við bresk og bandarísk yfirvöld að fá að gera kvikmynd byggða á upptökum hermannanna. Myndin átti að vera víti til varnaðar. Sýna átti hana Þjóðverjum sem margir vissu ekki af hroðaverkum sem framin voru í nafni þeirra. Beiðnin var samþykkt og var verkefnið skilgreint sem „aðkallandi“. Bernstein fékk Hitchcock með sér í lið.

Þann 4. ágúst 1945 barst Bernstein bréf frá utanríkisráðuneytinu. Mynd félaganna þótti ekki lengur samrýmast þeirri hugmyndafræði sem lá til grundvallar uppbyggingu í Þýskalandi. Ekki þótti við hæfi að gagnrýna, núa þeim ósigurinn um nasir. „Stefna okkar er sú að hvetja Þjóðverja áfram, örva þá og vekja þá af sinnuleysi sínu.“ Tekið var fyrir mynd Bernsteins og Hitchcocks.

Minningin um voðaverk
Nú, sjötíu árum síðar, kemur „týnda Hitchcock-myndin“ fyrir almenningssjónir í fyrsta sinn. Sérfræðingar hjá Stríðssögusafninu í London luku nýverið við myndina og studdust við áætlanir Bernsteins og Hitchcocks við verkið. Voru brot úr myndinni frumsýnd víða um heim síðastliðinn þriðjudag þegar þess var minnst að 70 ár eru liðin síðan hersveitir Rauða hersins frelsuðu fanga útrýmingarbúðanna í Auschwitz.

Af sama tilefni komu saman um þrjú hundruð eftirlifendur Helfararinnar í Auschwitz. Ein af áhrifaríkari uppákomum minningardagskrárinnar var ræða eins eftirlifandans, Romans Kent. Við verðum að læra þær lexíur sem sagan kennir okkur, var inntak orða Kents. Hann hvatti leiðtoga heimsins til þess að halda á lofti minningunni um þau voðaverk sem framin voru í Auschwitz. „Við sem eftir lifum viljum ekki að fortíð okkar verði að framtíð barnanna okkar.“

Sú pólitíska ákvörðun Breta og Bandaríkjamanna um að skrúfa fyrir mynd Bernsteins og Hitchcocks þykir nú orka tvímælis. Það var ekki fyrr en bandaríski sjónvarpsmyndaflokkurinn Helförin var sýndur í Vestur-Þýskalandi árið 1979 sem margir Þjóðverjar gerðu sér grein fyrir hve umfangsmikil illvirki Þriðja ríkis Hitlers voru.

Gagnrýndu gagnrýnina
Söguleg gleymska getur verið hættuleg. Minnug voðaverka fortíðar notaði Angela Merkel, kanslari Þýskalands, áramótaávarp sitt fyrr í mánuðinum til að gagnrýna hægrisinnaðar hreyfingar sem mótmæla stefnu þýskra yfirvalda í málefnum innflytjenda. Hún sakaði þá sem stæðu fyrir slíkum fundum um fordóma, kulda og hatur.

Hér á Íslandi hefur hins vegar kveðið nokkuð við annan tón. Í áramóta- og nýársávörpum töldu sumir helstu ráðamanna okkar við hæfi að gagnrýna gagnrýnina í þjóðfélaginu. Slíkur boðskapur er ekki fjarri afstöðu Breta og Bandaríkjamanna sem ákváðu að sannleikurinn um Helförina væri best gleymdur og grafinn er þeir stoppuðu kvikmynd Bernsteins og Hitchcocks um voðaverkin í útrýmingarbúðum nasista.

En eins og Roman Kent brýndi fyrir umheiminum í vikunni er slíkt ávísun á að drungaleg fortíð verði framtíð barnanna okkar.

Til að minnast fórnarlamba eins stórtækasta voðaverks mannskepnunnar væri við hæfi að hunsa á þessum tímamótum óskir íslenskra leiðtoga og fara heldur að ráðum Romans Kent. Hann hvatti til að sett yrði ellefta boðorðið og yrði það svo hljóðandi: „Þú skalt ekki vera aðgerðalaus sjónarvottur.“

Þeir sem ekki gagnrýna eru ekkert annað en aðgerðalausir sjónarvottar.

Sif Sigmarsdóttir, Fréttablaðið, 30. janúar 2015

1,366