Þá rifnar fatið
Í Kjararáði situr prýðis fólk það best er vitað. En það gerist eitthvað á fundum þess, eitthvað undarlegt. Það virðist sem þá missi þetta fólk annað hvort vit og rænu eða að það er nauðbeygt til þess að vinna eftir reglugerð sem gerir því ókleift að hugsa skýrt og sést af því að undantekningarlaust skilar það niðurstöðum sem valda úlfúð og illindum.
Þegar topparnir í fjármálaráðuneytinu fengu sína hækkun frá ráðinu, árslaun verkamanns og konu, urði þeir varir við óánægju undirsáta sinna og almennings. Til þess að milda lýðinn eru þeir, nákvæmlega núna þegar þetta er skrifað, á nýju laununum sínum, að leggja drög að breytingum á lögum um kjararáð. Þeir eru að sníða, klippa, bæta og staga. Þeir ætla fækka þeim hópum manna sem ráðið ákvarðar launin hjá, með félaga- og samningsfrelsi að leiðarljósi. Þetta gera þeir þrátt fyrir hið alkunna sem haft var eftir Jesúsi frá Nasaret á góðum degi: “Enginn saumar bót af óþæfðum dúk á gamalt fat, því þá rifnar nýja bótin af hinu gamla og verður af verri rifa.” Í takt við uppruna þessara vísdómsorða á kjararáð ekki, samkvæmt nýju drögunum, að ákvarða laun biskupsins, en sjálfir ætla ráðuneytistopparnir að sitja áfram í stagbættum faðmi þess. Það hefur gefið svo góða raun.
Nú fer að líða að því að kjararáð birti nýja launatöflu fyrir alþingismenn og ráðherra og mega þeir eiga von á góðu. En það gæti orðið erfitt fyrir þá þeirra, sem sækjast eftir endurkjöri, að þiggja þá hækkun því það sýður á þeim sem lægst hafa launin og daglega magnast krafan um að leggja kjararáð niður og annað hvort að taka til baka hækkanir þess eða láta þær ganga út yfir allar launatöflur landsins. Til þess að gera annað hvort þetta þarf kjarkmenn og kjarnakonur. Spurning er því sú hvort nógu margir slíkir gefi kost á sér til þingsetu í næstu kosningum.
- Sálumessa - 02/07/2020
- Umhverfisvændi - 21/04/2020
- Er brennivínið besti kostur? - 26/03/2020