trusted online casino malaysia
Davíð Þór Jónsson 10/04/2019

Tepruskapur og tvískinnungur

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Í dag fögnum við degi sem kallaður er boðunardagur Maríu. Í Lúkasarguðspjalli greinir nefnilega frá því að Guð hafi sent Gabríel erkiengil á fund Maríu til að tilkynna henni að hún væri barnshafandi. Hún svaraði að það gæti ekki verið þar sem hún hefði aldrei karlmanns kennt, en Gabríel svaraði að ekkert væri Guði um megn.

Í frásögninni er ekki tilgreint hvenær þetta gerðist, en þar sem við fögnum fæðingu Jesú í endaðan desember var í fyrndinni dregin sú ályktun að þetta hefði gerst níu mánuðum fyrr, þá hafi Jesúbarnið komið undir. Því þótt Guði sé ekkert um megn datt þeim frómu kirkjufeðrum … takið eftir því: feðrum … ekki í hug að Guð sæi ástæðu til að stytta meðgönguna hjá unglingsstúlku sem hann gerði barnshafandi að henni óforspurðri og án þess að hún hefði aðhafsts neitt af því tagi sem alla jafna leiðir til þungunar.

María tók fréttunum furðu vel og skömmu síðar fór hún með lofgjörðina sem er guðspjallstexti dagsins. Hann kallast á við lofgjörð Hönnu úr Fyrri Samúelsbók, sem við heyrðum lesna sem lexíu. Kringumstæður Hönnu voru ólíkar Maríu. Hanna hafði verið gift góðum manni alllengi, Elkana að nafni, en þeim hafði ekki orðið barna auðið, en Elkana átti syni með annarri eiginkonu. Áþján Hönnu var því nokkur og hún þráði ekkert heitar en að verða barnshafandi.

Valdefling smælingjanna

Báðar fara þessar konur með lofgjörð þegar þeim verður ljóst að þær bera barn undir belti. Og áhugavert er að skoða í hverju lofgjörð þeirra er fólgin. Þær minnast lítið, nánast ekkert, á barnið í móðurlífi þeirra en tilgreina báðar þess í stað félagslegt réttlæti og valdeflingu hinna smáu, sem dæmi um máttarverk Drottins. „Hann lyftir hinum auma úr duftinu og hefur hinn snauða úr skarninu,“ (1Sam 2.8a) segir Hanna og María segir: „Valdhöfum hefur hann steypt af stóli og upp hafið smælingja. (Lúk 1.52) Það er ljóst að báðar líta þær á þungunina sem valdeflingu fyrir sig, lífskjarabót. Það er auðvitað afar skiljanlegt í tilfelli Hönnu. Fyrir Maríu var þetta aftur á móti flóknara. Hún var í töluvert erfiðari stöðu því við vitum ósköp vel hvernig samfélagið sem hún lifði í tók á hórdómssök, sem þungun án hjónabands var auðvitað óyggjandi sönnun fyrir.

En ég held að við ættum í tilefni af boðunardegi Maríu að velta öðru fyrir okkur.

Af hverju þurfti þetta að vera svona?

Af hverju mátti Jesús ekki bara eiga jarðneskan föður og hafa verið getinn á eðlilegan, líkamlegan hátt utan hjónabands?

Félagsleg staða Jesú

Sú kenning hefur verið sett fram að sagan um meyfæðinguna hafi orðið til til að bregðast við orðrómi andstæðinga frumkristindómsins um að Jesús hafi verið afurð hneykslanlegs ástarsambands Maríu og sýrlensks hermanns úr liði Rómverja, Pantera að nafni. Það mátti auðvitað ekki.

Við göngumst við því að Jesús hafi ekki verið úr liði broddborgara. Hann var fátækur smiður, úr lágstétt samfélagsins. Við játum að hann hafi fæðst í fjárhúsi eins og hver annar búpeningur og verið lagður í jötu sem ætluð var undir skepnufóður. Við viðurkennum meira að segja að hann hafi verið flóttamaður í Egyptalandi, að foreldrar hans hafi flúið pólitískar ofsóknir í heimalandi sínu til að bjarga lífi snáðans. Við játum hiklaust að hann hafi á flestan hátt deilt hlutskipti með þeim valdlausu og óhreinu sem enn eru á meðal okkar og við viljum sem minnst vita af; börnunum í flóttamannabúðunum og bátskænunum á Miðjarðarhafinu.

En að hann hafi verið ástandsbarn … þar drögum við strikið.

Þess í stað var hann getinn flekklausum getnaði án aðkomu mennsks karlmanns. Kristindómnum hefur í gegnum tíðina þótt auðveldara að trúa því heldur en hinu, að hann hafi orðið til með sama hætti og þú og ég. Þetta hefur gengið svo langt að meira að segja þurfti á einhverjum tímapunkti að setja fram kenningu um flekklausan getnað Maríu líka, þannig að Jesús, sem var fullkominn maður, var samt kominn niður í 25% mennsku að ætterni og uppruna. Hann var sonur Guðs og mennskrar konu … sem var dóttir Guðs.

Allt annað en að frelsarinn hafi verið bastarður. Flóttamaður, já. Fátæklingur, já. Fæddur í heiminn undir sömu kringumstæðum og húsdýr, já. En óskilgetinn? Guðlast!

Af hverju þurfti þetta að vera svona?

Sjötta boðorðið

Ég held að það sé löngu tímabært að við göngumst við því og biðjumst á því afsökunar að kristinn trúararfur hefur í gegnum aldirnar verið gegndrepa af tepruskap og tvískinnungi þegar kemur að mannlegri kynhegðun. Tepruskap og tvískinnungi sem skaðað hefur fjölda manns og skert lífsgæði þeirra, einkum kvenna.

Sjötta boðorðið hefur verið túlkað skrifræðislega, ekki andlega. Þar segir einfaldlega: „Þú skalt ekki drýgja hór.“ Og hórdómur hefur verið skilgreindur út frá stimplum og vígslum, ritúölum og opinberri hjúskaparstöðu, en ekki út frá tilfinningum, trúnaði, heitorðum og því sem býr í hjarta manna og gerir samband tveggja einstaklinga, sem fella hugi saman, að einhverju því göfugasta og fegursta sem mannsævin býður upp á og við köllum ást. Það eina sem gæti mögulega jafnast á við þá sælu er þegar þessi ást ber ávöxt í lítilli manneskju þar sem elskendurnir eru orðnir eitt og sama holdið.

Af hverju gat Jesús ekki hafa orðið til með þeim yndislega, fallega og mennska hætti – og samt verið okkur sá sem hann er?

Sem betur fer eru þessi teprulegu, kynfælnu viðhorf á undanhaldi. Við göngumst núorðið – flest allavega – við kynverund mannsins sem óaðskiljanlegum hluta heilbrigðrar mennsku. Og við Íslendingar virðumst öðrum þjóðum fremur vera tiltölulega afslappaðir gagnvart sjötta boðorðinu eða að minnsta kosti ekki leggja í það hinn skrifræðislega skilning, ef marka má tölu óskilgetinna barna … það er barna foreldra sem ekki eru í viðurkenndu og fullgildu hjónabandi. Enda hefur að minnsta kosti einn bandarískur sjónvarpsprédikari, sem komst í þessa tölfræði, kallað okkur „þjóð bastarða“.  Í sömu prédikun kallaði hann Ísland reyndar „feminískt helvíti“ því hann hafði líka kynnt sér stöðu jafnréttismála hérlendis.

En við þurfum ekki að fara neinar aldir aftur í tímann til að það hefði þótt hneykslanlegt að íslenskur prestur byggi í óvígðri sambúð sem leitt hefði af sér tvö óskilgetin börn, eins og tilfellið er með þann sem hér stendur. Og sjálfsagt eru enn einstaklingar á meðal okkar sem finnst það ekki við hæfi, en ég held að þeir séu fáir og að þeim fækki ört.

Um tepruskapinn þarf ekki að þrátta.

Pappírarnir og hjartað

En hvar er tvískinnungurinn?

Hann er í því fólginn að hvað eftir annað snýr kristindómurinn bókstaf lögmálsins á hvolf. Jesús segir sjálfur að hvíldardagurinn hafi orðið til fyrir manninn en ekki maðurinn fyrir hvildardaginn, að mannssonurinn sé herra hvíldardagsins, ekki öfugt. Reglur eru til fyrir fólk, ekki fólk fyrir reglur. Og Páll postuli, sem kallaður hefur verið fyrsti guðfræðingurinn, þrástagast á því sem hann kallar „umskurn hjartans“ í trúardeilum fyrstu aldarinnar um það hvort kristnir menn eigi að vera bundnir umskurnarskyldu lögmáls gyðinga eða ekki. Hann hafnar því alfarið, segir að Guð horfi á hjarta mannsins, ekki … önnur líffæri.

Það er tvískinnungur að halda að Guð leiti að hórdómssök í hjúskaparvottorðum en ekki í hjörtum mannanna, en halda að hann leiti allra annarra synda þar. Að taka sjötta boðorðið út fyrir sviga og halda því fram að grundvallaratriði kristinnar guðfræði og siðfræði eigi við um allar syndir nema það … er tvískinnungur.

Nú kynnu einhverjir að súpa hveljur og halda að ég sé að hallmæla hjónabandi eða að boða að það sé tilgangslaust og merkingarlaust. Svo er alls ekki. Heilagt hjónaband er einmitt heilagt af því að ástin er heilög, af því að Guð elskar heiminn og við erum sköpuð í mynd Guðs og ástin í hjörtum okkar er neisti af kærleika Guðs til okkar. Og eins og sönn trú hjartans hlýtur að birtast í verkum getur sönn ást birst í því að ganga fram fyrir altari Guðs með sínum heittelskaða eða heittelskuðu og bindast þar ástarböndum frammi fyrir Guði og mönnum. Ég er bara að benda á að hjúskparstöðuvottorð segir ekki alla söguna um hjörtun í okkur.

Æðsta boðorðið

Við kristnir menn eigum eitt boðorð sem felur öll hin í sér: „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum mætti þínum og öllum huga þínum og náunga þinn eins og sjálfan þig.“ (Lúk 10.27) Sá sem elskar náunga sinn rænir hann ekki, myrðir eða lýgur upp á hann. Og sá sem elskar náunga sinn eins og sjálfan sig kemur fram við hann og sjálfan sig af tilfinningalegri ábyrgð í kynhegðun sinni eins og allri annarri hegðun. Sá sem elskar náungann eins og sjálfan sig nýtir sér ekki valdastöðu eða valdaójafnvægi í kynferðislegum tilgangi. Sá sem elskar náungann og sjálfan sig niðurlægir hvorki sjálfan sig né hann í kynhegðun sinni frekar en nokkru öðru atferli.

Við kristnir menn eigum líka gullna reglu sem hljóðar svo: „Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður það skuluð þér og þeim gjöra.“ (Matt 7.12) Þetta dekkar allt. Þetta nær yfir að sýna heilindi og virða trúnað, að hafa sjálfsvirðingu og misbjóða henni ekki í skiptum fyrir viðurkenningu eða vinsældir. Þetta nær meira að segja yfir hefndarklám, druslusmánun og kynferðislega áreitni.

Kannski er tímabært að við endurskilgreinum hugtakið „hórdóm“, þá athöfn að „drýgja hór“ eins og sjötta boðorðið orðar það. Að við hættum að skilgreina það, eitt boðorða, út frá pappírum – hjúskaparstöðuvottorðum og kirkjubókum – og skilgreinum það í staðinn út frá frelsara okkar sjálfra, hinum óskilgetna Galíleumanni sem á allan hátt stakk sér á kaf í hið mannlega hlutskipti til að færa okkur ljós lífsins. Að við skilgreinum það út frá hinu æðsta boðorði: Elskaðu náunga þinn eins og sjálfan þig.

Ef María hefði lifað í þannig samfélagi hefði enginn engill þurft að birtast henni og segja henni að þetta yrði allt í lagi.

Hún hefði aldrei þurft að hafa áhyggjur af því að það yrði það ekki.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 7. 4. 2019

Davíð Þór Jónsson
Latest posts by Davíð Þór Jónsson (see all)
Flokkun : Pistlar
1,902