trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 11/07/2014

Temmileg spilling í Tehran. „Þú breytir ekkert kerfinu, Kalli“

Eftir Karl Th. BirgissonTehran

„Þetta er hérna,“ sagði Taraneh, um leið og hún skábakkaði litla Daewoo-bílnum sínum inn í stæði sem var ekkert stæði. Það eru reyndar aldrei nein stæði í Tehran.

Það er furðulítil öryggisgæzla við hið íranska Ráðuneyti menningar og íslamskrar leiðsagnar. Ráðuneytið er til húsa í nýlegri, fallegri byggingu í miðborginni. Það eina sem gefur til kynna að þarna séu ekki venjulegar skrifstofur er merki byltingarinnar á stóru skilti fyrir ofan útidyrnar.

Fyrir utan voru að vísu tveir menn í einkennisbúningum, en það sagði ekki margt. Í borginni verður engri tölu komið á fjölda ólíkra einkennisbúninga né heldur hver gegnir hvaða hlutverki, lögregla, her eða byltingarverðir.

Þessir voru óvopnaðir og létu okkur alveg afskiptalaus.

Það var ekki að sjá þetta land ætti í í hörðum útistöðum við hálfa heimsbyggðina. Eða að flóknar trúarbragða- og borgarastyrjaldir geisuðu í nágrannalöndunum, Írak í vestri og Afganistan í norðaustri. Að ekki sé minnzt á Pakistan fyrir suðaustan.

Hér var allt með kyrrum kjörum. Við gengum óráreitt upp á aðra hæð.

Ég hafði fengið ströng fyrirmæli frá sendiráði Írans í Osló (þaðan sem Íslendingar fá vegabréfsáritanir) um að hafa samband við þetta ráðuneyti um leið og ég kæmi til landsins og fá þar tilskilin leyfi til að taka myndir í borginni. Maður lætur klerkana ekki segja sér neitt tvisvar og því vorum við hingað komin í leyfisleit.

Fulltrúi valdsins

Það var júlí, rúmlega fjörutíu stiga hiti úti og engin loftkæling í byggingunni. Þeim mun meira vorkenndi ég embættismanninum sem tók á móti okkur, konu sem klædd var eftir ströngustu fyrirmælum, þannig að aðeins sáust andlit hennar og hendur. Hún var í senn andlitsfríð og alvarleg – leyfði skammæjan augnkontakt en leit svo leiftursnöggt aftur.

Túlkurinn, hún Taraneh, fylgdi hins vegar sið annarra ungra kvenna í Tehran og lét slæðuna liggja kæruleysislega uppi á miðju höfði.

Ráðuneytiskonan las gaumgæfilega bréf um tilgang okkar og markmið með fyrirhuguðum myndatökum. Það hefur greinilega verið ágætlega sannfærandi því að eftir furðulítið skrifræði til viðbótar var allt klappað og klárt.

Eða svo héldum við. Þangað til hún rétti okkur pappír með nöfnum tveggja fyrirtækja.

„Þarna getið þið svo fengið túlk og leiðsögumann.“

„En ég er nú þegar með túlk, leiðsögumann og bílstjóra, allt í einni manneskju,“ sagði ég á ensku við Taraneh, sem kom þeim orðum til skila til ráðuneytiskonunnar. Af stuttu augnatilliti mátti merkja að sú skildi ensku ekki síður en ég og að við hefðum ekki þurft neina milligöngu í þessum samræðum.

En það var eins og hún hefði gleypt páfagauk. Hún benti á skjalið og sagði á persnesku þannig að meira að segja ég skildi: „Þarna getið þið svo fengið túlk og leiðsögumann. Annars fáið þið ekkert leyfi.“

Ég reyndi einu sinni enn, en hún leit fyrst undan og sagði svo eitthvað við Taraneh og var þá mjög ákveðin í fasi. Hún var orðin fulltrúi valdsins. Svona verður þetta og því verður ekki breytt.

Úllen-dúllen-doff

Tehran 2„Mersi,“ sagði Taraneh þurrlega og setti á sig litla bakpokann sinn. Hún var að fara. Ég gaf mér svolitla stund til að tína saman pappíra, en einkum til að stelast til að gjóta augunum að þessari embættiskonu, sem mér fannst að liði ekkert endilega mjög vel í hlutverki sínu. Kannske var það samt vitleysa. Þetta var gott ábyrgðarstarf á vegum hins opinbera og hún var heppnari en margar kynsystur hennar. Og samlandar, ef því er að skipta.

„Mersi,“ sagði ég á leiðinni út, vísvitandi með sterkum íslenzkum hreim. Hún hnykkti höfðinu kurteislega til, en sneri sér svo undan og að næstu verkefnum. Líklega dauðfegin að vera laus við okkur.

Taraneh var dimm á svip í bílnum. Hún hafði tekið sér launalaust leyfi sem blaðamaður til að verða túlkur og alltumlykjandi aðstoðarmaður í tíu daga. Nú skipaði yfirvaldið svo fyrir að ráða skyldi annan, sem hefði blessun og sérstakt leyfi hins opinbera. Hún hafði það vitaskuld ekki og henni var ekki skemmt.

Ekki mér heldur. Ég treysti Taraneh betur en nokkrum öðrum fyrir verkinu eftir áralöng bréfaskipti við hana. Þar að auki var hún skemmtileg, temmilega kaldhæðin, og bæði femínisti og guðleysingi, sem er forvitnilega hættuleg blanda í þessu landi.

Enn síður hafði ég áhuga á einhverjum opinberum túlki sem myndi aðeins sýna okkur það sem ríkisstjórnin vildi að við sæjum, og næstum örugglega skrifa skýrslu um það allt saman til Ráðuneytis menningar og íslamskrar leiðsagnar.

Ég tók Íslendinginn á þetta: „Þetta reddast.“

Taraneh leit á mig full vantrúar, eins og sögnin að reddast væri ekki til í persnesku. Sem hún er ekki.

Við úllen-dúllen-doffuðum til að ákveða á hvorn staðinn við færum fyrst til að finna löggiltan túlk. Taraneh hringdi og boðaði komu okkar.

Herra Reza

Til að vernda hina seku verða raunveruleg nöfn ekki nefnd hér, en við lögðum nærri frekar skítugu húsi og fundum dyrabjöllu merkta: Leiðsögumanna- og túlkaþjónustan ehf.

Innan dyra var allt með öðrum brag en í ráðuneytinu. Við hefðum getað verið stödd í íslenzkum banka – nýleg og mikil skrifstofuhúsgögn, leðursófasett og nýjar tölvur. Ritarinn var að vísu klæddur eins og ráðuneytiskonan, en naut þeirra forréttinda að hafa loftkælingu.

Þetta var greinilega enginn einyrkjabissniss.

Við þurftum ekki að bíða lengi, en nóg var að skoða í móttökunni: Landkynningarmyndir upp um alla veggi og glæsilegar myndabækur í bunkum.

Þá var okkur vísað inn í risastóra skrifstofu þar sem sömu leikmunir voru uppi, en mun færri og afar smekklega raðað. Handan við bankastjóraskrifborðið stóð upp virðulegur maður á sextugsaldri, í vönduðum jakkafötum og vestrænni skyrtu, en náttúrlega bindislaus. Í Íran gengur enginn með bindi lengur, ekki eftir byltinguna. Hálsbindið er táknmynd krossfaranna og fjöldamorða þeirra á múslimum.

Hann heilsaði innvirðulega á lýtalausri ensku og bauð okkur til sætis í enn meira leðri, um leið og ritarinn kom inn með te sem bara Persar kunna að brugga. Forstjórinn ber eitt af þessum hljómmiklu, persnesku nöfnum, en við skulum láta nægja hér að kalla hann Reza.

Ég rétti Reza gögnin frá ráðuneytinu með nokkrum almennum athugasemdum um tilgang ferðarinnar. Hann lagði þau frá sér án þess að líta á þau, en útskýrði svo hvernig þetta væri nú eiginlega:

„Við erum löggilt leiðsagnar- og túlkaþjónustufyrirtæki. Allt okkar starfsfólk er faglega menntað, hefur lokið námskeiðum á vegum ríkisins til að öðlast lögbundin réttindi og uppfyllir allar kröfur sem gerðar eru til þjónustu við erlenda gesti. Hversu löng verður dvölin í Tehran?“

„Tíu dagar,“ svaraði ég. Allt var þetta yfirmáta kurteislegt.

„Já. Við störfum eftir samræmdri, opinberri gjaldskrá, sem er þrjú hundruð dalir á dag. Það gerir þrjú þúsund dali í tíu daga.“Tehran 3

Mér svelgdist á teinu, en Reza hélt áfram:

„En þið verðið augljóslega ekki í vinnu við verkefni ykkar alla tíu dagana – nú þegar er einn dagur farinn í vaskinn – svo að ég býð ykkur þjónustu okkar í sjö daga. Það eru tvö þúsund og eitt hundrað dalir. Annars fáið þið ekkert leyfi til að taka myndir.“

Nú kom sér vel að hafa verið alinn upp í breiðdælskri þversku:

„Ég skil. En sjáðu nú til, herra Reza: Ég hef nú þegar ráðið mér mjög færan túlk og leiðsögumann – og fantabílstjóra að auki, sem veitir nú ekki af í umferðinni hér – og ég hef hvorki í hyggju að reka hana né heldur að hafa tvo leiðsögumenn. Það væri afar óskynsamlegt og illa farið með fé. Þar að auki á ég ekki til þessa tvö þúsund og eitt hundrað dali, svo að mér sýnist þetta ekki byrja vel hjá okkur.“

Við sýnum skilning á aðstæðum

Hann brosti. Ég dáðist að því hversu kurteis og yfirvegaður hann var í einbeittri ósvífni sinni.

„Já. Ertu búinn að kynnast umferðinni hérna? Hún getur verið erfið. Sérstaklega fyrir útlendinga. En staðan er þessi: Samkvæmt lögum verður þú að hafa löggiltan túlk og leiðsögumann og ef ég skil ykkur rétt hefur hún“ – hann leit á Taraneh – „ekki þau réttindi. Ég get þess vegna ekki samþykkt hana sem starfsmann minn. Það er bannað samkvæmt landslögum.“

Ég hristi höfuðið og ók mér í sófanum, þótt leðrið væri þægilegt, en hann hélt áfram:

„En við skulum reyna að komast að samkomulagi. Fyrst aðstæður ykkar eru svona – og ég sýni þeim fullan skilning – þá get ég boðið ykkur túlk í sjö daga, en þið borgið bara fyrir fimm daga. Það eru fimmtán hundruð dalir. En sá leiðsögumaður getur ekki verið hún.“ Hann kinkaði aftur kolli í átt að Taraneh. Ég sá á svipnum á henni að hana langaði mest til að berja þennan mann. Og trúlega rétta mér einn líka.

Ég endurtók að ég væri fullkomlega ánægður með þann leiðsögumann og túlk sem ég hefði nú þegar, þyrfti ekki á öðrum að halda og hefði heldur engin efni á honum. Bætti við að ráðuneytið hefði látið okkur hafa nafn á öðru fyrirtæki og fyrir okkur væri ekki annað að gera en kanna hvernig kaupin gerðust á þeirri eyri.

Reza brá ekki vitund, hann sagðist hafa mikla samúð með okkur við þessar aðstæður, en svona væru lögin og reglurnar. Hann bað mig sofa á þessu og hringja í fyrramálið.

Þetta er kerfið, Kalli

Taraneh var enn niðurdregnari eftir þetta samtal. Ég reyndi að segja „Við björgum þessu einhvern veginn,“ en hún hafði ekki mikinn skilning á því. „Þetta er kerfið, Kalli. Þú breytir ekkert kerfinu. Þessir gæjar eru lögverndaðar blóðsugur. Mér þætti fróðlegt að vita hvernig þessi fyrirtæki fengu þessa einokunaraðstöðu. Ég ætla að skrifa um þetta.“

Ég bað hana blesssaða að sleppa því, eða bíða að minnsta kosti þangað til ég væri farinn úr landi. Spurði hana svo um kostina í stöðunni.

„Það er engra kosta völ. Þú heyrðir hvað maðurinn sagði. Þetta eru lög í landinu.“

Hún tók óvenjustórar svigbeygjur á milli akreina. Og notaði flautuna meira en venjulega. Sem var mikið.

Það tók á mig að sjá hana svona. Hún sem var yfirleitt svo glaðvær og skemmtileg.

„Jamm.“

Svo veikburða tilraun: „Heyrðu. Ekki vera svona niðurdregin. Það fer þér ekki vel. Fáum okkur góðan kvöldmat og hugsum um eitthvað annað.“

Ég veit ekki hvort Taraneh var að hefna sín á heiminum, en hún valdi skyndibitastaðinn Boof – Ugluna – þar sem kostur var gefinn á hamborgurum, kjúklingabitum og pizzum. Með frönskum. Ekki alveg það sem meiningin var svona fyrsta kvöldið í Persíu, en hún var náttúrlega leiðsögumaðurinn. Ennþá.

Sveigjanlegt kerfi

Hún hringdi snemma næsta morgun á leiðinni til mín á hótelið og sagðist hafa fengið símtal frá ritara herra Reza. Kannske væri hægt að finna einhverja lausn á þessu. Hún vissi ekki hverja, en við ættum líklega að drífa okkur þangað.

Herra Reza var jafn kurteis og elskulegur og fyrri daginn. Hann sagðist hafa hugsað málið aðeins betur, skoðað reglugerðir nánar og svona, og væri til í að gera okkur sérstakt tilboð.

„Aðstæður ykkar eru erfiðar og ég vil gera mitt bezta til að koma til móts við ykkur. Það er líka svo sjaldgæft að við fáum gesti frá Íslandi – ég held bara að þetta sé í fyrsta skipti – og þá reynum við auðvitað að leita allra leiða.

Ég er tilbúinn að gera fröken Taraneh að starfsmanni okkar tímabundið og veita líka umtalsverðan afslátt af uppsettu verði. Þið fáið hana sem leiðsögumann allan tímann, en borgið bara fjóra daga, tólf hundruð dali.“

Ég lýsti samstundis ánægju minni og sagði að þetta væru nú aldeilis góðar fréttir.

„En ég borga henni þá ekkert kaup,“ bætti hann við.

Nú fannst mér rétt að segja sem minnst, um leið og ég hugsaði: Fyrir hvað er ég þá að borga þér tólf hundruð dali, mörðurinn sem þú ert?

Yfirvegaði Kalli spurði: „En þetta er samkvæmt öllum lögum og reglum og við fáum þá fullgilt leyfi til að mynda eins og við viljum?“

Honum brá hvergi. „Sem betur fer er kerfið hér í hinu íslamska lýðveldi svo sveigjanlegt að við getum tekið tillit til gesta sem eru langt að komnir.“

„Þetta lízt mér vel á,“ flýtti ég mér að segja og lét eins og ég sæi ekki morðsvipinn á Taraneh.

Við Reza tókumst í hendur og skiptumst á gagnkvæmum kurteisiskveðjum.

„Þið getið borgað ritaranum á leiðinni út. Vonandi verður vistin í Tehran ánægjuleg. Verið þið blessuð.“

Láttu ekki svona

Mútur greiddar í TehranLoftkældi ritarinn tók svipbrigðalaus við tólf hundruð dölum í reiðufé.

„Get ég fengið kvittun?“

„Að sjálfsögðu,“ sagði hún og sneri sér að tölvunni.

Við tvístigum og reyndum að láta á engu bera, þótt við værum greinilega að hugsa það sama.

„Gerðu svo vel,“ sagði hún og rétti mér A4-blað sem var greinilega búið til í Word.

Þeir þurfa ekkert tví- eða þrírit í íslamska lýðveldinu, hugsaði ég, þakkaði henni fyrir og vonaði um leið að skatturinn heima tæki þessa gagnmerku kvittun gilda.

„Svo þurfið þið að koma daginn áður en ferðinni lýkur með myndefnið svo að við getum innsiglað það í umslagi. Þá lætur tollurinn ykkur alveg í friði á flugvellinum,“ bætti hún við.

„Ha?“

„Já. Það er öruggara. Ykkar vegna. Það kostar bara þrjú hundruð dali.“

Við þögðum alla leið niður stigann og út í bíl.

Taraneh ræsti vélina, sneri sér svo að mér og sagði – nei, hvæsti: „Gerirðu þér grein fyrir hvað þú varst að gera?“

„Jájá. Ég var að múta honum. En láttu ekki svona. Þetta reddaðist, var það ekki? Við erum laus undan opinberu eftirliti, með þessa fínu stimpluðu pappíra.“

Ég sá að hún var að byrja á langri ræðu um ranglætið í veröldinni og greip fram í fyrir henni:

„Lofaðu mér bara einu: Ekki skrifa neitt um þetta.“

„Ókei.“

Svo gaf hún í.

2,450