trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 13/10/2014

Takk fyrir að reykja. Minningar um mömmu

Benedikt Jóh.Eftir Benedikt Jóhannesson

Fyrir nokkrum dögum voru níutíu og fimm ár síðan mamma og Ólöf systir hennar fæddust. Mamma fæddist nokkrum mínútum á undan og naut þess þar með að vera eldri. En þær voru afskaplega góðar vinkonur alla tíð og vart hægt að nefna aðra án þess að hin fylgdi með.

Þannig var það frá fyrstu tíð. „Við heitum ekki Gunna“ sögðu þær þegar einhverjum varð á að kalla mömmu þetta. Löngu seinna heyrði ég stúlku kalla Ólöfu Ollu. Það var einhver allt önnur kona en Ólöf frænka.

Þær voru nauðalíkar og stundum kemur fyrir að við börnin þeirra þekkjum þær ekki í sundur á myndum. Á myndinni hér fyrir neðan erum við mamma á þeim báðum, en á þeirri vinstri er hún eins og Ólöf. Þær tóku alltaf undir kveðjur fólks, jafnvel þó að þær þekktu það ekki neitt. Mamma hefur eflaust þurft að vera duglegri í þessu því að Ólöf kenndi í áratugi við Menntaskólann í Reykjavík og fjölmargir nemendur þekktu hana.

Þegar ég var nýfæddur réðu pabbi og mamma færeyska stúlku til þess að hjálpa til við að passa mig. Ekki man ég eftir henni, en systir hennar held ég passaði Önnu Bjarnadóttur litlu frænku mína, sem er liðlega mánuði yngri en ég (og lítur þess vegna alltaf upp til gamla frænda). Önnur hvor þeirra hitti Björn Bjarnason í Færeyjum fyrir nokkrum árum og sagði á sér deili. Hvorugt okkar frændsystkina talar þó með færeyskum hreim.

Ég man hins vegar vel eftir ömmu sem flutti inn á heimilið rétt áður en ég fæddist. Það var mér mikill happafengur. Amma tók mig að sér og hélt yfir mér verndarhendi fyrstu sjö árin. Svo veiktist hún og dó. Ég man ekki til þess að hafa grátið, en ósköp þótti mér vænt um hana.400x400_mamma_og_eg_1956

Tómas bróðir minn sagði nokkur orð um mömmu í boði um daginn. Hún var ættfróð og ættrækin og einstaklega góð við gamlar konur. Varla leið svo sunnudagur að einhver gömul kona sem okkur tengdist væri ekki boðin í mat. Hún var líka metnaðarfull og ákveðin fyrir hönd barnanna sinna, en á sama tíma undarlega óörugg. Hún var ströng, en samt held ég að við höfum aldrei verið hrædd við hana eins og ég held að dætur Ólafar hafi verið hræddar við mömmu sína.

Ég hef held ég frá fyrstu tíð verið frekar uppreisnargjarn gegn yfirvaldi og sérstaklega óréttlæti. Uppreisnargjarn er kannski ekki rétta orðið, ég vildi bara fá að gera það sem mér sýndist. Samt held ég að ekki sé hægt að segja að við höfum fengið frjálslynt uppeldi eins og einhver sagði við Sigga bróður. Mömmu var mjög í nöp við alls kyns fíflaskap og útúrsnúninga. Henni fannst til dæmis að Pétur bróðir hennar, sem orð var haft á hve skemmtilegur væri, oft láta kjánalega. Sá eini sem mátti gera alls kyns hundakúnstir var bekkjarbróðir þeirra systra Gunnlaugur Þórðarson sem þeim þótti vænt um og kölluðu ávallt Peppa á Kleppi, en pabbi hans var læknir þar.

Öll tilgerð var mömmu fjarri og henni fannst að börn ættu að heita gömlum og góðum íslenskum nöfnum og fúlsaði við –ar nöfnum, sagði hún, Rúnar og Arnar fannst henni ekki góð nöfn. Þegar ég benti henni á að Einar endaði líka á –ar tók hún regluna þó til endurskoðunar, þó að Einar hefði verið undantekningin sem sannaði regluna hefði Gunnar ekki verið til líka.

Allir eiga að eiga einhverja fyrstu minningu um foreldra sína, en ég á enga sérstaka. Mamma spilaði stundum á píanóið á jólum. Mér fannst það gaman, hún var ágætlega músíkölsk og hefði getað spilað talsvert ef hún hefði æft sig meira.

Ekki man ég eftir að mamma hafi sagt sögur eða skrítlur. Þó las hún ljóð eftir Grím Thomsen upphátt, Skúlaskeið og Fjallageitina.

Pabbi hefur líklega verið glaðlyndari en hún hafði gaman af því að vera í góðum félagsskap og var í tveimur saumaklúbbum. Lengi hittust þær systur á gamlárskvöld með fjölskyldum, þangað til þær voru orðnar svo stórar að þær sprengdu utan af sér veisluna.

Og þó. Stundum talaði hún um gamla daga. Sem ég skrifa þetta rifjast ýmislegt upp. Afi Benedikt var þekktur fyrir að þykja betra í staupinu en góðu hófi gegndi. Það varð honum oftar en einu sinni fjötur um fót. Mamma sagði að þegar lýst var eftir mönnum í útvarpinu hefði afi sagt að hann áskildi sér rétt til þess að vera týndur í þrjár nætur án þess að eftir sér yrði auglýst.

Einhvern tíma var líka hringt á Skólavörðustíginn þar sem þau bjuggu og spurt hvort þetta væri í Gúttó (húsi bindindishreyfingarinnar) og afi svaraði: „Nei, þvert á móti.“

Nonni rithöfundur var frændi afa og þær systur hittu hann á Alþingishátíðinni 1930. Þá sagðist afi hafa komist í hann krappastan þegar hann sat sem forseti Neðri deildar Alþingis á milli Danakonungs og andramms bindindisfrömuðar.

Það var ekki fyrr en löngu seinna að ég áttaði mig á því hvað var mikill sársauki á bakvið þessar gamansögur. Um það talaði hvorugt þeirra systra við mig fyrr en löngu seinna.

Mamma og pabbi trúlofuðust sumarið 1939, en pabbi fór utan til náms haustið 1937 og þá voru þau orðin par. Það hefur ekki verið neitt grín að bíða eftir honum allan þennan tíma og vita ekki hvernig honum farnaðist, því samskipti við Þýskaland voru lítil og gloppótt.

Þegar pabbi kom svo heim haustið 1945 giftu þau sig svo umsvifalítið, en þó eftir tvo og hálfan mánuð. Tómas bróðir fæddist um sjö mánuðum eftir brúðkaupið og þessi skamma meðganga hefur skýrt margt í hans fari alla tíð síðan.

Mamma var, held ég, ekki sérstök barnagæla. Ég man ekki eftir að hún hafi gert neitt sérstaklega skemmtilegt með okkur fyrstu árin, ekki minnsta kosti mér. Pabbi fór með okkur í leikhús, út að spásséra á kvöldin, í sund og í útilegur. En hún gaf okkur sumargjafir, sem er góður siður sem ég hef ekki haldið við.

Hún var líka ræðin við gesti og alltaf fengum við að vera inni í stofu þegar fullorðið fólk sat þar, nema þegar saumaklúbburinn hittist.

Mamma fór aldrei í sund svo ég muni. Hún fór ekki með pabba í veiðitúra fyrr en hún var farin að nálgast fimmtugt, ekki út að ganga fyrr en yfir sextugt. Þeirra helsta gaman utan heimilis var að fara í Hagkaup og hitta fólk. Eða þannig finnst mér það hafa verið. Auðvitað hittu þau oft vini og ættingja og seinni árin fóru þau saman í ferðalög utan lands og innan.

Ég man aldrei eftir að hafa séð vín á mömmu. Þó lyfti hún glasi í boðum og bergði á, en aldrei meira en það svo ég viti. Af einhverjum ástæðum töldu nokkrir frændur hennar upplagt að koma í heimsókn til hennar þegar þeir vildu fá neðan í því. Hún tók þeim vel og leyfði þeim að sitja um stund og gaf þeim einhvern dreitil og drakk sjálf kaffi.

Foreldrar mínir áttu ágætlega skap saman og aldrei man ég að þeim yrði sundurorða nema ef pabbi fékk sér í staupinu. Hann var hænuhaus og gat varla lyktað af vínglasi án þess að á honum sæi. Þetta fannst mömmu leiðinlegt og mér líka. Ég bauð pabba aldrei upp á áfengi. En ég var líka sammála mömmu um það að þetta var hans eini galli.

Árið 1984 fékk mamma heilablæðingu og veiktist mikið, tapaði máli að hluta til og hreyfigetu í annarri hendi. Pabbi, sem ekki hafði verið mikið í eldhússtússi tók einfaldlega fram matreiðslubækurnar hennar og eldaði upp frá því undir leiðsögn mömmu. Þaðan í frá var hún alltaf eins og vængbrotin, en lengi vel leið henni þó ágætlega þegar frá leið. Sumir áttu erfitt með að skilja það, því að hún var ekki svipur hjá sjón, en henni fannst gaman að vera innan um fólk, þó að hún gæti lítið til mála lagt nema ef fáir væru saman.

Skömmu eftir að hún varð fyrir áfallinu hringdi hún í mig og bað mig að koma í hvelli. Ég brást strax við, en þannig var hún fyrstu vikurnar að hún var smeyk að vera ein. Líklega hef ég borið það utan á mér að mér fyndist hún hafa hringt af litlu tilefni því hún sagði: „Þið eruð ekkert hlýleg systkinin.“ Ég sagði ekkert, en hugsaði: „Það læra börnin sem fyrir þeim er haft.“

En þó að mamma hafi viljað ráða meiru en hún gat um börnin sín og ekki flíkað væntumþykju sinni gætti hún þess samt vel að aðrir gerðu ekki á okkar hlut. „Eltu varlega mínar geitur“, sagði hún og vitnaði í kvæði Gríms Thomsens.

Síðasta árið og kannski rúmlega það var hún á Skjóli. Þá var skammtímaminnið farið að gefa sig. Skömmu áður en hún dó kom ég til hennar og hún var með ljósmynd í höndunum af Tómasi Orra, sonardóttursyni sínum, en hann hafði verið skírður nokkrum dögum áður. Ég spurði hana hvernig henni fyndist nafnið, en gerði ekki ráð fyrir að hún myndi það. „Gott, að hluta“, sagði hún. Þetta svar lýsti hennar hugsun vel og sýndi að hún var eins fram á síðustu stund.

Í síðasta skipti sem ég sá hana á lífi var sýnt í hvað stefndi. Ég bjó mig yfirleitt undir heimsóknirnar með því að hafa einhverjar sögur á hraðbergi, ekki síst af börnunum mínum, en þær þótti henni gaman að heyra. Ég sá samt að í þetta sinn leið henni svo illa að ég hélt bara þegjandi í höndina á henni allan tímann. Hún vissi að hverju dró, en þó að lífið væri henni erfitt og kvalafullt fann ég samt að hún vildi lifa lengur. Svona er lífsviljinn sterkur.

Tveimur dögum seinna var hún dáin.

———-

Mamma reykti ósköpin öll. Heima voru öskubakkar í hverju skoti og þeir voru auðveld jóla- eða afmælisgjöf ef maður var andlaus. Nú veit ég ekki hvernig reykingarnar voru áður en ég fæddist, en hún var byrjuð að reykja árið 1939. Þegar ég var strákur reykti hún meira en pakka á dag, á meðgöngunni líka og það þykir ekki gott nú á dögum. Það er tölfræðilega sannað að börn reykingakvenna eru treggáfaðri en önnur börn, þannig að ég hef afsökun.

Ég ólst upp í reykskýi og átti auðvelt með að vera innan um reykingafólk í menntaskóla. Ekki tókst mér þó að byrja að reykja sjálfur þrátt fyrir heiðarlega tilraun. Púaði reyndar vindla stundum ef ég bragðaði vín, fannst það flott, en hætti því vorið 1982, sama kvöldið og Davíð vann meirihlutann í Reykjavík.

Upp úr 1980 var mamma komin í meira en tvo pakka á dag. Þetta var örugglega ekki góð viðbót við það að hreyfa sig sáralítið. Hún var samt fremur grönn alla tíð, nikótínið eflaust hert á efnaskiptum.

Fljótlega eftir heilablæðinguna hætti hún alveg að reykja og gerði ekki til dauðadags. Ég er ekki neinum vafa um það að reykingarnar urðu mömmu að heilsutjóni. Einhver sagði við mig að ég gæti ekkert vitað hvernig hún hefði verið hefði hún ekkert reykt. En vegna þess að til var annað eintak af mömmu sem sáralítið sem ekkert reykti veit ég það nefnilega.

Ólöf frænka lifði tólf árum lengur en mamma. Síðustu árin var hún ekki ósvipuð því sem mamma hafði verið til heilsunnar, mest fimm síðustu árin. Hún hélt því heilsu um 19 árum lengur en mamma.

Ég reiknaði það út að að á sínum reykingaferli reykti mamma næstum hálfa milljón sígarettna. Ef þær hefðu verið lagðar í röð hefur þær spannað rúmlega 38 kílómetra.

Kannski finnst einhverjum það ekki sérlega langt en tíminni sem það tók að reykja allan þennan fjölda var um sex ár og þrír mánuðir. Það er ef hún hefði reykt stanslaust allan sólarhringinn. Miðað við átta tíma svefn, sem síst er of mikið, jafngildir þetta níu árum og fjórum mánuðum frá morgni til kvölds. Þessum tíma var ekki sérlega vel varið, en auðvitað gat hún bæði lesið og talað meðan hún reykti.

Á þessum tíma kostuðu sígarettur minna en núna, rétt um helming af því sem mér er sagt að pakki kosti núna. Þannig að í þetta fóru ekki nema 15 milljónir króna að núvirði á þessum 45 árum.

Ef við berum saman ævilengd Ólafar og mömmu fæst að hver sígaretta hefur stytt líf mömmu um tæplega 12 mínútur. Áhrifin á heilsuna voru enn meiri eða 18 mínútur af heilbrigði sem hver retta tók af mömmu. Og það tók ekki nema um sex mínútur að reykja hverja þeirra.

Kom einhverjum þetta við nema henni sjálfri? Já, með reykingunum stytti hún þann tíma sem aðrir nutu hennar í fullu fjöri. Börnin mín þekktu hana aldrei eins og hún átti að sér að vera. Eflaust voru hennar filterslausu Chesterfield sígarettur hættulegri en þær sem fólk teygar nú að sér. En samt hefði verið gaman ef einhver lærði af þessari sögu og hætti reykingum áður en þær stoppa af sjálfu sér.

Benedikt Jóhannesson, 12. október 2014

 

1,732