Svo breyttist hann í íslenskan Schubert
Guðmundur Andri Thorsson skrifar
Hann var einn af bestu vinum föður míns, Thors Vilhjálmssonar, og það var ekki leiðinlegt að vera nærri – eða öllu heldur niðri á jörðinni – þegar þeir voru saman á sínu svifi, hlæjandi og baðandi út höndunum. Þeir voru báðir með sterkt og krefjandi orkusvið þess sem hefur algjöra sannfæringu um köllun sína í lífinu; þeir skynjuðu þennan eiginleika hvor í fari hins og var meðal þess sem gerði þá að góðum vinum.
Ætli ég hafi ekki verið átta eða níu ára þegar ég var í nokkrum píanótímum hjá Atla Heimi, sem hann tók að sér af greiðasemi við pabba. Það var hátindur tónlistarferils míns. Einhvern veginn var allt ljóst. Allt blasti við og hljómarnir komu til manns sjálfir og spurðu: Hvað get ég gert fyrir yður? Allt var mjög einfalt og skemmtilegt eins og verður þegar maður er í nærveru snillings. Ég veit ekkert hvað hann lét mig spila – má vera að hann hafi samið það sjálfur, kannski jafnharðan – en ég man hitt, að nálægt Atla kunni ég á píanó; ég var meira að segja frekar góður á píanó. Svo varð ekki meira úr náminu eftir að Atli fór til útlanda, sennilega til að stúdera hjá Stockhausen, og píanókunnáttu minni hefur hrakað að sama skapi ár frá ári, uns svo er komið að hún er engin.
Nálægt Atla leið mér alltaf eins og ég væri í þann veginn að verða margs vísari. Allt var svo lifandi í kringum hann, kvikt og hratt og ákaft. Og stórt.
Hann var séní en líka krati, sem er svolítið einkennileg blanda; hann var sem sé aristó-krati sem sagðist aldrei hafa hitt þessa persónu sem kölluð er almenningur og talaði um að bullið yrði ekkert skárra þó að það væri í C-dúr. Hann talaði af fullkominni sannfæringu um erindi sitt og listræna köllun og hann lét sér í léttu rúmi liggja hvað „íhaldssamar smásálir“ og „þröngsýnir kommar“ hefðu um það að segja.
Tónlist Atla var ögrandi. Hún vakti hugann. Hann skapaði tónvekjur sem gátu vakið mann upp með brauki og bramli, ískrandi mishljómum, hrópum og köllum. Öðrum stundum frjóvguðu tónar hans í manni grufl og óvæntar tengingar – þetta sem tónlist getur ein gert, tónlist snillinga.
Svo breyttist hann allt í einu í íslenskan Schubert þegar hann fór að gera lög við ljóð Jónasar – en var svo rokinn til og farinn að búa til tónlist sem hlær, skemmtimúsík sem hreyfist til í stórri sveiflu eins og hann sjálfur stundum í miðri sögu þegar hann ruggaði fram og til baka af kátínu.
Sum verka hans bera þess vitni að harpa hans hafi verið snortin af hinni himinbornu dís. Fá tónskáld íslensk, fyrir utan kannski Kaldalóns, höfðu aðra eins melódíugáfu – en gerðu í rauninni minna með hana því að Atla fýsti að vera í því liði sem vildi skapa nýjan hljóðheim handa nýju samfélagi eftir glæpi tveggja heimssstyrjalda. Og gerði það.
Atli Heimir var umframt allt módernisti, byltingarmaður sem vildi skapa heiðarlega list með gjörbreyttum forsendum, þar sem öll viðtekin sannindi eru dregin í efa og leitast við að skapa lífi okkar nýjan og heilbrigðari grunn. Þetta var heilög köllun. Það tókst að ýmsu leyti og nú lætur tónlist Atla ekki jafn ankannalega í óþjálfuðum eyrum og hún gerði þegar hann var að brjótast fram með nokkrum hugrökkum félögum sínum.
Ég hitti hann síðast þegar hann varð áttræður, hann var glaður en maður sá líka að ellin sem hallar öllum leik var tekin að deyfa þetta sterka orkusvið, fjör hans og eldmóð. Hann stríddi mér ekkert. Var bara glaður og þannig vona ég að ævikvöld hans hafi verið.
En tónlistin lifir. Hægt er að hlusta á Jónasarlögin hans yndislegu á Spotify, líka Tímann og vatnið, langt og mikið verk kringum ljóðaflokk Steins, fyrir kammersveit, kór og söngvara; flautukonsertinn og fleiri hljómsveitarverk og flautuverk sem Áshildur Haraldsdóttir leikur af snilli, en ég sakna þess að þar er enn ekki hægt að hlusta á sinfóníur Atla; vonandi verður úr því bætt.
Kveðjum Atla með broti úr Tímanum og vatninu. Hann er þar alveg lifandi kominn. Ljóðið er það sjöunda í flokknum og gæti lýst því að deyja. Það er svona:
Himinninn rignir mér
gagnsæjum teningum
yfir hrapandi jörð.
Dagseldur, ljós,
í kyrrstæðum ótta
gegnum engil hraðans,
eins og gler.
Sofa vængbláar hálfnætur
í þakskeggi mánans,
koma mannstjörnur,
koma stjarnmenn,
koma syfjuð vötn.
Kemur allt,
kemur ekkert,
gróið bylgjandi maurildum,
eins og guð.
Guð.
Guðmundur Andri Thorsson
- Nú ertu (endanlega) búinn að missa það, Brynjar - 20/02/2022
- Þegar streðinu lýkur – Guðni Már (og mamma) - 03/01/2022
- Afplánunin - 02/12/2021