trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 26/12/2015

Sveiflar sér um allan heim og margar aldir

Ritdómur – Svavar GestssonEinar Már Guðmundsson

Hundadagar

Einar Már Guðmundsson

(Mál og menning, 2015)

Fáir menn eru eins ólgandi af hugmyndum og Einar Már Guðmundsson; hann er eins og Hekla, Vesúvíus og Eyjafjallajökull samanlagt í öðru veldi. Hann er sjómaður í merkingunni show svo af ber. Fáir eru snjallari að leika sér við áhorfenda- og áheyrendaskarann hvar sem er í heiminum. Ég fylgdist oft með honum í Manitóba, Danmörku og í Svíþjóð; hann var elskaður dáður og virtur. Þegar það komu fimm eða tíu í suma básana á bókamessu á Friðriksbergi varð ekki þverfótað fyrir fólki hjá Einari. Hann er þekktasti íslenski höfundurinn í Danmörku um þessar mundir.

Nú hefur hann gefið út bók sem heitir Hundadagar. Hún er líka sjó: Þarna kastar hann upp í loftin öllu í senn sögu átjándu aldar, nítjándu aldar og tuttugustu og fyrstu aldar. Þarna er Jón Steingrímsson eldklerkurinn mikli sem var dæmdur sakamaður fyrir góðverk, þarna er Finnur Magnússon hetja Friðriks sjötta sem las úr rúnum sem voru rispur eftir jarðhræringar, þarna er Jörundur sjálfur, okkar eini kóngur. Og öskuna frá eldgosum Einars Más Guðmundssonar leggur um allan heim, frá Íslandi suður í Tasmaníu og til baka og allt þar á milli. Engin eldfjöll hafa náð þannig utan um hnöttinn. Allt þetta tengir Einar saman í Íslandi að ekki sé minnst á þá fögru konu Guðrúnu Einarsdóttur í Dúkskoti sem er einhvern veginn innan um og allt um kring.

Þessi taumlausa veisla Einars er stundum þannig að það er erfitt að átta sig á því hvað er í gangi eins og gerðist stundum þegar menn voru yngri og í miklum veisluham. Einar hefur komist í heimildir um Jörund en um hann hafa menn skrifað fjölda bóka. Hann sjálfur Jörundur var allt í senn kóngur sem þéraði sjálfan sig, vér, fyllibytta, tugthúslimur, rithöfundur og allt þar á milli. Hann var til dæmis um skeið bæði dæmdur afbrotamaður og lögregluþjónn í senn því hverjir þekkja betur heim afbrotamanna en afbrotamenn og eru þess vegna bestu lögregluþjónarnir, spyr Einar líkur sjálfum sér. Einar er eins og fimleikamaður á slá, kastar sér á milli heimshluta og tímabila eins og ekkert sé; kemur að í einni setningu báðum byltingum Íslands, búsáhaldabyltingunni og Jörundarbyltingunni. Þvílíkt og annað eins.

Ég hefði vel getað hugsað mér að hafa bókina með heimildaskrá eða einhverju slíku. Bókin dansar nefnilega á mörkum skáldskapar og veruleika og stundum erfitt að átta sig á því hvað er hvað; þannig leitaði ég að lokum að Guðrúnu í Dúkskoti en fann hana ekki á islendingabok.is.

Tók eftir því að það eru dýrðarkaflar í bókinni fyrir Dani enda sló hún í gegn í Danmörku og sá í einhverjum alvöruritdómum þar að henni var fagnað af einlægni. Hér skortir hins vegar finnst mér alvöruritrýni; þetta hér er ekki alvöruritrýni heldur ávarp til Einars.

Held reyndar að Einar hefði átt að hafa bókina lengri, kannski að skrifa eins bók um Jón eldklerk, eina um Jörund, eina um Guðrúnu, eina um Finn. Og svo eina til að tengja þær allar saman að lokum. Efnið er mikið og náman næstum ótæmandi fyrir ólgandi hugmyndaflug eins og Einars Más Guðmundssonar.

Það er annars ekki einleikið hvað vinstri sinnaðir rithöfundar eru hrifnir af Jörundi: Einar, Ragnar Arnalds og Jónas Árnason. Af hverju er það? Það þarf að rannsaka.

Svavar Gestsson

Flokkun : Menning
1,310