trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 20/11/2014

Svavar er dolfallinn eftir lestur á bók Styrmis: Nei, takk, þetta var ekki í lagi og ekki þér samboðið

Svavar og Styrmir„Stuðli maður að því, að njósnir fyrir erlent ríki eða erlenda stjórnmálaflokka beinist að einhverju innan íslenska ríkisins eða geti beint eða óbeint farið þar fram, þá varðar það …1) fangelsi allt að 5 árum.“ Almenn hegningarlög 93ðja grein.“

Með þessari tilvitnun hefst dómur Svavars Gestssonar um bók Styrmis Gunnarssonar, Í köldu stríði. Herðubreið birtir hér dóminn í heild með góðfúslegu leyfi:

Styrmir Gunnarsson á þakkir skildar fyrir ritið Í köldu stríði sem Veröld gefur út. Ég sé að margir ráðast að honum út af bókinni. Það geri ég ekki. Ég hef samt margt við ritið að athuga. Áður en ég geri það vil ég þó geta þess að Í köldu stríði er fjörlega skrifuð og það að flétta inn í textann frásögn af vinum höfundar sem voru einu sinni allir og eru margir enn vinstri sinnaðir er sniðug aðferð. Það bætir og dýpkar frásögnina sem haft er eftir Ragnari Arnalds. Ég held að það megi segja um þessa bók eins og allir ritdómarar segja um nærri allar bækur: Hún heldur – að minnsta kosti okkur sem erum sjötíu ára og eldri. Veit ekki um hina.

Við Styrmir Gunnarsson höfum átt samleið í áratugi. Vorum fyrst hlið við hlið á blaðamannabekkjum alþingis í nokkur ár, vorum kosnir sama vorið varaborgarfulltrúar og fórum stundum þar inn, urðum ritstjórar algerlega andstæðra póla í stjórnmálum, höfum oft átt ágæt samtöl í fjölmiðlum eins og í hitteðfyrra þegar bók mín Hreint út sagt kom út, sátum síðast saman á sjónvarpsskjá hálfa nóttina yfir úrslitum síðustu alþingiskosninga þar sem hann var ánægður með úrslitin en ekki ég. Hann hefur oft skrifað vinsamlega um verk mín undir nafni; nafnlausu skrifin þekki ég ekki. Þegar við hittumst tökum við ævinlega tal saman – og það mun ég líka gera næst þegar ég hitti hann. Það fer ævinlega vel á með okkur af því að við höfum vit á að sleppa því sem við erum ekki sammála um. Sumir þeirra sem ég hef glímt við um ævina fara ævinlega undan þegar ég sé þá eða þeir mig, hvima augunum undan eins og nautpeningur. Styrmir er ekki sú tegund.

Stálu bréfum

Á árum kalda stríðsins komu njósnamál stundum til umræðu. Ég man eftir tvennu. Það var þegar stolið var einkabréfum íslenskra stúdenta austantjalds og þau birt fyrst í Morgunblaði 1963 og svo í bók sem gefin var út af Heimdalli. Styrmir var þá formaður Heimdallar og var dæmdur fyrir stuld á einkabréfum. Hjalti Kristgeirsson vann það mál og enn kemur í ljós í þessari nýju bók Styrmis að honum er ekki um Hjalta gefið.  Þessi einkabréf kölluð SÍA skýrslur koma reyndar aðeins við sögu í bókinni; Styrmir segir ekki satt þegar hann segir frá þeim. Meira um það einhvern tímann seinna, en bréfin voru reyndar ágæt, góðar greiningar á harðstjórninni í Austur-Evrópu. Þannig eiga þeir þakkir skildar sem skrifuðu bréfin og Heimdallur fyrir að hafa gefið þau út. Svona er heimurinn öfugsnúinn. Þjóðviljinn sagði frá hinu njósnamáli íhaldsins skömmu áður en ég kom á blaðið. Þá kom þar frétt á forsíðu undir fyrirsögninni „Svona er njósnað um þig“ þar sem sagt var frá njósnaskýrslu um Gest Þorgrímsson sem var þá einn vinsælasti skemmtikraftur landsins og líka sósíalisti.

Þegar Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur gaf út bókina um Gunnar Thoroddsen kom í ljós að Sjálfstæðisflokkurinn hafði haldið skrár yfir fólk til að tryggja að stuðningsmenn Sósíalistaflokksins/Alþýðubandalagsins, kallaðir kommúnistar þar, fengju helst ekki vinnu. En það kom mér ekki á óvart að „þeir“ fylgdust með „okkur“. „Við“ vissum að „þeir“ fylgdust með „okkur“. Þannig hefur komið fram að það var fylgst með einkafjármálum okkar í bönkunum þar sem við hlutum að hafa viðskipti, þeir vissu allt í smáatriðum um fjárhag Þjóðviljans. Er einhver að hugsa um 1984 og Orwell?

Dolfallinn

En nú kemur þessi bók Styrmis og þá er ég algerlega dolfallinn. Það kemur mér þó ekki á óvart að Ameríkaninn hafi borgað fyrir upplýsingar; það gerði hann um allan heim. Það kemur mér reyndar heldur ekki á óvart að einn og einn maður úr okkar liði hafi sagt frá því sem gerðist á fundum okkar. Það er ekki frétt. En það sem kemur mér á óvart er að Styrmir skuli hafa skráð skýrslur af þessum málum, hann hafi setið með einhverjum uppljóstrara (nýtt orð yfir njósnara) úr okkar röðum jafnvel á nóttunni og að þær skýrslur hafi gengið til Bjarna Benediktssonar og Geirs Hallgrímssonar og að það hafi verið borgað fyrir þær af bandaríska sendiráðinu, Sjálfstæðisflokknum og Morgunblaðinu. Ég hefði fyrirfram getað ímyndað mér að einhverjir flokksmenn Sjálfstæðisflokksins í allra öftustu röð stunduðu svona njósnaraleiki – en að forystan sjálf væri þarna að verki. Því hefði ég harðneitað – áður en bók Styrmis kom út. Mér finnst að svona vinnubrögð eigi að vera fyrir neðan virðingu Styrmis Gunnarssonar. Það er beinlínis sorglegt að ungur og greindur maður eins og Styrmir skuli hafa lent í þessu foraðsdíki, „ungur maður með hreinar hugsanir“.

Hann rökstyður gjörninga sína með því að Ísland hafi verið í stríði, köldu stríði. Íslensk stjórnvöld hafi samþykkt að taka þátt í því stríði með aðildinni að Atlanshafsbandalaginu og hersetunni 1951. Þess vegna hafi verið eðlilegt og rökrétt að fylgjast með öllum þeim sem voru á móti hernum og NATÓ, að kalla þá kommúnista í hvaða flokki sem þeir voru, að neita þeim um atvinnu, að liggja á hleri við híbýli þeirra, að snuðra um einkamál þeirra. Nei, það var ekki í lagi, nei takk, samanber tilvitnunina hér í upphafi í almenn hegningarlög.

Ofmat

Já og um hvað eru skýrslurnar sem Styrmir segir frá? Þar er ekki neitt merkilegt satt best að segja. Enda veit ég ekki hvað það ætti að vera – hver var með hverjum í klíku, hvernig þessi talaði um hinn. Semsagt blaður.

Í bókinni fullyrðir Styrmir að tilgangur þeirra hafi verið sá að veikja stjórnmálasamtök íslenskra vinstri manna á þessum árum. Hann segir líka að það hafi tekist. Það er ekki rétt; þar ofmetur hann Morgunblaðið og sjálfan sig. Þessi skrif höfðu hverfandi áhrif nema í samkvæmisleikjum þar sem menn voru að gamna sér við að giska á það hvaðan upplýsingarnar væru komnar. Þjóðviljinn var þá til og var til varnar fyrir fólk og félagarnir stóðu ekki eins óvarðir á berangri og seinna varð þegar Þjóðviljinn hætti að vera til. Styrmir notar sér yfirgang Sovétríkjanna sem rök fyrir aðförum sínum og félaga sinna og að það hafi verið vegna þess að þau hafi viljað troða kommúnisma/sósíalisma upp á allar þjóðir. En það dugir heldur ekki; Sovétríkin voru einfaldlega rússneskt stórveldi og það sést um þessar mundir að sósíalisminn kemur Rússlandi ekkert. Leiðtogar þeirra misnotuðu hins vegar hugsjónir sósíalismans til að halda veldi sínu á floti og til að reyna að tryggja sér stuðning annars staðar í heiminum.

Snjallastur

Það væri reyndar gaman að fara yfir það hvernig Styrmir hélt áfram að fylgjast með því sem gerðist í Alþýðubandalaginu síðar – einkum eftir 1985. Hvernig Morgunblaðið sagði frá smáatriðum af litlum fundum eins og í stjórn Útgáfufélags Þjóðviljans. Þá tók Morgunblaðið alltaf málstað  „lýðræðiskynslóðar“ Ólafs Ragnars Grímssonar gegn undirrituðum. Hver var uppljóstrarinn? Um þetta mun ég fjalla seinna. Svo er ekki fráleitt að velta fyrir sér átökunum í Vinstri grænum á síðasta kjörtímabili hvernig Styrmir Gunnarsson, Björn Bjarnason og Davíð Oddsson tóku hvern vinstri græningjann á fætur öðrum á hné sér og kjössuðu þá eins og mannvitsbrekkur og mikilhæfa stjórnmálaleiðtoga á heimsvísu þó margir þeirra væru í mesta lagi pólitískir þúfnabanar. Þessi vinnubrögð sem Styrmir lýsir hafa nefnilega alltaf verið tíðkuð á Morgunblaði en Styrmir er sannarlega snjallastur allra í að iðka þau. Um það mun ég einnig fjalla síðar. En hann á þakkir skildar fyrir að stíga fram á völlinn – og tilvitnunin í hegningarlögin hér á undan er umhugsunarefni.

Svavar Gestsson

ritstjóri

1,387