trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 03/08/2017

Sumarlesning Herðubreiðar (XVII): Amma klagaði hann fyrir tossaskap og leti

Að kvöldi gamlársdags á því herrans ári 1884 sat íslenskur maður og skrifaði fáeinar línur í dagbók sína: „Þetta ár hefur verið breitilegasta og merkilegasta ár æfi minnar.“ Að vonum voru breytingar honum ofarlega í huga þar sem hann hafði fáum mánuðum áður flutt til annars lands, frá hinu harðbýla Íslandi til hinnar frjósömu vesturálfu með öllum sínum fyrirheitum um betri tíð. Þó fylltu vistaskiptin hann takmarkaðri tilhlökkun:

Dagbókin sínir æfi mína hjer eða hið ytra líf, hið innra líf mitt hefur verið fult af leiðindum, sorg og söknuði. Eg get ekki átt von á að una hjer æfi minni. Eg þrái að komast heim aptur og meiga eyða þeim fáu dögum sem eptir eru æfinnar og deyja heima á minni kjæru fósturjörð. Það huggaði mig helst ef jeg ætti von á að sjá framá góða framtíð barna minna hjer og um það hefi jeg góða von enda kunna þau og H. mín vel við sig og það er bót í máli.

———-

Þannig hefst BA-ritgerð Svavars Hávarðssonar í sagnfræði, þar sem hann lýsir mannlífi, störfum, kjörum og félagslífi ábúenda í Loðmundarfirði á seinni hluta nítjándu aldar. Þá voru þar tíu bæir í byggð, en þeir eru nú allir hröfnum að leik.

Svavar, sem er kunnur blaðamaður og nú ritstjóri Fiskifrétta, hefur veitt Herðubreið góðfúslegt leyfi til að birta nokkra kafla úr ritgerðinni. Þar verður sjónum einkum beint að þeim einstaklingum, sem Svavar byggir rannsóknir sínar á.

Við byrjum á þeim sem átti upphafsorð ritgerðarinnar, Birni Halldórssyni á Úlfsstöðum.

———-

Björn Halldórsson fæddist að Ketilsstöðum í Hlíð í Hróarstungu 23. mars árið 1831. Hann var sonur hjónanna Halldórs Sigurðssonar bónda á Ketilsstöðum og Hildar Eiríksdóttur. Þau voru bæði ættstór; Halldór sonur Sigurðar prests á Hálsi í Fnjóskadal Árnasonar ríka frá Sigluvík, en Hildur var dóttir Eiríks Grímssonar á Skinnalóni og Þorbjargar Stefánsdóttur prests Lárussonar Schevings á Prestshólum.

Halldór og Hildur giftust árið 1830 að Ketilsstöðum og bjuggu þar fyrsta búskaparár sitt. Björn var fyrsta barn þeirra og var skírður eftir Birni Sigurðssyni, stjúpa Hildar sem tók drenginn til fósturs um vorið þegar foreldrar hans fluttust frá Ketilsstöðum á eignarjörð Halldórs, Hlíðarhús í Hlíð þar sem þau bjuggu í þrjú ár eða til vors 1834. Þá seldi Halldór Hlíðarhús og keypti Úlfsstaði í Loðmundarfirði, flutti þangað og bjó þar til dauðadags 10. júlí 1856.

Einungis er hægt að geta sér til um ástæður þess að foreldrar Björns settu hann í fóstur. Hefðbundnar efnahags- og félagslegar skýringar, sem jafnan eru nefndar, eiga vart við hér. Halldór og Hildur voru vissulega að hefja búskap á nýrri jörð, sem gæti hafa þýtt visst fjárhagslegt óöryggi, en búskapinn hófu þau á eignarjörð sem bendir frekar til hins gagnstæða. Björn var eina barn Halldórs og Hildar á þessum tíma, svo ómegðin var ekki ástæða þeirrar ákvörðunar ungu hjónanna að koma Birni í fóstur. Flutningum og stofnun nýs heimilis fylgdi rask og óöryggi og hugsanlegt er að Halldór og Hildur hafi viljað hlífa ungum syni sínum við slíkum erfiðleikum. Dvöl hans að Ketilsstöðum getur hafa verið tímabundin lausn sem dróst á langinn, því eins og komið hefur fram fluttu foreldrar hans að Úlfsstöðum aðeins þremur árum eftir að þau hófu sjálfstæðan búskap að Hlíðarhúsum.

Ármann Halldórsson alþýðufræðimaður og fyrrverandi safnvörður og kennari, hefur ritað stuttan minningarþátt um Björn. Hann segir að Björn hafi fengið „bæði harða tamningu og gott atlæti“ í vistinni hjá Þorbjörgu ömmu sinni og Birni Sigurðssyni. Hann sýndi snemma að hann var greindur og bráðþroska því sjö ára gamall las hann talsvert og kunni fræðin og bænir, en hegðun hans var þó ekki nema „allgóð“. Að hluta fellur þetta vel að æskuminningum Björns. Hann telur sig hafa verið ærslasaman og áflogagjarnan og þess vegna hafi hann og amma hans ekki átt skap saman. Hvað varðar námið segir hann: „Á 5. og 6. ári kendi hún mjer að lesa og gekk vel á 7. ári fór hún að troða í mig barnalærdómnum. Það gekk lakar; það stríð stóð yfir þar til jeg var 9 ára, eða 3 vetur og kostaði mig margann löðrung og eina híðing á jólanóttina fyrsta veturinn.“

Almennt höfðu börn fyrstu kynni sín af hinni óformlegu menntun sveitasamfélagsins á þessum aldri. Foreldrar eða skyldulið sáu um uppfræðsluna sem fólst í að kenna barninu að þekkja stafina, og síðan að lesa, sem þau lærðu gjarnan af guðsorðabókum. Forskóli barnanna var utanbókar lærdómur á bænum og versum. Þessi fræðsla hafði að meginmarkmiði að kynna kennisetningar kristindómsins og átti rætur að rekja til aldagamallar innrætingar lútherskrar kirkju á guðs orði. Að þessu námi átti fólk svo að búa alla ævina.

Uppeldi Björns á Ketilsstöðum var hefðbundið á fleiri sviðum. Hann lýsir ömmu sinni sem siðavandri og prúðri konu og ærsl dóttursonarins voru henni ekki að skapi. Hún gekk á fund sóknarprests og „klagaði mig fyrir tossaskap og leti.“ Það er greinilegt að Þorbjörg ætlaðist til að Björn væri þægur, stundaði lærdóm sinn og gengi þegjandi til þeirra verka sem honum voru ætluð. Fjör hans og skap taldi hún ekki vænlegt veganesti til framtíðar og hvað þá elska hans á öllu sem „ljótt var“ sem voru „trölla, drauga og útilegumannasögur“, eins og hún mun hafa komist að orði.

Magnús Eiríksson guðfræðingur, kallaður frater, var móðurbróðir Björns. Hann ólst upp hjá Þorbjörgu móður sinni og Birni rétt eins og Björn Halldórsson. Í doktorsritgerð sinni, sem fjallar um Magnús og trúarhugmyndir hans, minnist Eiríkur Albertsson guðfræðingur stuttlega á uppvaxtarár Magnúsar:

Björn Sigurðarson var drengur góður og búhöldur í bezta lagi. Hann reyndist stjúpbörnum sínum eins og faðir væri; einkum varð Magnús honum mjög hjartfólginn. Öryggi og friður bernskuheimilisins hefir því haft hin beztu áhrif á hinn unga svein, svo og guðrækni og trúarinnileiki stjúpföðurins og einkum þó móðurinnar, sem var mjög trúrækin kona, eins og hún átti ætt til. […] heiðríkja og ylur voru einkenni bernskuheimilisins. Allt virðist því benda á beinar brautir og bjartar, enda mun Magnús hafa verið elskulegur drengur í hvívetna, mjög hlýðinn og afburða námsfús.

Samkvæmt þessu naut Magnús góðs atlætis í bernsku. Það kemur einnig skýrt fram að Magnús hafi verið móður sinni og stjúpa að skapi, hlýðinn og gefinn að bókum. Björn Halldórsson hafði aðra sögu af stjúpa sínum að segja:

Amma mín dó þegar jeg var á 10. ári. Hart átti jeg opt hjá nafna; Þegar jeg var á 10. ári var jeg látinn alt sumarið raka á voteingi með vinnukonum; Á 11. ári tók jeg við rollusmalamensku en þar er þoka og illveðrasamt og rollur óþægar. Á vetrum var jeg opt látinn standa hjá fje í krafsturjörð lítt klæddur í einni prjónabrók svartri; lá mjer opt við gráti af kulda, en gráta mátti jeg aldrei svo nafni sæi þá sneipti hann mig og hæddi.

Hér að framan var sagt að Björn hefði fengið „harða tamningu“. Ekki ber á öðru samkvæmt vitnisburði hans, en þó skal varast að draga ályktanir um lyndiseinkunn Björns Sigurðssonar út frá þeim orðum. Oft voru miklar kröfur gerðar til barna og unglinga og átti það ekki síst við um vinnuframlag þeirra. Iðni og vinnusemi voru dyggðir sem hafðar voru í hávegum og tár á hvarmi hafa mætt litlum skilningi víðar en á Ketilsstöðum.

Þó má ætla að bernskuheimur þeirra frænda hafi ekki verið eins fagur og hlýr og Eiríkur Albertsson heldur fram, og svo hafi verið hjá stórum hluta þeirra sem ólust upp í sveitasamfélagi nítjándu aldar. Björn Sigurðsson hefur því allt eins líklega reynst Birni sem traustur faðir, þrátt fyrir að Björn minnist stjúpa síns sem „fámálugs og þúnglynds“ í bréfi til Magnúsar Eiríkssonar frænda síns. Af framsetningu bréfsins má ráða að Magnúsi hafi verið kunnugt um lundarfar Björns.

Snemma vetrar 1844 kölluðu foreldrar Björns hann heim að Úlfsstöðum:

Jeg kom heim til foreldra minna hálfum mánuði fyrir Jól þegar jeg var á 14. ári, sjálfur var jeg viljugur til umskiftanna því hjá mjer var þá vöknuð sterk löngun til náms, en Þenna vetur lenti námið í því að staglast gegnum „kverið“, sem jeg hafði görsamlega gleymt. […] móðir mín vildi koma mjer í undirbúningsskóla næstk. vetur 1845-6 en faðir minn taldi það úr; enda hafði jeg lítið ástríki af honum, svo ekkert varð úr skólanáminu; enda var efnahagur foreldra minna of þröngur til þess aðgefa með mjer í skóla.

Hér takast á tveir aðskildir þættir menntunar á nítjándu öld. Það nám sem beið Björns við heimkomuna var trúarlegt og hafði ferminguna að lokamarki. Birni hafði ekki látið vel að staglast í gegnum trúarlega texta hjá ömmu sinni á Ketilsstöðum eins og fram hefur komið. Kverið var hin kristilega kennslubók, en Birni fannst sú lesning „tormelt og leiðinleg“, eins og mörgum jafnöldrum hans. Það sem freistaði Björns var lesefni af veraldlegum toga. Það nám sem honum bauðst heima á Úlfsstöðum freistaði ekki, heldur það sem var aðeins innan seilingar þeirra sem áttu eitthvað undir sér.

Hræðsla við óvissuna var landlæg hér á landi á nítjándu öld. Sambúð manns og náttúru var náin og slys eða önnur áföll gátu kostað mörg erfið búskaparár. Því þurfti fólk að hafa töluvert handa á milli til að geta kostað börn sín til náms og var slíkt aðeins á færi fárra. Hjónin á Úlfsstöðum voru ekki í þeim hópi. Efnahagslegar aðstæður þeirra höfðu áhrif á fjölskyldulífið þar sem hjónin voru ekki samstiga í hvernig bregðast skyldi við námsþorsta sonarins. Í frásögn Björns birtist greinileg togstreita þeirra á milli. Ákvörðun föður hans var ljós og skiljanleg þar sem efnin leyfðu ekki frekara nám, en Björn dæmir hann hart í minningarbroti sínu þótt hann virðist meðvitaður um ástæður þess að hann fékk ekki óskir sínar uppfylltar. Menntun var ættgengt fyrirbæri almennt séð á nítjándu öldinni og hafði verið „landlæg“ hjá fólki Hildar. Hún vildi því leggja allt undir til að sonurinn mætti njóta góðrar menntunar:

Haustið eptir – 1846 – fjekk mamma brjef frá Stefáni Bjarnarsyni halfbróður sýnum, sem þá var í efri bekk í Bessastaðaskóla (við St.ólumst upp saman, hann varð seinna sýslu maður í Ísaf. sýslu og svo í Arnessýslu og dó þar) og skorar þar á foreldra mína að koma mjer næstkomandi vetur í undirbúningsskóla, og ef mjer gengi vel kvaðst hann skyldi koma mjer inní latínuskólann næsta haust á eptir. Þá kendi piltum undir skóla Sigurðr prestur Gunnarsson á Desjarmýri. Rjeði mamma því að hann var beðinn að taka mig. Hann tók því vel; en þegar til meðgjafar kom gat þeim föður mínum og honum ekki komið saman, prestur vildi hafa 60rd (120kr) fyrir veturinn; það þókti föður mínum of dýrt svo ekkert varð af skólakennzlunni.

Á þessum tíma þjónaði Jón Austfjörð Jónsson Klyppstaðasókn í Loðmundarfirði og hafði gert um langt skeið. Hann var samviskusamur og gaf sóknarbörnum sínum vitnisburði um kunnáttu og hegðun af mikilli kostgæfni. Umsagnir hans um Halldór bónda eru margar hverjar forvitnilegar. Prestur telur hegðun hans „í meðallagi“ og „kostulega“ og um kunnáttu hans segir hann: „Þykist vita meira en veit.“ Halldór var stúdent og hafði notið tilsagnar í heimaskóla Geirs Vídalíns biskups. Því er kannski skiljanlegt að hann hafi þóst vita sitthvað. Hann virðist þó hafa farið illa með tækifæri sitt til náms:

Halldóri hafði verið haldið til náms ungum, og átti hann að verða prestur. […] fór það orð af, að hann væri ekki námsmaður. Var hann af sumum kallaður „smjörhaus“, sökum þess að talið var, að faðir hans hefði greitt einhvern námskostnað hans með smjöri, enda höfuðið lint að leysa námsþrautirnar.

Halldór var prestssonur og því líklegur til að feta í fótspor föður síns. Hann fékk uppfræðslu hjá hámenntuðum manni og forsendur því allar fyrir hendi. Þess sjást þó hvergi merki að hann hafi hugsað sér að gerast prestur, hvorki við brauð föður síns né annars staðar. Þess í stað hóf hann búskap í fjarlægri sveit. Halldór varð þar vel metinn og gegndi trúnaðarstörfum fyrir sveit sína, svo sem embætti hreppstjóra. Hildur kona hans fékk einnig einkunnir hjá Jóni Austfjörð og undantekningarlaust eru þær hinar ágætustu. Hann notar jafnan valin lýsingarorð eins og „siðferðisgóð, gáfuð og greind”. Hildur birtist sem mesti skörungur:

Henni hélzt vel á æsku sinni, var þrekmikil kona og skörungur í verkum og skapi, og talin var hún meiri gáfum gædd en bóndi hennar. Börn áttu þau 6 á lífi […] Öll þóttu börn þessi mannvænleg og þó einkum elzti sonurinn, Björn, er lengst var kominn til manns. Þau höfðu mikinn hug á því, og þó ef til vill einkum Hildur, að veita þessum börnum sínum góða uppfræðslu.

Hvort það var skeytingarleysi föðurins eða skynsemi sem réð ákvörðun hans um að sonurinn sæti heima er ekki hægt að fullyrða. Ef til vill hugsaði hann sér að Björn tæki við jörðinni á Úlfsstöðum eftir hans dag enda var Björn elstur barnanna og efnilegur. Hildur fékk því ekki vilja sínum framgengt og vonbrigði Björns voru mikil: „Eg tók mjer það mjög nærri og sveið sárt að fá ekki að læra.“

Þrátt fyrir að Björn fengi ekki óskir sínar uppfylltar hvað skólagöngu varðar, þá var hann í ágætri aðstöðu til að fræðast. Bókaeign heimilisins var mikil að sögn Jóns Austfjörð, sem tilgreinir þó aðeins bækur trúarlegs eðlis. En Björn hefur á þessum tíma orðið fyrir meiri áhrifum frá föður sínum en hægt er að greina við fyrstu sýn. Halldór stundaði lækningar og hafði sjúklinga á heimili sínu á Úlfsstöðum, oft í langan tíma. Björn stundaði sjálfur lækningar eftir að hann tók við búi á Úlfsstöðum og því er líklegt að hann hafi sýnt starfi föður síns áhuga, jafnvel aðstoðað og fengið beina kennslu frá honum. Auk þessa var Björn góður smiður og ekki er ólíklegt að þar hafi hann einnig gengið í smiðju til föður síns.

Menntaþrá Björns og áhugi kemur víðar fram. Hann var aðili að stofnun Lestrarfélags Klyppstaðasóknar árið 1849, þá 18 ára að aldri. Þar hafði hann aðgang að ýmsum blöðum og tímaritum en auk þess Íslendingasögunum og ævintýrabókum svo eitthvað sé nefnt. Leiða má rök að því að bókakosturinn á Úlfsstöðum hafi náð til fleiri efna en trúarlegra þegar menntunaráhugi Hildar er hafður í huga og Halldór getur vel hafa verið bókhneigður, eins og greina má af lækninga- og hreppsnefndarstörfum hans, þrátt fyrir að heimildir gefi annað í skyn.

Námsþorsta Björns var að hluta svalað þegar Einar Ásmundsson, sem seinna var kenndur við stórbýli sitt Nes í Höfðahverfi, kom að Úlfsstöðum vorið 1849. Hann var þá nýkominn frá námi í Danmörku og erindi hans austur á land var að hasla sér völl sem sjálfstæður iðnaðarmaður. Dvöl hans á Úlfsstöðum varð nokkuð löng eða til vors 1851. Hlutverk Einars var að kenna yngri börnunum á bænum og virðist hann hafa gert það með miklum sóma enda er hans minnst af yngri bræðum Björns sem „okkar mikla snillings.“ Einar var fæddur 1828 og því aðeins þremur árum eldri en Björn en engum sögum fer af hvernig samskiptum þeirra var háttað.

Námsþorsti Björns og þekking Einars urðu að öllum líkindum til þess að þeir tengdust tryggðarböndum. Í það minnsta greina dagbækur Björns frá tíðum bréfaskiptum þeirra á milli síðar á ævinni, auk einstaka heimsókna. Á þennan hátt naut Björn meiri fræðslu og frá hæfari kennara en flestir sem deildu með honum svipuðum kjörum. Yfirleitt voru kennarar aðeins um nokkurra vikna skeið á hverjum bæ og margir höfðu tiltölulega litla menntun að baki. Til samanburðar má nefna að Klyppstaðaprestur taldi Einar „einhvern þann fróðasta“ mann sem hann þekkti. Dvöl Einars á Úlfsstöðum hefur því gefið Birni tækifæri til að svala fróðleiksþorsta sínum.

Hvergi hef ég rekist á heimildir um hvaða tilfinningar systkini Björns báru til föður síns en Hildur móðir þeirra var í hávegum höfð. Í bréfi til Magnúsar Eiríkssonar í Kaupmannahöfn segir Eiríkur bróðir Björns: „Systir þín, elskuleg móðir mín, er við þetta gamla, sitt mikla og stöðuga fjör og óþreytandi þrek. Hún stendur gegn mótgangi og hörmungum eins og foldgnátt fjall, enda er trú hennar sterk og rótgróin.” Minning Björns um móður sína er á svipuðum nótum og Halldór stendur greinilega í skugga hennar:

Faðir minn var mikill yðjumaður en ekki verulegur búmaður. Móðir mín var fluggáfuð andlega og verklega og mikil búkona. Meira þarflegt starf og fleiri góðverk veit jeg ekki liggja eptir nokkra konu aðra þegar borið var saman efni hennar og ástand.

Samskipti Björns við föður sinn og þar á undan stjúpa virðast hafa verið yfirborðskennd og birtast þeir sem verkstjórar frekar en uppalendur í frásögn hans. Þetta er í samræmi við lýsingar margra samtímaheimilda þar sem kemur fram að fullorðnir höfðu takmörkuð tækifæri til að eiga samskipti við börn sín vegna mikils vinnuálags. Þar fyrir utan hafa skyldur Halldórs sem hreppstjóra og læknis tekið mikinn tíma og krafist fjarvista frá heimilinu. Hildur hefur því haft meira af syni sínum að segja; hún virðist ein hafa skilið væntingar og vonir sonar síns. Hún var tilbúin til að gera allt sem í hennar valdi stóð til þess að draumar hans rættust, og jafnvel meira en aðstæður leyfðu. Þess vegna var samband þeirra náið og það hélst til dauðadags hennar. […]

Þegar Björn snéri til föðurhúsanna snemma vetrar 1844 var fyrir á Úlfsstöðum stúlka að nafni Kristín Einarsdóttir; dagfarsprúð, vel að sér og dugleg. Kristín var dóttir Einars Stefánssonar og Ólafar Jónsdóttur sem bjuggu að Ytra-Lóni á Langanesi. Einar og Þorbjörg á Ketilsstöðum, amma Björns, voru hálfsystkin. Sumarið 1838 komu Einar og Ólöf dóttur sinni í fóstur til Halldórs og Hildar. Kristín var þá níu ára gömul og fyrstu árin skráð „tökustúlka“ eða „fósturstúlka“ í kirkjubókum Klyppstaðasóknar og var því samkvæmt lagabókstafnum uppeldissystir Björns.

Þrátt fyrir að þau Björn og Kristín hafi lítið þekkst má búast við að í fyrstu hafi samskipti þeirra verið á svipuðum nótum og gerist á milli systkina. En það átti eftir að breytast. Af heimildum má ráða að ungmennin hafi fellt hugi saman þegar árið 1848. Björn var þá átján ára en Kristín ári eldri. Þetta fór ekki fram hjá þeim sem áttu að gæta velsæmis í sveitinni eins og hegðunareinkunnir prestþjónustubóka benda til. Hreppstjórinn var Halldór faðir Björns og presturinn Jón Austfjörð Jónsson bjó á Klyppstað sem er næsti bær við Úlfsstaði. Nær öruggt má telja að þeir hafi reynt að koma í veg fyrir náin kynni Björns og Kristínar þegar í upphafi en lítið orðið ágengt. Samdráttur þeirra var bein ögrun við hefðbundin siðferðisgildi samfélagsins og því var það skylda málsmetandi manna að koma í veg fyrir hann.

Árið eftir var hegðun Björns skráð „mjög ábótavant“ sem væntanlega vísar til sambands hans og Kristínar og 6. október árið 1850 fæddi Kristín soninn Björn. Þegar hér var komið var sambandi þeirra lokið. Vegna ungs aldurs höfðu þau engin ráð til þess að framfleyta fjölskyldu og voru því örugglega skilin að. Erfitt er að tímasetja nákvæmlega hvenær það gerðist en þó líklega stuttu eftir að vitneskjan um þungun Kristínar varð öllum kunn. Ómögulegt er að segja með vissu hvaða tilfinningar Björn og Kristín báru hvort til annars. Eins er ekki hægt að fullyrða hvernig kynnum þeirra var háttað og til greina kemur að þau hafi aldrei ætlað sér að halda sambandinu áfram. Hér verður að hafa í huga að fólk á þeirra aldri var fullkomlega meðvitað um þau óskráðu boð og bönn sem var ætlast til að menn fylgdu. En víst má telja að þau hafi bundist sterkum tilfinningaböndum og barnið verið getið af ást. Boð og bönn voru því að engu höfð. Er því kaldhæðnislegt til þess að hugsa að næstu ár bjuggu þau áfram á Úlfsstöðum ásamt barninu en Björn yngri var ætíð færður til bókar sem sonur Kristínar og „blæja fyrirgefningarinnar breiðist yfir breiskleika“ þeirra.           

Framtíð við hæfi

Hinn 5. júlí 1856 gengu Björn Halldórsson og Kristín Einarsdóttir bæði í hjónaband. Björn kvæntist Hólmfríði Einarsdóttur vinnukonu, sem hafði komið að Úlfsstöðum árið áður, en hún var systir Kristínar og þremur árum yngri. Kristín giftist Jóni Ögmundssyni, bóndasyni frá nágrannabænum Bárðarstöðum og áttu þau soninn Ólaf er fæddist fyrr þetta sama ár. Einn af svaramönnum ungmennanna var Halldór Sigurðsson, faðir Björns, þá fársjúkur maður. Hann lést fimm dögum síðar úr „gallsótt og taki“.

Í ljósi þessara atburða má sjá hvernig ungu fólki var stýrt innan gamla bændasamfélagsins. Væntingar heildarinnar og samtrygging kom nær algjörlega í veg fyrir möguleika fólks til að fara eigin leiðir. Einstaklingurinn, fjölskyldan og grundvöllur hennar sem var jarðnæðið voru órjúfanleg heild. Mannfélagið var gegnsýrt af þeirri trú að tilfinningasemi gæti ógnað þessu viðkvæma jafnvægi og myndi leiða til upplausnar. Gifting fjórmenninganna í Klyppstaðakirkju 5. júlí 1856 var því að vissu leyti fyrirsjáanleg. Á þessum tímapunkti höfðu þau uppfyllt þau skilyrði sem krafist var af ungu fólki. Þau höfðu náð tilætluðum aldri og fyrirsjáanlegt fráfall Halldórs skapaði grundvöll fyrir Björn að stofna fjölskyldu og taka við þeirri stöðu sem honum var ætluð, það er búsforráð á Úlfsstöðum. Kristín og Jón Ögmundsson hófu búskap í annarri sveit en Björn yngri varð eftir hjá föður sínum á Úlfsstöðum.

Nokkrum árum seinna lýsir Eiríkur Halldórsson bróðir Björns honum svo í bréfi til Magnúsar Eiríkssonar í Kaupmannahöfn:

Björn bróðir minn, er nú orðinn gyldur bóndi, og máttarstoð sveitar sinnar, hann býr á Úlfsstöðum í Loðmundarfirði og er þar hreppstjóri, hann á konu sér við hæfi, samfarir þeirra hjóna eru ástúðlegar, góður guð hefir blessað þau með 2ur fögrum og efnilegum dætrum, heytir hún eldri Margrét en hin ýngri Björg, hann varð fyrir hnekkir í haust, hann missti spánnýann bát í sjógangi, gott 60 rd virði, en það er bótin að hann getur komið sér upp öðrum án annara tilhjálpar, þann dreng segja menn lagtækann, þetta er sá fyrsti skaði sem Björn hefir orðið fyrir. Björn er meðalmaður að hæð, dökkhærður, rétthærður, toginleitur fremur þeldökkur á yfirlit, herðaþrekinn, miðmjór og að öllu hinu vaklegasti, málsnjall og hraðmæltur svo fáir mola hann máli enda er hann flestum mönnum færari að verja hvort hann hefir rétt mál eða ei, til að verja, gjöra það gáfur hans og fjör.

Þessi greinargóða lýsing á Birni átti við rök að styðjast. Bóndinn Björn Halldórsson átti eftir að sýna og sanna síðar á ævinni hvað í honum bjó. Um það leyti sem Björn kvaddi Loðmundarfjörð mörgum árum seinna kom til fjarðarins sá maður sem átti eftir að taka við leiðtogahlutverki hans. Það var Baldvin Jóhannesson.

———-

(Höfundur myndar af Svavari: Trausti Hafliðason)

1,394