trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 25/06/2017

Sumarlesning Herðubreiðar (XIII): Kátt hann brennur

Eftir Benedikt Jóhannesson

„Veistu að gallinn við þig er hvað þú ert ljóngreindur en fjári fráhrindandi.“

Úlfurinn hallaði sér fram og horfði á refinn. Þeir sátu saman við borð, úlfurinn með kaffibolla, refurinn með bjórkrús. Úlfinum fannst þetta greinilega vel orðað hjá sér. Hann reyndi ekki einu sinni að fela sjálfsánægjubrosið. Þeir voru engir vinir en höfðu þekkst lengi. Í skóginum þekktu allir úlfinn og refinn.

„Hvað græði ég á því að vera aðlaðandi?“ svaraði skolli. „Ég næ því fram sem ég vil og það er mér nóg.“ Hann bjó lengi í öðrum skógi, hinum megin við Miklavatn, og þess vegna talaði hann með annarlegum hreim. Samt ekki eins og menntað dýr heldur hálfkjánalega þannig að auðvelt var að herma eftir honum. Og mörg dýrin gerðu það þegar hann heyrði ekki til.

Nú voru þeir aðaldýrin í skóginum. Þess vegna urðu þeir að umgangast þó að þeir hefðu fremur litlar mætur hvor á öðrum. Þegar þeir hittust til að tala saman truflaði þá enginn. Hin dýrin héldu sig víðs fjarri þegar þeir vildu vera einir. Reynitrén og fururnar reyndu hins vegar að teygja sig eins og þau gátu til þess að sjá þá. Sóleyjarnar og fíflarnir sneru blómunum að þeim til þess að heyra hvert einasta orð.

„Ég þekki það að vera fyrirlitinn,“ sagði úlfurinn og deplaði augunum hratt. Hann var allt of virðulegur til þess að fella tár yfir sínum sorgum. Fyrir nokkrum árum þurfti hann að flytja út á sléttuna vegna leiðindamáls, máls sem hann vildi ekki rifja upp. Allt tómur misskilningur vegna atviks sem var blásið út af allskyns hælbítum og sníkjudýrum. „Fyrir úlf er ekkert jafnmikilvægt og orðsporið. Orðsporið og virðingin.“

Refurinn glotti lymskulega. Honum var sama hvað hin dýrin sögðu um hann. Hann var klókari en þau öll. Þeir sem höfðu reynt að stoppa hann fengu að kynnast því hvar Davíð keypti ölið. Í dýrahlaupinu stóðst enginn honum snúning. Hlaupið byrjaði í hlíðarfætinum og endaði á fjallsbrúninni. Hann vann alltaf þegar hann var með.

„Ég fæ alla þá aðdáun sem ég vil,“ sagði hann slóttugur á svip. Úlfurinn vissi hvað hann átti við. Þegar refurinn fór út á kvöldin gættu allir virðingarverðir fjölskyldufeður þess að læsa dætur sínar inni. Annars gat farið illa. Rebbi fékk sér annan sopa úr krúsinni.

„Til þess eru freistingarnar að falla fyrir þeim.“ Refurinn hló hátt.

Úlfurinn, sem var nokkrum árum eldri, vildi segja eitthvað gáfulegt: „Eftir því sem árin líða hættir úlfurinn að forðast freistingarnar. Freistingarnar forðast úlfinn.“ Hann var búinn að bíða mörg ár eftir að geta sagt þetta. Hann þagði lengi svo að orðin gætu hangið áfram í loftinu. Þá horfði hann á tóma kolluna með hneykslunarsvip. Hann hafði dottið í ámuna sem ungur úlfur og varð að halda sér frá veigunum síðan. Nú kom honum í hug að spyrja:

„Hefur þú heyrt að margir yrðlingar séu farnir að prófa þessa berserkjasveppi sem allir tala um núna? Mér er sagt að þeir séu tískuvíman.“

Refurinn glotti lævíslega og lygndi aftur augunum. Nú héldu allar plönturnar niðri í sér andanum því að þær vildu gjarnan heyra svarið. Kannski fengju biðukollurnar safaríka sögu til þess að dreifa. Hann strauk hökuna áður en hann tók til máls:

„Mér er sagt,“ sagði hann með sínum mállýskuhreim, „að broddgölturinn, minn gamli aðstoðargöltur og gallagripur, mér er sagt að hann velti sér upp úr berserkjasveppum á hverjum degi.“ Hann fitjaði upp á trýnið og hélt áfram: „Ekki veit ég hvaða geltir eru í hvaða vímu. Sumir segja að sveppaætur þekkist á augunum. Svo geta þær víst vakað endalaust án þess að hvíla sig. En ég myndi ekki þekkja berserkjasveppabreiðu frá mykjuhaug þó að ég vaknaði í henni. Ölið er nóg fyrir mig.“

Sóleyjarnar sem höfðu staðið á öndinni hristu blómið. Þetta var ekkert bitastætt.

Nú fóru félagarnir að ræða sín mál. Allt sem þeir komu nálægt varð að gulli. Öðrum fannst heillavænlegt að vera nálægt þeim, eitthvað hlyti að græðast á því. Krákan sem flutti fréttir um gervallan skóginn spurði þá alltaf álits á öllu því sem gerðist í skóginum. Refurinn var kenjóttur og svaraði ekki nema vel lægi á honum, en úlfurinn setti sig aldrei úr færi að hafa skoðun á stóru sem smáu.

Spörfuglunum fannst samt meira spennandi að fylgjast með refnum. Alltaf var hægt að smjatta á sögum af honum. Hann og broddgölturinn höfðu oft farið í kappdrykkju sem endaði ævinlega með því að sá síðarnefndi lá á broddunum. Allir hlógu að honum en gættu þess að koma ekki nálægt honum til þess að stinga sig ekki.

En í þetta sinn sagði úlfurinn frá því sem allir í skóginum áttu eftir að tala um upp frá þessu. Hann ætlaði að kveikja mikið bál í Fagrarjóðri, eld sem myndi nema við himin og dýrin hefðu aldrei séð annað eins. „Ég vil að öll dýrin í skóginum komi og horfi á bálið og verði frá sér numin af undrun og aðdáun. Daginn eftir ætla ég að standa við lindina og öll dýrin koma og þakka mér fyrir og faðma mig að sér.“

Það rumdi í refnum. Honum fannst þetta hégómlegt, en samt skildi hann að þetta gat orðið til þess að dýrin yrðu ennþá hrifnari af úlfinum og gæfu honum enn meira fóður en áður. Hann spurði undirförull:

„Heldurðu að Stóribjörn leyfi þetta?“ Stóribjörn var gamall vinur hans og drykkjufélagi. Úlfurinn myndi ekkert gera án hans leyfis.
Nú spilaði úlfurinn út trompinu: „Ég hef rætt þetta mikið við Stórabjörn. Við tölum nefnilega oft saman og erum sammála um að þetta sé einmitt það sem dýrin í skóginum þurfi núna. Þegar bálið brennur bjartast mun Stóribjörn ganga um brekkuna hjá Fagrarjóðri. Þá getur hann baðað sig í bjarmanum af logunum einn og sér. Ég get unnt honum þess að njóta birtunnar frá mínum eldi.“

Refurinn vissi að þetta myndi ganga eftir. Stóribjörn steig aldrei á tærnar á þeim sem komu til hans og báðu leyfis. Hinir sem héldu að eitthvað væri leyft af því að það var ekki bannað þurftu hins vegar ekki að kemba hærurnar. Rebbi kinkaði kolli. Svo sagði hann, eins og sem bakþanka:

„Hvað með kamelljónið? Þú veist að það vekur ekki vinsældir að vera allt of nálægt því, síst af öllu hjá Stórabirni.“ Refurinn vissi að hann snerti viðkvæman blett því kamelljónið var að nafninu til æðsta dýrið í skóginum.

„Kamelljónið, segir þú. Þú veist að ég fyrirlít það, en fyrirgefning er næsti bær við fyrirlitningu. Ég nota mér kamelljónið ef ég þarf að eiga við úlfa af sléttunni. Þeir vita ekkert um fortíð þessarar óeðlu og halda að hún njóti virðingar og vinsælda hjá okkur hér í skóginum. Ef ég get notið góðs af því að umgangast skriðdýr geri ég það. Þegar kamelljónið er búið að vera, hver veit nema tími úlfsins renni upp?“ Hann horfði í kringum sig til þess að vera viss um að allar plönturnar hefðu heyrt hvað hann sagði.

Refurinn spangólaði og gekk í burtu.

Þeir hittust næst í skógarjaðrinum. Úlfurinn var niðurlútur og þó að hann sæi refinn smjúga dældirnar ætlaði hann að komast hjá því að hitta hann og setti undir sig hausinn. Refurinn steig í veg fyrir hann og bauð góðan dag. Úlfurinn varð að taka undir. Nú var hann ekki lengur sama glæsilega fyrirdýrið eins og þegar þeir hittust síðast. Á feldinum voru brunablettir og klærnar glönsuðu ekki lengur.

„Long time, no see,“ sagði refurinn. „Þú þorir að vera einn á gangi í skóginum?“ Hann naut þess að snúa hnífnum í sárinu.

„Það er enginn reiður við mig,“ sagði úlfurinn. „Allir vita að ég gat ekkert gert. Hverju lofaði ég? Stærsta báli sem nokkur hefði séð, eldi sem væri svo stór að enginn kæmist yfir nema fuglinn fljúgandi. Og stóð ég ekki við mitt?“ Hann klökknaði yfir því hve góður hann hefði verið.

Hann hélt áfram: „Ég mátti vita að laun heimsins væru vanþakklæti. Hverjir búa í þessum skógi nema skynlausar skepnur?“
Refurinn vorkenndi næstum þessum gamla fjandvini sínum. Hann gat heldur ekki látið eins og ekkert væri að hjá sér. Skottið á honum hafði fest í gildru og hann þurfti að naga það af. Hann var orðinn eldri, ekki lengur eins og virðulegur gamall bragðarefur sem allar læður girntust, heldur aðeins gamall melrakki sem var ekki einu sinni með skott til að hlaupa með milli lappanna.

Úlfurinn var þrátt fyrir allt feginn að hafa einhvern að tala við. Hann og gamla úlfynjan höfðu haldið sig heima í greninu eftir bálið mikla, töluðu aldrei við neinn og hlustuðu ekki á krákurnar þegar þær báru fréttir af því sem gerðist. Nú lét hann móðan mása: „Dýrin fengu það sem þau vildu. Nefndu mér eitt dýr sem ekki hlóð bálköstinn fyrir mig. Teldu upp eitt einasta dýr sem sagði að þetta væri óráð.“

Hann tók sér örstutt hlé. „Nei, grunaði mig ekki. Þú getur ekkert dýr nefnt vegna þess að þau tóku öll þátt í veislunni.“ Hann kyngdi kekkinum sem hann var með í hálsinum. „Þegar sagan verður skrifuð og sannaðu til, hún verður skrifuð, þá kemur sannleikurinn í ljós. Skógurinn verður þekktur fyrir að hvergi hafi logarnir risið jafnhátt og hér. Hvergi. Af plöntunum sem eftir lifa munu dýr búa til nýjan og betri skóg með stærri og fallegri rjóður og …“ Hann komst ekki lengra því að hann viknaði við ræðu sína.

Eftir þessa löngu tölu leit hann á refinn og tók þá fyrst eftir því hve illa var komið fyrir honum. Þetta varð til þess að úlfinum leið aðeins betur. Hann varð að spyrja: „En hvað hefur komið fyrir þig, gamli minn? Þú ert ekki lengur sami silfurrefurinn.“

Refurinn varð að rekja hvernig hann hafði lent í ýmsum hremmingum. Eftir bálið mikla var öllum reglum breytt og þegar hann mætti í skógarhlaupið til þess að hirða sína árlegu medalíu uppgötvaði hann að nú var ekki lengur hlaupið upp brekkuna heldur niður. Það kunni hann ekki og kom langsíðastur í mark.

Úlfurinn var ekki búinn: „Svona getur lán heimsins verið fallvalt. En mér er sama þó að enginn tali við okkur. Sannleikurinn kemur í ljós á endanum. Ef okkur endist ekki ævin til þess að skrifa söguna rétt munu litlu úlfarnir sjá um að segja frá öllu eins og það átti að vera. Þá verður talað fallega um okkur og við njótum aftur virðingar og vinsælda.“ Brosviprur mynduðust í munnvikunum og augun ljómuðu, rétt eins og hann tryði því sjálfur sem hann sagði.

Refurinn átti þrátt fyrir allt sín greni víða um skóginn. Hann hafði haft vit á því að hafa marga útganga og slapp auðveldlega úr bálinu mikla. Þeir félagarnir voru ekki lengur þeir sem allir í skóginum óttuðust, en hann var þó ekki dauður úr öllum æðum enn. Þess vegna fannst honum hann geta sagt eitthvað fallegt við þennan úlf sem tvisvar hafði verið eitthvað annað og meira en venjuleg skepna. Eða var hann kannski aldrei neitt annað? Hann lagði framloppuna á sviðinn feldinn á öxl úlfsins og sagði: „Veistu hver var gallinn við þig?“ Hann beið ekki eftir svari:

„Þú komst alltaf svo andskoti vel fyrir.“ Úlfurinn brosti út að eyrum og refurinn bætti við: „Og svo ertu svo nautheimskur.“

(Úr smásagnasafninu Kattarglottið og fleiri sögur (Heimur, 2011))

1,649