trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 27/07/2015

Sumarlesning Herðubreiðar (XII): Skáldin eru augu þjóðarinnar. Þau leggja mælispjald á flögðin og afhjúpa þau

Skáldin eru augu þjóðarinnar. Í skáldskapnum, og einvörðungu þar, speglast hugur hennar og örlög: allt sem liggur milli dýpstu sælu og sorgarinnar þungu.Kristinn E. Andrésson

Þegar manni er ofrausn að skýra atburðina stíga æfintýrin sem við heyrðum í bernsku upp úr djúpi minninganna og allt lýsist fyrir augum. Persónurnar þaðan koma lifandi fram á sjónarsviðið eða hendingar löngu gleymdar fara að hljóma fyrir eyrum. Þannig fór fyrir mér þegar ég ætlaði að leiða hugsun að formálsorðum að kvæðasafni því sem hér kemur á prent. Í stað þess að komast að efninu og rekja tildrög kvæðanna og útgáfu þeirra var eins og mér hyrfi stund og staður og ég væri farinn að temja mér ósjálfráða skrift, því að á pappírinn sóttu gömul vísnastef:

Í stafni situr Höggvinhæla;

fullur skór með blóð;

eða:

Gekk ég upp á gullskærum móður minnar.

Og ég var eins og staddur í röst ólíkra aðstreymandi hugsana og mynda úr sögum og sögnum.

En til þess að festa mig við eitthvað, svo að ég verði ekki ásakaður um surrealisma: að láta undirvitund og draumóra taka af mér öll ráð, fór ég að rifja upp æfintýrin þaðan sem hendingarnar að framan eru upp runnar og sjá tengsl þeirra við nútímann: það ljós er frá þeim stafar. Allir kunna þessi æfintýri, af Mjaðveigu Mánadóttur og Tístram og Ísól björtu, úr stjúpusögum sem svo margt er til af.

Uppistaðan er þessi:

Fyrr en þjóðin veit af hefur setzt að ríkjum í landinu með kónginum flagðkvendi í drottningar stað og tælir út úr borginni og fellir í gryfju hina ungu kóngsdóttur, en í skemmu hennar eða kastala setzt dóttir flagðsins er hafði stakkaskipti við kóngsdóttur, og allt skiptir litum með þjóðinni. Í æfintýri Mjaðveigar fer fagur kóngsson sem kominn er til að biðja hennar þar fram hjá sem hún leynist í útlegð sinni, og hún verður hrædd og missir af sér annan gullskóinn, og finnur kóngsson hann og flytur með sér í kóngsgarð og heitir því að eiga þá stúlku sem þessi skór var af. Útlenda flagðið sem situr að ríkjum í landinu segir kóngssyni að dóttir sín eigi gullskóinn, en til að þröngva honum á fót henni varð hún að höggva af henni bæði tær og hæl, og því er skór hennar fullur með blóð, og kóngsson fær sem brúði í skip með sér Höggvinhælu í stað Mjaðveigar:

Í stafni situr Höggvinhæla,

fullur skór með blóð;

Fuglar á leið til kóngssonar komu upp um Höggvinhælu. Tekur hann mælispjald og leggur á herðar henni og varð hún þá að stórvaxinni og ljótri tröllkonu, og að því búnu heggur hann hana og saltar hana niður, en ketið af henni fyllti tólf tunnur. En Mjaðveig fær aftur gullskóinn sinn, frelsi sitt, og kóngssoninn.

Í æfintýrinu af Tístram og Ísól björtu á kóngsdóttir gullskæri sem hún hefur fengið í tannfé frá móður sinni og með þeim bjargar hún sér upp úr gryfjunni sem flagðkonan felldi hana í, eins og segir í viðlaginu:

Gekk ég upp á gullskærum móður minnar.

Hvaða reynsla með þjóðinni liggur að baki þessum æfintýrum og hví er verið að rekja þau hér? Því get ég ekki svarað með öðru en þau komu upp í huga mér með þessi stef sín eins og bjartan kyndil, og ráði þau hver sem kann. En spyrja má: hvenær verða til æfintýri og hversvegna? Verða þau ekki til þegar atburðirnir sem þjóðin lifir eru ýmist óbærilegir eða svo fjarstæðukenndir og ótrúlegir að hún getur ekki skýrt þá fyrir sér nema sem tröllskap eða álög? Og í öðru lagi: með skáldskapnum, í æfintýrunum, í ímyndun sinni, sviptir hún af þeim álagahamnum, kemur upp um tröllskapinn og bjargar lífi sínu. Ljóðastefin sjálf verða gullskærin hennar.

—–

Eitthvað sérílagi djúpt og leyndardómsfullt er í íslenzkum kveðskap í tengslum hans við ættjörðina land og þjóð. Vér erum eyland skáldskaparins og trúum á hann.

Frá því á dögum Egils hafa ljóðin verið lífgjafi Íslendinga. Hvenær sem einstaklingar, eða þjóðin í heild, komst í hann krappann var heitið á skáldskaparguðinn og tekið til við að yrkja. Þegar Egill var genginn í greipar harðasta óvini sínum barg hann lífi sínu með Höfuðlausn. Þá er hann seinna missti sonu sína og var lagztur fyrir af harmi og heift fékk dóttir hans hann til að yrkja eftir þá Sonatorrek og karl hjarnaði við. Þetta er forspjallið að íslandssögunni, og hún er öll um hið sama far. Í árdaga gengu skáldin fyrir í orustum. Þau gengu fyrir þjóðinni sjálfri í lífsstríði aldanna: kváðu hungrið frá dyrum, hafísinn frá landi. Þau báru á dvergaskip sín kröm heilla alda, og sökktu á sextugt djúp. Óvinum sínum ristu þau níðrúnir á stengur, og kváðu jafnvel niður fjandann ef svo bar undir. Þegar Bólu-Hjálmari sveið miskunnarleysi guðs við þjóðina heyrðist ákall hans fullt trúnaðartrausts á almætti ljóðsins: skal mitt hróp af heitum dreyra himininn rjúfa kringum þig. Í Bragarbót sinni til Vestur-Íslendinga hefur Matthías af dýpsta innsæi lýst lífsgjafarafli ljóðs og máls í þjóðarsögu Íslendinga: mál er fyllir svimandi sælu sál og æð, þótt hjartanu blæði. Svo ofarlega er honum skáldskapurinn í huga er hann yrkir um tunguna að mál og ljóð verður í rauninni sama hugtak í kvæðinu:

Það hefur voðaþungar tíðir

þjóðinni verið guðleg móðir,

hennar brjóst við hungri og þorsta,

hjartaskjól þegar burt var sólin,

hennar ljós í lágu hreysi,

langra kvelda jólaeldur.

En aldrei í sögunni er þó íslenzku skáldunum annar eins máttur gefinn og í frelsisbaráttu þjóðarinnar á öldinni sem leið. Það er ekki fyrr sem ljóðin fá hinn djúpa og dulúðuga hljóm af landi, þjóð og sögu, ekki heldur fyrr sem hin raunverulegu ættjarðarljóð koma til sögu, eftir að heiðar og útsær hafa um aldir kveðið hróðrarþátt sinn í eyru kynslóðanna og sögulegur skilningur vaknar erlendis og heima. Við nefnum eitt nafn: Jónas Hallgrímsson, og Ísland kveður við af söng um frelsi og gróandi líf, og hlýtt vorregn fellur á kalda og þurra jörð, og vængir þjóðarinnar sem felldir voru við foldu taka til flugs á ný. Hvert skáldið af öðru ryður sína brautina til áfangans þar sem við stöndum.

Í skáldskapnum horfist þjóðin í augu við sjálfa sig.

Hvar standa þá Íslendingar á þessari stundu með frelsi sitt og skáld sín? Hver er máttur ljóðsins á Íslandi í dag?

Ljóðakverið hér hefur sögu að segja, og harla óvægilega, af fögnuði og harmi, af firnum og ódæmum sem hent hafa þjóðina síðustu árin, sögu er varðar líf hennar ókomna daga, en reynt er af forystumönnum að hylma yfir og dylja fyrir þjóðinni og gert var sem endranær á þjóðhátíðardaginn í sumar á tíu ára afmæli lýðveldisins; sögu af fordæðuverkum sem saklaust fólk ekki trúir, af örlögum svo fjarstæðukenndum að ekki verða skynjuð á rökrænan hátt, ekki nema sem tröllskapur, ekki framin af mennskum mönnum, og einungis hrundið með fjölkynngi, eins og álögum í æfintýri.

Reis ei sól fyrr en runnin var. Þjóðhátíðarkvæðin 1944 voru ekki fyrr hljóðnuð á Þingvelli, ekki hinar gullvægu hendingar Huldu,

svo aldrei framar Íslands byggð

sé öðrum þjóðum háð,

en gengið var til samninga við Bandaríkin um að ofurselja hið nýfengna fullveldi, selja hugsjónina um frelsið sem loks var orðin að veruleika eftir sjö hundruð sumur, og landið undan fótum sér þar sem við höfðum búið ellefu aldir.

Í stafni situr Höggvinhæla,

fullur skór með blóð;

Ég rek ekki þessi blóðugu ár. Skáldin gera það:

Ó til hvers var unnið, sótt í lífi og ljóði

hinn langa veg gegn biturri neyð

til vorlands sólgræns friðar og frjórrar gleði?

Frammi er haust, uppskeran borin á glóð.

Þið sofið, svo fast hefur blekkingin gullna bitið.

Það bjarmar á hjálmaða menn undir hverri grein

með andlit svikarans flátt fölt og þrútið,

ég finn koss hans brenna mig sekt og smán.

Keflavíkursamningurinn 1946, atlantshafssamningurinn 1949, beiðnin um erlenda hersetu landsins 1951. Þessar atlögur hver af annarri gegn sjálfstæði þjóðarinnar eru sem sverðstungur í hjarta hverjum þeim sem finnur til sem Íslendingur. Þessir kvalatímar eru þúsund ár Íslands slegin og hvesst í eina ör sem skotið er þjóðinni í hjartastað. Þeir rifja upp öll sár, allar vonir, alla drauma, alla harma, alla sekt, alla smán. Ljóðin eru hér spegill sem þjóðinni er hollt að líta í.

Þeim verður ekki láð sem að þessum verkum stóðu, og eru ef til vill sjálfir farnir að sjá hvert þau leiða, þó að þeir vilji hindra að þau komi í dagsljósið, vilji umfram allt að þau gleymist og mosi vaxi yfir þau, og ef unnt er að stinga þjóðinni svefnþorn og halda augum hennar blinduðum, svo að fjarlægja megi þann dag er þeir lesa úr þeim þá dómsfellingu sem þeir hafa unnið til og vita að verður eigi umflúin. En hversu lengi verður mönnum talin trú um að þeir séu frjálsir með erlendan her í túninu hjá sér og í fjallinu fyrir ofan bæinn? Sjá menn ekki Höggvinhælu? Sjá þeir ekki að Mjaðveig kóngsdóttir hefur týnt öðrum gullskónum sínum?

Skáldin sjá það, þau sem hér eru og hafa fengið í arf draum Íslands um frelsi og hina brennandi ást á landinu, og trú á það, og þora að horfast í augu við sannleikann; þau er tekið hafa við kyndli Fjölnismanna, ættjarðarskáldanna á öldinni sem leið. Þau brýna þjóðina og eggja að horfast í augu við sjálfa sig, við örlög sín, við hugrekki og manndóm, hrista af sér svefninn og tröllskapinn, leggja mælispjald á flögðin. Þau bregðast við sem beztu skáld á Íslandi hafa einatt gert í þyngstu þjóðar raun. Þau vekja henni hug og ást í brjósti. Þau eru rödd hrópandans; þau eru samvizka hennar í dag. Sjálft þjóðarhjartað heyrist í þessum ljóðum eins og það hefur slegið á öllum öldum hvenær sem Ísland hefur verið í lífsháska statt.

—–

Kvæðin í þessu safni eru eftir rúm tuttugu ljóðskáld, öll nema tvö inngangskvæði ort á fyrsta áratugi lýðveldisins. Þau eru eftir skáld á öllum aldri, flest ljóðskáldin okkar. Þau eru margbreytileg að formi, ýmist rímuð eða órímuð, bundin í stuðla eða ekki. Efnið er látið ráða: eingöngu tekin ljóð er varða ættjörðina land og þjóð, með það fyrir augum að gefa sýnishorn af því sem skáldin hafa lagt fram í þjóðfrelsisbaráttu síðasta áratugs, í baráttu gegn afsali landsréttinda, gegn hernámi landsins og hersetu, gegn erlendum yfirgangi og innlendri þýlund. Flest af þessum kvæðum hafa birzt áður í bókum, blöðum eða tímaritum, en allmörg eru ný og hafa ekki áður komið á prent. Vafalaust hefur margt fleira verið ort í þessum anda, af kvæðum sem ókunnugt er um, og hér er einungis úrval af þeim sem prentuð hafa verið. En varla fer hjá því að bókin gefi allgóða hugmynd um ættjarðarljóð þessa tímabils.

—–

En hvert er þá afl þessara ljóða? Eru þau ekki þjóðinni skýr vitnisburður um hvar hún er stödd og hvað í húfi er? Trúir hún ekki augum skáldanna? Finnur hún ekki undirhljóm sögunnar, þyt frelsisdrauma sinna í þessum kvæðum? Getur það hugsazt að hún skynji ekki það ákall sannleikans er í þeim felst, finni ekki í þeim sársaukann og ástina? Getur annað verið en hún kenni til hjartans er hún les þessi ljóð? Þekkir hún ekki arf móður sinnar, gullskærin góðu?

Vér erum eyland skáldskaparins og trúum á hann. Þessi ljóð munu berast með vorvindunum út um byggðir og annes Íslands og vekja þjóðina af svefni til lífs og glæða henni þor í brjósti, og hugsanir þeirra munu fá sterka vængi.

Og eitt sinn muntu standa á víðum velli

um vor og horfa inn í ljómann bjarta

sem rís í bylgjum yfir fossi og felli

–  en fortíðin mun gráta í þínu hjarta

og lágar stunur líða af vörum þér:

ó lífsins vættir – fyrirgefið mér.

Mál og menning leggur þetta ljóðakver í hendur þjóðarinnar sem dýrmætustu gjöfina sem félagið gat fundið á tíu ára afmæli lýðveldisins, og biður hana vel að njóta.

Kr. E. A. [Kristinn E. Andrésson]

Formálsorð, Svo frjáls vertu móðir – Nokkur ættjarðarljóð 1944-1954 (Mál og menning 1954)

1,397