trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 04/06/2017

Sumarlesning Herðubreiðar (XII): Ævisaga Kristjáns Jónssonar Fjallaskálds í fjórum línum

Þegar Kristján Jónsson Fjallaskáld andaðist 1869 var Jón Ólafsson – síðar ritstjóri og alþingismaður – nítján vetra skólapiltur. Hann keypti þó umsvifalaust af erfingjunum útgáfuréttinn að öllum verkum skáldsins.Kristján Jónsson

Þeir Kristján höfðu kynnzt þegar Jón var nýkominn til Reykjavíkur þrettán ára sumarið 1863. Jón var fæddur og uppalinn á Kolfreyjustað í Fáskrúðsfirði.

Kristján ferðaðist þetta sama vor til höfuðstaðarins í fylgd Jóns Sigurðssonar frá Gautlöndum, sem kom þá til þings og vonaðist til að fá efnismanninum Kristjáni Jónssyni starf við kennslu og jafnvel nokkurn styrk til frekari menntunar.

Þar gekk á ýmsu og er efni til annarrar sögu, en þeir Jón Ólafsson skólapiltur urðu semsagt vinir, þótt aldursmunurinn væri átta ár, annar unglingur en hinn fulltíða.

Nákvæmari lýsing væri raunar, að Jón varð aðdáandi skáldsins Kristjáns og tók brátt að yrkja undir áhrifum hans. Og þess vegna keypti hann útgáfuréttinn að verkum skáldsins að því látnu.

Jón undirbjó útgáfu verka Kristjáns skömmu síðar, en hún tafðist af mjög praktískum ástæðum. Jón neyddist semsagt til þess að flýja land til Noregs vegna síns eigin kveðskapar, þar sem hann hafði farið þvílíkum orðum um danska yfirvaldið, að varðaði við lög og fangelsisvist blasti við. En það er líka önnur saga.

Þegar Jón Ólafsson sneri aftur úr útlegðinni gaf hann út fyrsta prentaða ljóðasafn Kristjáns Fjallaskálds sumarið 1872. Því fylgdi alllangur formáli eða ritgerð, og niðurlag hennar birtist hér.

Það fjallar einkum um alkóhólisma og þunglyndi, en er skrifað af slíku næmi að vekja mætti athygli í okkar samtíma. Þegar Jón Ólafsson skrifaði þetta hafði nefnilega hvorugur sjúkdómurinn verið uppgötvaður sem viðfangsefni. En þeir voru þarna sannarlega og ekki síður en nú.

Og það var ekki einu sinni búið að finna upp sálfræðina.

Ekki er síður ástæða til að vekja athygli á því, að þetta skrifar Jón Ólafsson um tvítugt:

———-

Framan af æsku sinni var Kristján reglumaður og laus við drykkjuskap og mun svo hafa verið til þess er hann var 17 eða 18 ára. En því er miður að óminniselfur Bakkusar, þessi svalandi Leþe-lind, er alltof margir meðal íslenzkra skálda hafa reynt að drekkja sorgum sínum í, virðist spretta upp helzt til nærri rótunum á Parnassus.

Og Kristján hafði, eigi síður en aðrir, nógar sorgir, sannar og ímyndaðar, til að drekkja í þessum brunni. Stúlka brá heiti við hann, er hann unni hugástum, og þótt slíkt sé nú gömul saga í heimi þessum, þá er hún þó jafnan ný fyrir þann er það reynir, en skapferli manna misjafnt, og ólíkt hver áhrif sorgin hefir á það hjá mönnum.

En Kristján var maður þunglyndur í skapi og tók sér þetta nærri; og bæði gremjan yfir þessu og sorgin yfir þeim örðugleikum, sem á því voru fyrir hann, að afla sér menntunar og koma sér fram í heiminum, – þeim örðugleikum, er hann örvænti oft um að fá yfirstigið, – hvort tveggja þetta mun hafa fallið honum þyngra en svo, að hann fengi það af borið.

Þar við bættist og, að hann á ungum aldri hafði drukkið inn ýmsar þær skoðanir í trúarefnum af sveitungum sínum, er lagt hafa grundvöllinn til hinnar mögnuðu efagirni hans, svo að hann efaði það allt aðra stundina, sem hann trúði hina; en siðgóður var Kristján í eðli sínu og vildi aldrei öðrum rangt gera. En efagirni vakti honum sturlun og þunglyndi; og þeir sem þunglyndir eru í verunni, eins og Kristján var, þeir geta ekki án sorga lifað; því að þá heimurinn færir þeim ekki sorgarefni, þá búa þeir sér það til sjálfir. Það er nú þeirra eðli.

Slíkir menn geta ekki verið sælir, því að hvort sem lífið fer með þá vel eða illa, þá er það þeim samt byrði. Og þegar sorgin sigraði máttinn, sem átti að bera hana, þá var það skiljanlegt, að Kristján leitaði þar svölunar, sem hann eftir sinni skoðun fann hana. Og hver er sá er fyrstur vilji kasta steini á veikan bróður sinn, er örmagnast undir byrðinni, þó hann reyni heldur að svala sér í mýrinni, sem næst honum er, en í hinni skæru uppsprettu, sem er fjær honum og hann treystist ekki að ná til? Davíð konungur drakk líka úr hófsporinu.

Þá er Kristján heitinn kom fyrst suður, var hann þegar orðinn meiri drykkjumaður en svo, að mikil von væri til, að sú ástríða mundi læknazt. Það fann hann líka vel og vissi sjálfur, og mun það hafa aukið þunglyndi hans eigi lítið. Hann var og orðinn heilsutæpur, og ágerðist það æ meir og meir. –

Jón Ólafsson

Jón Ólafsson

Það kann nú mörgum að þykja, að Kristján hafi litlar áhyggjur þurft að hafa af lífi sínu (og slíkt hefi ég heyrt marga segja), þar sem svo margir hafi styrkt hann og borið á höndum sér hér syðra. En bæði er þessu að nokkru leyti svarað með því, er ég sagði áður um eðli þunglyndra manna, og svo ber þess að gæta, að þess leiðis féstyrkur frá einstökum mönnum, eins og þó einn gæfi honum tíma og tíma að éta, annar 10 eða 20 ríkisdali, oft með tilhlýðilegum siðferðislegum fyrirlestrum, – til þess þykjast margir með velgerð kaupa sér eins konar rétt til að pína menn og kvelja, pynda og plága með áminningum og fortölum um það sem hver maður veit eins vel og þeir sjálfir, – þess leiðis styrkur er fremur til að gera þann hugsáran af þunglyndi, er það þarf að þiggja, en til þess að lyfta huga hans og láta hann finna sig frjálsan og óháðan. […]

Þó að Kristján væri þunglyndur maður, einkum er hann var einn saman, var hann þó jafnan glaður og skemmtilegur í viðmóti og hinn indælasti í umgengni. En væri hann ölvaður, einkum ef það var í meira lagi, og helzt eftir á, var hann daprari í huga. Það er kunnugt, að flestir eru daufir og sljóir eftir á, er þeir hafa verið ölvaðir; Kristján var þá og ætíð dauðveikur; en aldrei var honum léttara um að yrkja en þá; mörg hin beztu af kvæðum hans eru svo kveðin. Sjaldnar var það, að hann væri vel upplagður til að yrkja á meðan hann var ölvaður.

Aldrei var hann svo sorgbitinn, að eigi hefði hann spaugsyrði á reiðum höndum, er á hann var yrt; því að eins og hann einmana skoðaði heiminn og lífið frá dimmustu hlið, eins fljótur var hann þá að snúa við og skoða sorg alla sem ský og reyk, er einskis væri vert annars en að feykja á burt, þá gleðin skein við; því að hann bar aldrei lengi harm sinn í einu.

Yfir höfuð má einkenna lífsskoðun Kristjáns með tveimur línum á hvorri hlið á legsteini hans. Ef Íslendingar kunna nokkurn tíma svo sóma sinn, að setja honum legstein, þá vildi ég rita hans eigin orð þar á, öðrum megin:

„Lífið allt er blóðrás og logandi und,
sem læknast ekki fyrr en á aldurtilastund“;

en hinu megin:

„Vort æskulíf er leikur,
sem líður tra-la-la!“

Þetta er lífsskoðun hans, þetta er ævisaga hans í fjórum línum.

1,678