trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 06/06/2016

Sumarlesning Herðubreiðar (XI): Dagur gjafmildinnar

Svo virðist sem gjafmildin eigi misjafnlega sterk ítök í okkur og sé breytileg þannig að talsverður munur getur verið á löngun manna til að útdeila gjöfum eftir árstíðum og dögum ellegar eftir því hvernig stendur á tungli, nema gjafmildin breytist eftir innbyrðis afstöðu stjarnanna.Torfi Guðbrandsson

Sjálfsagt er búið að kryfja það rannsóknarefni til mergjar og ætla ég því ekki að velta frekar vöngum yfir því, en láta nægja að lýsa viðburðum eins dags í lífi mínu, sem segja mátti um að gjafmildi manna léki því sem næst lausum hala.

Það var 6. ágúst 1945. Ég stundaði um þær mundir málningarvinnu á Hólmavík. Í nágrenninu bjuggu ung hjón sem ég hafði haft ánægju af að kynnast. En þau áttu við heilsuleysi að stríða og þurftu að komast suður til lækninga. Þar sem ég vissi að þau voru fátæk datt mér í hug að styrkja þau til suðurfararinnar. Þessi gjafalöngun greip mig svo sterkum tökum að ég varð ekki í rónni fyrr en ég hafði gert mér ferð til þeirra og afhent þeim 500 krónur í peningum. Þau voru mér þakklát fyrir þennan greiða sem vissulega kom sér vel og mér fannst ég verða maður að meiri og var sáttur við sjálfan mig.

Þegar ég kom aftur til Hólmavíkur um kvöldið var tekið að bregða birtu. Á leið minni um aðalgötu þorpsins snaraðist skyndilega ókunnur maður í veg fyrir mig og bauð gott kvöld. Ég tók undir kveðju mannsins og virti andlit hans fyrir mér í daufu skini frá götuljóskeri sem við stóðum hjá en kom honum ekki fyrir mig.

Þetta var stór maður og myndarlegur. Hann nefndi nafn sitt og vissi ég þá að þetta var útgerðarmaður og forstjóri í Reykjavík. Eftir nokkur orðaskipti sagði hann um leið og hann horfði fast á mig:

„Þú ert skáld. Ég sé það í augunum á þér.“

Ég aftók það með öllu. En hann lét sig ekki.

„Hefur ekkert komið út á prenti eftir þig?“

„Nei, ekkert nema ein lítil saga í Eimreiðinni.“

„Og áttu ekki eitthvað í handriti?“

„Það eru bara fáeinar smásögur.“

„Vissi ég ekki,“ sagði hann hróðugur og bætti snögglega við:

„Þiggðu af mér 200 krónur.“

Ég færðist undan og maldaði í móinn. En hann stakk umsvifalaust upprúlluðum seðlum í lófa mér eins og hann væri að gefa barni brjóstsykur. Ég stundi upp einhverjum þakkarorðum, en þá sagði hann snöggt og bandaði frá sér með hendinni:

„Þakkaðu mér ekki.“

Um leið snerist hann á hæli og hvarf á braut jafnskjótt og hann birtist áður. En ég stóð einn eftir og vissi varla hvort þetta var draumur eða veruleiki. Fór ég þá að rekja upp sívalninginn í lófa mér og reyndust það ekki vera tvö hundruð heldur þrjú hundruð krónur.

Já. Það var nú meira hvað menn voru gjafmildir þennan dag, 6. ágúst 1945. Það var engu líkara en almættið snerti einhvern streng í brjósti þeirra sem kallaði fram góðvild og hjálpsemi. Ekki veit ég hvort stjörnuspekingar tækju þá skýringu gilda, en hitt man ég að mér fannst hlutdeild mín í meintu góðverki dagsins hafa rýrnað og fórn mín orðin harla lítil.

——–

Torfi Guðbrandssson: Strandamaður segir frá (Vestfirska forlagið, 2001). Mynd: strandir.is

1,375