trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 21/07/2015

Sumarlesning Herðubreiðar (X): Þegar ástin og heimilisofbeldið leiddi til útlegðar, hungurs, drukknunar og dauða

Drekkingarhylur, Þingvellir

Drekkingarhylur

Upp úr miðri 17. öld gerðust þeir atburðir í Ölfusi með stuttu millibili, að tveir bændur hlupust á brott frá konum sínum og heimilum og höfðu aðrar konur með sér. Annar þeirra tók gifta konu þar úr sveitinni og tvö börn hennar af fimm, en hinn hljóp frá konu og fjórum börnum og hafði ekkju á brott með sér. Voru þetta auðvitað stórtíðindi í svo lítilli sveit. En út af þessu gerðust tvær harmsögur, sem hér er reynt að rekja eftir þeim þráðum, sem enn finnast.

—–

Saga Þorgeirs og Þuríðar

Það er upphaf þessarar sögu, að laust fyrir miðja 17. öld bjó sá maður í Þorlákshöfn, er Jón hét Jónsson. Hann átti dóttur, sem Þuríður hét, og var hún fædd í Þorlákshöfn og ólst þar upp fram undir tvítugsaldur. Er henni svo lýst, að hún hafi verið há og grönn, létt í hreyfingum, föl í andliti og með dökkt hár. Þegar hún var um tvítugt, gifti faðir hennar hana Jóni nokkrum Snorrasyni, og mun hann hafa verið allvel efnaður. Þau voru þrímenningar að frændsemi og urðu því að fá konungsleyfi til þess að giftast. Að því búnu reistu þau bú og eignuðust 2 börn. Eftir fimm ára sambúð missti Þuríður mann sinn og bjó síðan sem ekkja í tvö ár. Þá giftist hún öðru sinni þeim manni, er Ormur Klængsson hét. Er svo að sjá sem þá hafi annað barn hennar og Jóns Snorrasonar verið dáið, því að hún kemur með eitt barn til Jóns. Fóru þau síðan að búa á Litlalandi í Ölfusi, bjuggu þar nokkur ár og eignuðust fjögur börn.

Næsti bær við Litlaland var þá Breiðabólstaður, en þótt nafnið væri tilkomumikið hefir þetta verið kot og er nú fyrir löngu komið í eyði og lagt undir Vindheima. Þarna bjuggu þá hjón, sem hétu Þorgeir Ingjaldsson og Guðrún Jónsdóttir. Ekki er þess getið að þau hafi átt börn. Er Þorgeiri svo lýst, að hann hafi verið riðvaxinn maður, ekki djarfmannlegur að sjá, jarpur á hár og skegg.

Kunnleikar nokkrir gerðust með þeim Þorgeiri og Þuríði á Litlalandi, og kvað svo rammt að því, að Ormur kærði Þorgeir árið 1669 fyrir það, að hann héldi við konu sína. Sagðist meira á slíkum afbrotum þá, samkvæmt Stóradómi, heldur en síðar varð. Munu sakborningar hafa séð sitt óvænna og ekki treyst sér til að hreinsa sig af þessum áburði. Og nokkru seinna hurfu þau bæði, Þorgeir og Þuríður, og með þeim tvö börn af heimili Þuríðar. — Vissi enginn hvað af þeim hafði orðið, en það var allra manna mál, að þau mundu hafa strokið til þess að losna við refsingu. Lét svo valdsmaðurinn, Jón sýslumaður Vigfússon, lýsa þeim á Alþingi hinn 4. júlí 1670 og óskaði, „að hvar sem þau um landið finnast kynni, færist þau aftur í Árnessýslu til sín eða síns umboðsmanns, undir það rannsak, sem lög útheimta.“ Jón sýslumaður hafði þá fengið leyfi til þess að búa utan sýslu og átti heima á Stórólfsvöllum í Rangárvallasýslu, en hafði umboðsmann í Árnesþingi.

Leið nú og beið, svo að ekkert fréttist til strokufólksins. En um haustið 1671 kemur Þuríður að Úlfljótsvatni í Grafningi og hefur þá með sér annað barnið af tveimur. Á Úlfljótsvatni bjó þá bóndi sá, er Rafn hét Jónsson, og var hann kvæntur Guðrúnu systur Þuríðar. Þarna settist nú Þuríður að, og var ekkert um það vandað.

Þingvellir

Þingvellir

Um veturinn varð hún alvarlega veik og hugði sér ekki líf. Vildi hún þá ná prestsfundi, en það var ekki gott um vik, því að hún hafði verið sett út af sakramenti. Tók hún það því til bragðs að gera manni sínum, Ormi Klængssyni, boð að koma til Úlfljótsvatns næsta sunnudag og tala við sig áður en hún dæi. Ormur kom, og var þetta á messudegi. Þar embættaði séra Þórður Þorleifsson á Þingvöllum, og var margt fólk við kirkju. Í viðurvist prests og safnaðar og manns síns játaði hún nú öll brot sín og bað mann sinn fyrirgefningar á öllu því, er hún hafði afbrotið við hann. Tók hann því vel og hafði „ljúflegt svar veitt í prestsins og nálægra sóknarmanna viðurvist“. Og að því búnu veitti presturinn henni svo sakramentið.

Að sjálfsögðu hefir Þuríði létt við það, að hún þóttist nú sátt við guð og menn, og má vera, að það hafi orðið orsök þess, að nú fór henni þegar að batna og varð brátt heil heilsu. Og um vorið fór hún vestur að Skarði á Skarðsströnd með barn sitt og var þar í kaupavinnu um sumarið hjá Eggerti Bjarnasyni hinum ríka. Um haustið hvarf hún svo aftur suður að Úlfljótsvatni. Og þá fór hún að hugsa um það að fá sér aflausn kirkjunnar, svo að hún væri laus allra saka og mætti til kristilegs safnaðar teljast. Þóttist hún eiga fullan rétt á þessu eftir það sem fram fór í sjúkdómslegu hennar um veturinn.

Þá var prestur í Hjallakirkjusókn séra Jón Daðason í Arnarbæli. Hann hafði fyrst orðið prestur í Ögurþingum 1632, en flæmzt þaðan þremur árum seinna vegna missættis við Ara sýslumann Magnússon. Varð hann svo kirkjuprestur í Skálholti 1639, en fékk veitingu fyrir Arnarbæli 1641 og hélt þann stað til æviloka (1676). Var hann vel að sér, en hjátrúarfullur og trúði á galdra. Hann var nú orðinn við aldur og hafði haft aðstoðarprest síðan 1668. Var það séra Eiríkur Magnússon, hinn alkunni galdramaður, sem oftast er kenndur við Vogsósa. Hafði Eiríkur lært hjá séra Jóni Daðasyni.

Þuríður sneri sér nú til séra Jóns, sem hafði verið sálusorgari hennar og sóknarprestur áður en hún strauk, og bað hann að láta sig fá sín kristilegu fríheit. En þegar séra Jón leitaði til Orms manns hennar og vildi fá hann til að standa við þá fyrirgefningu, er hann hafði veitt henni á Úlfljótsvatni, þá snerist Ormur við hinn versti og kvað það aldrei skyldu vera og harðbannaði bæði séra Jóni og séra Eiríki Magnússyni að láta hana fá aflausn. Séra Jón sagði því Þuríði, að hann þyrði ekki upp á sitt eindæmi að taka hana til aflausnar, vegna þess hve afbrot hennar væri mikið, en ráðlagði henni að leita til Brynjólfs biskups Sveinssonar í Skálholti, hvort hann vildi eigi liðsinna henni.

Þetta þekktist Þuríður og gerði för sína í Skálholt þessara erinda, og tók biskup, ásamt fimm kennimönnum, mál hennar fyrir hinn 27. nóvember 1672. Lét biskup hana fyrst segja sögu sína.

Hún sagði, að þá er Ormur bóndi hennar hafði kært þau Þorgeir fyrir hórdómsbrot, hefði þau flúið og farið vestur yfir fjall og síðan flakkað vestur sveitir. Eftir Alþingi um sumarið kvaðst hún hafa farið norður í Skagafjörð með börn sín og dvalizt í Keflavík undir Jökli næsta vetur, en Þorgeir hefði þá verið á Hjallasandi. Um vorið hefði hún aftur farið vestur í Saurbæ og þaðan út á Dalastrandir og verið þar um sumarið ein með börn sín, en annað þeirra hefði látizt meðan hún var á Staðarfelli á Fellsströnd. Þegar haustaði hefði hún svo ráfað suður á leið og komizt alla leið í Grafning til Guðrúnar systur sinnar.

Biskup spurði þá, hvers vegna hún hefði gripið til þess óyndisúrræðis að hlaupast burt frá manni sínum og börnum.

Hún svaraði því, að þar hefði aðallega ráðið „sú eymd og neyð, sem á sér og sínum börnum verið hefði, að hún hafi hvorki sér né börnunum séð þar óhætt upp á lífsbjörg“. Hún kvaðst hafa lagt til 46 hundruð í bú með Ormi þegar þau giftust, þar af hefði hún sjálf átt 30 hundruð, en barn sitt og Jóns Snorrasonar 16 hundruð. En á 4-5 árum hafi Ormur eytt þessu öllu og sóað, svo að hún og börnin hefði aldrei notið þar neins af til lífsbjargar. Og þannig hafi þetta gengið í sex eða sjö ár, að hún og börnin hafi ekki haft neitt til neins, og út úr þessum vandræðum kvaðst hún hafa tekið þá ákvörðun að flýja og leita góðra manna. Auk þess hafi Ormur verið vondur við sig. Ef hún hafi minnzt á bruðlunarsemi hans og ráðleysi, hafi hann svarað með illyrðum og barsmíðum, svo að hún hafi verið hrædd um líf sitt fyrir honum, og hafi það verið önnur ástæðan til þess, að hún hefði „þetta til bragðs tekið í sinni lífsneyð og nauðsyn“.

Biskup spurði þá, hvort hún gæti með góðri samvizku lýst yfir því fyrir guði og mönnum, að hún hefði ekki átt barn með Þorgeiri, hvorki á flakki þeirra né fyrr. Hún kvaðst algerlega saklaus af því og kvaðst mundu fús að leggja líf sitt að veði fyrir því, ef þess gerðist þörf. Og nú óskaði hún einskis fremur en að hún mætti „í guðs nafni meðtakast til heilagrar aflausnar og kristilegra fríheita“ og skýrði síðan frá því, hvernig Ormur hefði komið í veg fyrir að sóknarprestur sinn fyrrverandi veitti sér þetta. Og ekki kvað hún hann hafa boðið sér samvistir síðan hún kom aftur, enda kvaðst hún ekki hafa leitað eftir því.

Biskup lýsti því nú yfir, að sú fregn hefði borizt, að þessi Þorgeir Ingjaldsson, sem hún hljóp á brott með, hafi látizt þá um veturinn vestur í Neshreppi, í sókn séra Sigurðar Halldórssonar á Þæfusteini. Var svo mál Þuríðar tekið til úrskurðar, og var hann á þá leið, að séra Jón Daðason skyldi veita henni aflausn í Hjallakirkju „fyrir sinn ósæmilega viðskilnað og fráhlaup frá sínum ektamanni, og biðji þar upp á auðmjúklega guð um fyrirgefning á syndinni, en kristna kirkju á ljótum eftirdæmum. Ennfremur skal hún opinberlega biðja Orm Klængsson um fyrirgefning á öllu því, er hún hefir honum og þeirra hjónabandi í móti brotið, auðmjúklega og huglátlega sem hæfir. Vilji Ormur Klængsson henni fyrirgefning veita, þá er vel, en vilji hann það ei gera ljúflega og einfaldlega fyrir utan álagða skilmála, þá sé það vottað og uppskrifað, en Þuríður ei að síður til opinberrar aflausnar og sakramentis meðtekin… en hún lofi að standa kristilegu yfirvaldi til rétta í því sem henni kristilega til sagt verður.“

Ekki þótti biskupi undir því eigandi, að þau Ormur færi aftur að búa saman, enda þótt hann vildi taka hana í sátt, „vegna þess vanda og hættu, sem þar af má stofnast, hvorn biskup vill ei fyrir guði né mönnum ábyrgjast“. Má á þessu sjá, að biskup hefir haft illan bifur á Ormi. Og á öllu má sjá, að biskup hefir vorkennt Þuríði og viljað hennar hlut sem beztan.

Þuríður fékk svo aflausn, en hvorugt þeirra Orms mun hafa kosið að endurnýja hjúskapinn og voru þar með skilin að skiptum. Síðan fór Þuríður aftur vestur á land.

Svo liðu 9 ár. — Þá uppgötvar Magnús Jónsson sýslumaður í Snæfellssýslu, að Þorgeir Ingjaldsson er ekki dauður, heldur hefst hann við undir Jökli. Lét sýslumaður þá grípa hann sumarið 1681, og var hann fluttur frá sýslumanni til sýslumanns og seinast austur að Þórólfshvoli til Jóns sýslumanns Vigfússonar, en hann flutti Þorgeir í járnum til Alþingis.

Þorgeir var yfirheyrður í lögréttu og játaði þegar, að hann hefði haldið við Þuríði áður en þau struku að heiman, en neitaði því að hafa átt nokkuð vingott við hana eftir það að hjónaband hennar og Orms var uppleyst. Var þá séra Árni Þorvarðarson prestur á Þingvöllum fenginn til að tala um fyrir honum, og eftir það játaði Þorgeir í áheyrn Jóns Vigfússonar sýslumanns og 7 lögréttumanna, að þegar Þuríður hafi komið vestur aftur hafi þau verið samtímis um hríð að Saurum í Laxárdal og hafi þá stundum rekkjað saman. Og síðan þá um haustið hafi þau bæði verið í Eyrarsveit, þó ekki á sama bæ, en þá hafi hann „margfaldan hórdóm með henni framið, hvað valdsmaðurinn, presturinn og þeir 7 lögréttumenn með sínum undirskriftum votta“. Auk þess játaði Þorgeir, að allan þann tíma er hann var í burtu, eða 11 ár, hefði hann verið „fyrir utan kristileg fríheit og aldrei þeirra leitað“.

Lögmenn og lögréttumenn voru svo sem ekki í neinum vafa um það, hvernig fara ætti með Þorgeir. Því það sögðu lögin, að þeir menn „er að slíkum óskikkum verða kenndir að þeir hlaupa burt með eiginkonur manns, þá eru þeir óbótamenn bæði fyrir kóngi og karli, dræpir og deyðandi“. Kváðu þeir því þegar upp þann dóm, að Þorgeir skyldi tekinn af lífi. Og sama dag, eða hinn 5. júlí 1681, var Þorgeir höggvinn á Þingvöllum. Hann var þá um fimmtugt.

En ekki var þetta nóg. Nú voru fengnar sannanir fyrir því, að Þuríður hafði eigi haldið þau loforð, sem hún gaf þegar hennar var aflausn veitt, heldur gerzt margbrotleg að nýju. Og fyrir þetta þurfti að refsa. Lögin kröfðust þess. Daginn eftir aftöku Þorgeirs lét svo Jón Vigfússon sýslumaður í heyranda hljóði á Alþingi lýsa eftir „Þuríði Jónsdóttur, burt hlaupinni úr Árnessýslu, sem opinberlega fallið hefir í hórdómsbrot með Þorgeiri Ingjaldssyni, og síðan eftir Þorgeirs sjálfs lýsingu, sem hér var á Öxarárþingi í gærdag hálshöggvinn, í margfaldan hórdóm með honum heimulega fallið. — Álykta lögþingsmenn, að þessi Þuríður sé rétttæk hvar hittast kann, og sendi hana hver sýslumaður frá sér til annars í góðri geymslu og sinni ábyrgð, þar til hún kemst í Árnessýslu til valdsmannsins Jóns Vigfússonar, sem misgert var við“.

Hér lýkur þessari sögu, er refsivöndur laganna er að nýju reiddur að höfði Þuríðar, því að ég hef hvergi fundið neitt um það, hver afdrif hennar hafa orðið.

Saga Eyvindar og Margrétar

Eyvindur Jónsson hét bóndi í Ölfusi. Kona hans hét Ingiríður, og áttu þau fjögur börn. Ekki er þess getið, á hvaða bæ þau áttu heima, og þar sem engar kirkjubækur eru til frá þeim tíma, verður ekki úr því leyst.

Nú er það haustið 1675, miðvikudaginn seinastan í sumri, að Eyvindur hverfur að heiman og með honum kona sú, er Margrét hét Símonardóttir. Var þeim lýst á Alþingi næsta sumar og þess krafizt, að „hvar sem þessar persónur hittast kunni, höndlist og í Árnessýslu færist undir lög og rannsak“.

Eyvindur er þá talinn tæplega fertugur að aldri. Er honum svo lýst, að hann sé rauðbirkinn, þykkvaxinn, ekki mjög hár, með rautt skegg þykkt, ekki mjög sítt, rauðleitur nokkuð, þykkleitur, glaður og lystugur í viðmóti, kvæðamaður mikill og hagmæltur til skáldskapar.

Margrét er talin um tíu árum eldri. Hún var ekkja, en hafði átt barn í lausaleik eftir að hún missti mann sinn. Ekki var Eyvindur þó talinn faðir þess. Henni er svo lýst: Hún er há kona, grannvaxin og réttvaxin, dökk á hárslit, glaðleg í viðmóti.

Enginn vafi var talinn á því, að þau mundu hafa strokið saman, og af því má skilja, að kunnugt hafi verið orðið um samdrátt þeirra. Er nú ekki vitað hvenær sá kunningsskapur hófst, en á því er síðar segir má sjá, að Margrét hefir þá verið þunguð af völdum Eyvindar og að þau hafi unnazt mjög. Er því líklegt, að þau hafi flúið til þess að fá að njótast og losna undan þeirri refsingu, sem yfir þeim vofði vegna hórdómsbrots.

Af stroki þeirra er nú það að segja, að þau lögðu leið sína vestur á land, þóttust vera hjón og flæktust víða um haustið, en komust til Ólafsvíkur nokkru fyrir jól og settust þar að. Þar ól Margrét barn í seinustu viku góu, og var það skírt. Lifði það aðeins viku og var síðan að kirkju grafið. Í Ólafsvík voru þau allan veturinn og næsta vor, en fóru þaðan daginn fyrir Jónsmessu og héldu þá norður í Miðfjörð. Þar voru þau við heyskap fram að Maríumessu síðari (8. sept.), en héldu þá vestur aftur og komust í Ísafjörð. Voru þau þar fyrst 6 vikur á hvorum bæ, Laugabóli og Gervidal, en flæktust síðan bæ frá bæ og gistu nótt og nótt á bæ, þangað til komið var fram á þorra. Þá mun þeim ekki hafa litizt björgulegt þar vestra og héldu nú suður á bóginn, en hvar sem þau komu þóttust þau vera hjón og sváfu alltaf saman. Komust þau þannig alla leið suður í Eyrarsveit á Snæfellsnesi og dvöldust þar um hríð. Hafði fólk þá verið að amast við þeim, vegna þess að lýsing þeirra var orðin kunn. Þá lögðu þau enn land undir fót og komu í júnílok að Jörva í Kolbeinsstaðahreppi. Þar voru þau við heyskap í sex vikur og fengu gott kaup: tvo fjórðunga smjörs, tvo sauði og sex skinn.

Svo virðist sem einhver óskiljanleg þrá hafi dregið þau til heimastöðvanna, því að nú leggja þau land undir fót og halda suður á bóginn og komast allt vestur á Reykjanesskaga til Krýsuvíkur og dvöldust þar stund úr degi. Voru þau þá komin svo nærri sinni sveit, að þau gátu búizt við að þau myndu þekkjast og þá verða gripin og færð valdsmanni. Hefði það þá orðið til lítils að þau flýðu undan refsingu. Hvað gat þeim gengið til þessa? Ekki var það vegna þess, að betur væri ært á Suðurlandi en annars staðar, heldur þvert á móti, því að harðindi höfðu verið þar mikil. Hafði heyskapur brugðizt, og vegna stórviðra um veturinn ekkert aflazt. Urðu menn að skera nautpening af heyjum um vorið, bæði til þess að hann horfélli ekki og einnig til að bjarga lífinu. Lá við, að mannfellir yrði þá víða um Suðurland. Auk þess gekk landfarsótt, sem lagði marga í gröfina. „Hófust þá víða rán og þjófnaðir,“ segir í annálum.

Frá Krýsuvík hafa þau farið laust eftir miðjan september. Og nú taka þau þann kostinn, er verstur var, að leggjast út undir vetur sjálfan. Fóru þau frá Krýsuvík inn með fjöllum og settust að í hraunhelli skammt frá Örfiriseyjarseli, en samkvæmt Jarðabókinni hefir það verið undir Selfjalli. Höfðust þau þar við um mánaðartíma. Þá urðu byggðarmenn varir við þau, og voru þau gripin í hellinum hinn 20. október og færð fulltrúa fógetans á Bessastöðum, Ólafi Jónssyni Clow, en hann sendi Hjörleif nokkurn Guðmundsson og fimm menn aðra með þau suður í Ölfus. Var mál þeirra tekið fyrir á Bakkárholtsþingi 2. nóvember 1677, og voru þau þar af tólf manna dómi dæmd til að þola þrennar refsingar hvort, eina fyrir hórdómsbrot, aðra fyrir brotthlaup úr héraði og hina þriðju fyrir heilagrar aflausnar og sakramentis foröktun. Voru þau bæði höfð í járnum á þinginu. Að því loknu var refsingin á þau lögð, þrennar hýðingar.

Af dóminum virðist mega ráða, að Margrét hafi þá verið vanheil, því að talað er um að sýslumaður veiti henni einhverja miskunn með góðra manni ráði „vegna hennar nú sýnilegu vesalburða“.

En ekki var öllu lokið með þessu. Nú áttu þau eftir að svara til saka vegna útilegu og þjófnaðar. Segir í skýrslunni um réttarhaldið, að hjá þeim hafi fundizt í hellinum nautakjöt og fleira, er þau hefði rænt og stolið. En þar sem „lögmálið útvísar, að þar skuli þjóf dæma er hann stal“, þá voru þau send til Gullbringusýslu og mál þeirra tekið fyrir á Kópavogsþingi. Þar voru þau dæmd og hýdd að nýju hinn 3. desember „fyrir þjófnað og útilegu“. Var þeim svo gert að skyldu að taka aflausn til þægingar við kirkjuna.

Þegar er þau voru orðin ferðafær eftir hýðinguna, lögðu þau á stað austur í Skálholt og fengu þar aflausn hjá sjálfum biskupnum, Þórði Þorlákssyni, eins og þetta bréf hans sýnir:

Skálholt

Skálholt

„Með því að Eyvindur Jónsson hefir sínar syndir og opinbera stórglæpi játað og viðurkennt og guð og kristilegan söfnuð auðmjúklega fyrirgefningar beðið, lofandi bót og betrun með guðs náðar fulltingi, þá er hann hér í dómkirkjunni í Skálholti opinberlega afleystur af mér undirskrifuðum og hefir þar upp á meðtekið heilagt kvöldmáltíðarinnar sakramentum af kirkjuprestinum, heiðarlegum kennimanni, séra Einari Einarssyni — hvað að skeði þann 1. sunnudag eftir þrettánda þessa árs (1678) — svo hann er nú í sátt tekinn við guð og heilaga kirkju og að svo stöddu óhindraður í sínum kristilegu fríheitum. Guð virðist honum framvegis sína náð að gefa að sjá við syndunum, lifa guðrækilega, kristilega og án hneykslis, guði til lofs, honum sjálfum til gagns, en öðrum til góðs dæmast.“ — Aflausnarseðill Margrétar Símonardóttur út gefinn er þessum samhljóða.

Að þessu loknu hurfu þau aftur heim í Ölfus. Ingiríður kona Eyvindar tók hann í sátt, og settist hann að búi með henni, en ekki er vitað hvar Margrét hefir setzt að. Hér rættist því betur úr en á horfðist, eins og þau höfðu margt til saka unnið. Þau voru aftur frjáls. En þau höfðu þó fengið að gjalda gáleysis síns svo rækilega, að þeim mátti vera það hugstætt. Er þar fyrst að telja, að tveggja ára flakk hefir gengið mjög nærri þeim, að öðrum kosti hefði þau ekki reynt að bæta böl með því að bíða annað meira, þar sem þau gerðust útlagar og ætluðu sér að lifa við stuldi. Vistin í hellinum hjá Örfiriseyjarseli hefir og sjálfsagt ekki verið góð, enda þótt tíðarfar væri gott um haustið, og af þeirri reynslu, er þau fengu þar, hefði þau átt að sjá að ekki mundi björgulegt að vera þar um hávetur. Síðan höfðu þau þolað harðar líkamlegar refsingar og orðið að knékrjúpa mönnum og kirkju með fyrirgefningarbónum. Allt þetta hefði átt að nægja til þess að þau yrðu fjörvi og frelsi fegin, er það var fengið, og gættu sín betur eftirleiðis.

Þannig hugsuðu þeir, sem lögum og rétti áttu að stýra. En þeim gleymdist eitt mikilvægt atriði, ástin milli manns og konu, ástin, sem ekki sést fyrir og er blind á allar lagasetningar manna.

Þegar leið fram á vetur hófst að nýju samdráttur þeirra Eyvindar og Margrétar. Þau máttu hvorugt af öðru sjá, og frelsið var þeim aðeins byrði, þar sem þau fengu ekki að njótast. Og svo gripu þau til þess örþrifaráðs að strjúka að nýju um vorið 1678.

Að þessu sinni fóru þau ekki langt. Þau hafa eflaust ekki þorað að fara aftur vestur í sveitir, þar sem þau voru þekkt. Hófu þau því nýja útilegu og settust að í hellisskúta í landi Ölfusvatns, norðan við Hengilinn, og gerðu sér þar hreysi.

Ekki er nú vitað, hve lengi þau höfðust þarna við, en fljótlega hafa byggðamenn orðið þeirra varir og komizt að því hvar þau héldu til. Eru svo gerðir út 9 menn til þess að handsama þau, og hét sá Þorsteinn Jónsson, sem fyrir þeim var. Komu þessir menn að þeim í skútanum, þar sem þau lágu í einni rekkju, og voru þau handtekin. — Ekki var björgulegt um að litast í hellinum, því að þeir fundu þar ekki annað en fjóra fiska og tvo mathnífa.

Nú voru þau flutt austur að Stórólfshvoli, og hafði Jón sýslumaður Vigfússon þau þar í fangelsi fram til þings. Þá fór hann með þau þangað í járnum, og þannig voru þau leidd í lögréttu. „Meðkenna nú bæði fyrir dómi, að þau um sinn samverutíma fyrr en dómur gekk á þeirra mál í vetur hafi framið tvö hórdómsbrot og nú í sinni síðari útilegu hið þriðja, svo hans hórdómsbrot meðkennd og játuð eru þrjú, en hennar fjögur.“

Fyrir þetta framferði þeirra, svo og fyrir útilegu og þjófnað, voru þau dæmd einum rómi í lögréttu til þess að takast af lífi, hvort með þeim hætti, sem tilskilið var í Stóradómi.

Hinn 3. júlí var svo dóminum fullnægt. Eyvindur var höggvinn, en Margrétu var drekkt í Öxará. Þá var liðið tæpt hálft ár frá því þau fengu aflausn í dómkirkjunni í Skálholti.

Frásagnir – Þjóðlífsmyndir frá ýmsum tímum. Árni Óla skráði (Bókaútgáfa Menningarsjóðs, 1955).

 

 

1,403