trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 10/07/2015

Sumarlesning Herðubreiðar (VI): Sumarnótt

Á hverjum morgni gekk Tryggvi út á bæjarhólinn, leit til veðurs og yfir land sitt. Á vorin og fram til þess tíma að féð var rekið á fjall rýndi hann túnin og eyrarnar í leit að því hvort einhverjar kindur hefðu sloppið inn fyrir túngirðinguna. Morgunninn gaf fyrirheit um góðan dag fyrir heyskapinn. Við stóðum sunnan undir bænum við hlið fjóssins horfðum niður bæjarhólinn yfir heimatúnið og út á engin á eyrunum við ánna. Tryggvi þekkti manna best þessa á.GG á rakstrarvél

„Þeir eru mættir í Ásgeirsárbreiðuna. Þetta verður erfitt hjá þeim í dag í þessu veðri,“ sagði hann „ekki rignt lengi og lítið í ánni.“

Það kom fyrir að veiðimennirnir gáfust upp, eftir að hafa ekki orðið varir allan daginn og vildu frekar fara í veiðihúsið. Setjast þar í gleðskap við drykkju og spil. Þeir þekktu Tryggva vel enda var hann formaður veiðifélagsins og komu stundum til okkar þar sem við vorum við vinnu á bökkum árinnar.

„Hún er steindauð núna. Hann liggur bara og hreyfir sig ekki,“ sögðu þeir. „Við nennum þessu ekki lengur, en ef þú vilt, Tryggvi minn, máttu nýta það sem eftir er af deginum.“

Þá rétti Tryggvi okkur verkfærin, fór heim að ná í stangirnar sínar. Aldrei kom hann tómhentur heim úr ánni. Hann gjörþekkti náttúruna og öll tilbrigði hennar. Birtan, hitastigið, vatnsmagnið og árstíðin sögðu honum hvaða agn ætti að nota, hvert ætti að kasta og í hvaða hæð frá botni agnið ætti fljóta. Hann þekkti hvern stein, hverja bugðu og alla hylina þar sem laxarnir lágu. Það eina sem breyttist milli ára voru túnbakkarnir sem áin hafði nostursamlega grafið undan þar til þeir féllu framyfir sig út í ána. Þeir mynduðu nýjar iður og sveipi sem laxinn kunni vel að meta. Nýir bakkabútar ultu út í ánna á hverju vori á meðan hinir eldri urðu að játa sig sigraða og vatnsvelgurinn bar þá til hafs. Tryggvi óð upp að geirvörtum út í miðja ána, þræddi straumana og kastaði á báða bóga meðan hann lét sig síga rólega undan straumnum niður veiðisvæðið. Það kom fyrir að þeir buðu honum að koma seinna um kvöldið í gleðskapinn. Menn sem fara sjaldan í gleðskap koma oft þaðan illa leiknir og lítt hæfir til vinnu daginn eftir.

—–

Gamli bærinn hafði verið rifinn í fyrra og í stað hans var komið á bæjarhólinn nýuppsteypt hús. Þar stóð þarna baðað í geislum morgunsólarinnar ómúrað grátt og matt, skreytt spýtum úr steypumótunum, sem enn voru á nokkrum á stöðum í veggjunum. Ástæðulaust að leggja mikla vinnu í að snurfusa það að utan, meira lá á að gera húsið íbúðarhæft. Nýja húsið passaði engan veginn inn í þetta umhverfi eitthvað svo einmana, eins og það hefði fallið þarna niður og gæti ekkert að því gert.

Fjárhúsin földu sig bakvið taðhaugana, hálfgrafin inn í brekkuna fyrir ofan bæinn. Þar höfðum við hamast við að stinga út eftir að sauðburðinum lauk svo við næðum að ljúka því fyrir fyrsta slátt. Fast við nýja bæinn stóð gamalt, skakkt og skælt fjósið, bárujárnsklætt hús reist á hlöðnum tóftum. Hurðin var skökk en krækjurnar héldu henni á sínum stað. Engum datt í hug að hreinsa rúðurnar í fjósinu, á þeim var margra ára skítur. Stórir kóngulóavefir héngu niður úr loftinu án þess að nokkrum kæmi til hugar að gera athugasemdir við tilvist þeirra. Áfast við fjósið var hlaðan enn skakkari, hún studdi sig við steyptan súrheysturninn til að verjast falli. Ef eitthvað var að veðri varð hlaðan að íþróttahöll. Hænurnar litu þar gjarnan við til að hvíla sig frá amstri dagsins. Fjóshaugurinn umlukti súrheysturninn á tvo vegu og rann svo niður brekkuna fram af bæjarhólnum niður á heimatúnið. Snúran hennar Þorgerðar var strengd frá fjóshorninu þvert yfir hlaðið yfir í símastaur. Þar blakti marglitur þvottur gærdagsins letilega í morgungolunni og beið þess þolinmóður að verða sóttur og brotinn saman.

Garpur kom stinghaltur fyrir bæjarhornið til bónda síns. Kolsvartur en víða grásprengdur, háaldraður, alltof feitur og átti erfitt með gang. Varð undir bíl sem hann hafði elt geltandi á þjóðveginum fyrir ofan bæinn eftir að hann hafði misst snerpuna, náði því ekki að ljúka kúnstunum þegar bíllinn þaut framhjá og annar afturfóturinn varð undir bílnum. Eftir það hagaði fóturinn sér eins og hann hefði orðið viðskila við aðra líkamshluta og átti fullt í fangi með að fylgja honum. Þegar Garpur hafði verið upp á sitt besta var hann duglegasti smalahundurinn í dalnum. Hann lagði allt upp úr að viðhalda fyrri reisn. Réðist kröftuglega að öllum hundum sem voguðu sér að koma upp á hans bæjarhól.

Þegar Tryggvi kom út á hlað stóð Garpur alltaf upp og haltraði fagnandi til húsbónda síns með vinalegu voffi og dinglaði rófunni ákaft, en lét sér hins vegar fátt um finnast ef við fórum um hlaðið, svo framarlega að ekki væri verið kássast upp á hann. Þá átti hann það til að urra og jafnvel glefsa í áttina til manns.

„Látið mig friði krakkafífl.“

Ef Tryggvi undirbjó för af bænum skakklappaðist Garpur geltandi í kringum hestinn, en þegar það rann upp fyrir honum að hann væri ekki að fara með, breyttist geltið í ýlfur og síðan í ámátlega tregaþrungið væl meðan Tryggvi reið niður bæjarhólinn.

—–

„Þetta lítur vel út og við ættum að geta náð öllu saman á heimatúninu í dag,“ sagði Tryggvi.

Því fylgdi ávallt ákveðin stemming ef mikið stóð til. Þá birti yfir Tryggva og hann varð kátari. Garpur fylgdi okkur niður bæjarhólinn við hlið Tryggva með uppsperrta rófuna. Það lá vel á þeim báðum og Tryggvi fór hægt svo Garpur héldi vel í við okkur. Hann beygði sig niður og kjassaði Garp, sem hann gerði mjög sjaldan, en Garpur nánast ærðist af fögnuði. Allt um kring vörðuðu þögul fjöllin dalinn í björtum morgninum sem var að hefja göngu sína inn í daginn.

Kýrnar lágu jórtrandi í haganum og horfðu upp í himininn með stóískri ró svo fjarri öllum deilum samfélagsins og biðu eftir að verða sóttar til morgunmjaltanna. Þar ríktu engar kreddur og ekkert sem myrkvaði heim þeirra. Ærin lá milli þúfna ánægð með lífið hjá lömbunum sínum. Hún hafði enga óuppfyllta þrá eða skyldur, lífsnautn hennar var fullnægt. Fyrir dalbúum lá langur og átakamikill vinnudagur á öllum bæjum átti að ná saman töðunni sem vinnufólkið hafða snúið undanfarna daga. Tryggvi setti sig í hátíðlegar stellingar.

„Landið er dýrmætasta eignin, dýrmætasta auðlindin. Tilgangslaus skemmdarverk á landinu eru óþolandi. Við verðum að varðveita það sem okkur er falið að gæta,“ sagði hann án þess að líta til mín.

Við hlið okkar rann lækurinn áhyggjulaus niður sinn einkafarveg og skilaði því sem uppsprettan upp á hálsinum hafði úthlutað honum í morgunsárið niður í ána, utan þess sem hafði farið í kaffiketilinn hennar Þorgerðar þegar hún undirbjó morgunkaffið. Hænur hennar héldu til í brekkunni niður að læknum þar sem affallið frá bænum rann fram úr skolprörinu. Haninn spígsporaði bísperrtur fram og tilbaka efst í brekkunni. Reglulega stoppaði hann og kannaði allt umhverfi sitt með örsnöggum höfuðhreyfingum í allar áttir, fullur tortryggni eins og hann ætti von á óvinum. Gaf öllu vökult auga eins og reyndur lífvörður. Gólaði reglulega svona til þess að minna hænurnar á að hann væri þarna.

Þarna var gróðurinn kröftugur og mikið líf í moldinni. Allt fullt af æti. Hænurnar höfðu sinn fasta takt, gengu fram þrjú skref og svo tvö tilbaka. Í hvoru spori stóðu þær í annan fótinn og kröfsuðu tvisvar með hinum kröftuglega upp jarðveginum. Síðan gogguðu þær hratt upp það sem kom upp og svo hófst næsta spor. Þegar þessi matarveisla stóð yfir var eins og allar hænurnar stigu taktfastan tangó og hópurinn fór taktvisst fram og tilbaka í brekkunni niður að læknum. Reglulega litu þær upp, slepptu einum takti skiptust á nokkrum göggum og svo hófst tangóinn aftur. Þorgerðar hafði látið útbúa hænsnakofann sem hluta fjóssins. Þangað fór hún nokkrum sinnum á hverjum degi og gaf hænsnunum. Talaði við þær um daginn og veginn og raulaði vingjarnlega á meðan hún tíndi eggin.

Tryggvi hélt áfram eintali sínu á leið okkar niður bæjarhólinn „Maður býr ekki til land. Maðurinn varðveitir það land sem honum áskotnast. Þar getur hann lifað og framfleytt sér.”

Hann var hávaxinn og þreklegur, gekk alltaf í ullarsokkum og gúmmískóm og í ullarnærfötum sama hvernig viðraði. Andlitið var svipmikið, augun skörp, djúpstæð og grænleit. Ennið var hátt, nefið langt þar undir og hann var skámynntur hafði misst tvær tennur eitt sinn þegar hann reyndi að beisla ungan fola sem sló það hraustlega til hans. Tryggvi hreyfði ekki varirnar þegar hann talaði, en það myndaðist smá rifa á milli varanna þannig að það glitti aðeins í tennurnar og orðin streymdu út.

Yfirleitt var hann með nokkurra daga ljóst skegg og oftast með mikið bylgjótt hár. Faðir hans og afi höfðu verið bændur og þaðan hver af öðrum allt frá komu landnámsmanna til landsins. Hinar stoltu og frelsisunnandi hetjur sem sigldu hingað til lands með höfuðið hátt til að sleppa undan kúgunarvaldi Noregskóngsins Haraldar hárfagra. Hin óaflátanlega hvöt til þess að standa á eigin fótum, halda sjálfsvirðingu sinni, öðrum óháður. Sjálfstæðishetjur Íslands.

Tryggvi beygði sig niður og greip handfylli af ilmandi nýsleginni töðunni, þefaði af henni og stakk nokkrum stráum upp í sig.

„Það er kraftur í þessu. Vonandi náum við þessu saman áður en hann fer að rigna,“ sagði hann og leit upp í skýin.

„Trúir þú á Guð? Heldurðu að hann stjórni rigningunni?“ spurði hann glottandi og beið ekki eftir svari. Nú lék allt í lyndi og þá var tími til að gantast.

„Það er sko náttúran sem stjórnar því án nokkurra leyfisbréfa frá almættinu hvar og hvenær rignir. Guð hefur ekkert með það að gera,“ sagði hann og gekk um flekkina og sparkaði upp töðunni til þess að sjá hversu þurr hún væri orðin.

„Það stoðar sko ekki mikið þó presturinn biðji um gott veður úr pontunni fram í Tungukirkjunni. Nei, ef eitthvað væri að marka það sem hann segði þá værum við ekki að draga rollurnar dauðar upp úr sköflunum hér fram á hálsi á veturna og þá tæki það ekki nema viku að heyja í glampandi sól og brakandi þurrki.“

„Heldur þú að Guð sé almáttugur? Ég skal bara segja þér að þá gæti hann búið til svo þungan stein að hann gæti ekki lyft honum upp. En athugaðu að hann væri heldur ekki almáttugur ef hann gæti lyft steininum upp. Það eru sko tvær hliðar á öllum málum.“

„Hvað heldur þú að Guð geti komið mörgum englum fyrir á títuprjónsenda? Kannski óendanlega mörgum? Ha, hann ætti auðvelt með það ef hann væri almáttugur,“ sagði Tryggvi og hláturinn ískraði niðri í honum.

Ég sá ekki ástæðu til þess að svara honum, enda vissi hann að ef ég gerði það þá væri það bara til þess að samþykkja það sem hann segði. Það var einfaldast að sinna möglunarlaust þeim störfum sem manni voru falin. Óþarfi að endurtaka það á hverjum degi að það þyrfti að sjá um að fjósið væri hreint, sækja beljurnar og koma þeim tilbaka í hagann.

Einu frávikin voru þegar ég var sendur í vötnin upp á heiði til að ná í silung í matinn fyrir Þorgerði ríðandi með einn í taumi. Hann var með klyfberann og á honum voru töskurnar með netunum. Ég undi mér vel við vötnin. Kæmist ég nægilega snemma af stað náði ég þangað um miðjan dag og kom netunum í vatnið og gat vitjað um kvöldmatarleytið og í birtuskilunum á kvöldin þannig að þau gátu veitt óhindrað alla nóttina.

Því fylgdi mikil andakt að standa út í heiðarvatni í fullkominni kyrrð við að hreinsa úr netunum. Oft var þoka og öll skynjun umhverfis var með heyrninni, það eina sem raskaði kyrrðinni var himbriminn og endurnar fylgdust með manni. Himbrimahjónin ráku sitt heimili í hólma í miðju vatninu. Milli þess að vitjað var í netin lagðist ég á milli þúfna í grennd við hestana, sem voru heftir og fóru því ekki langt. Stundum kom fyrir að fugl festist í netunum og það tók langan tíma að losa svo hann biði ekki skaða. Ef litið var til lands sást minkurinn skjótast í vatnsbakkanum og ég varð að ganga vel frá fiskinum, annars var hann snöggur að næla sér í góðan hluta af aflanum. Í morgunsárinu vitjaði ég og tók þau jafnframt saman og gerði að silungnum. Stundum var veiðin svo mikil að hún fyllti töskurnar og ég varð að binda  netin ofan á töskurnar. Heiðarnar eru víða mjög blautar að maður varð að fara krókaleiðir um þær. Þannig varð tíminn sem tók að komast um víðáttuna og vegleysurnar uppspretta lausna á margskonar andans glímum og ekki síður í pólitískum vangaveltum.

Þorgerður kom út úr bænum og kallaði til okkar „Kaffið er tilbúið. Eruð þið ekki að koma svo við komumst í mjaltirnar?“

Kýr eru miklir heimspekingar sem endurspeglast í hinni einföldu en óumdeilanlegu lífsspeki þeirra að hafa ánægju af lífinu. Því sem liðið væri yrði ekki breytt og við réðum ákaflega litlu um það sem framundan væri. Þú átt mínútuna sem er að líða.

Hvergi er meiri stéttaskipting en í kúahjörð. Þar ræður forystukýrin. Tilgangslaust að gera tilraun til þess að reka þær heim fyrr en hún er staðin á fætur. Ég opnaði túnhliðið og gekk til Kransalindar. Hún var forystukýrin, rauðskjöldótt og tíguleg, með sín stóru horn.

„Kransalind er hennar rétta nafn. Hún er prinsessa af guðs náð,“ sagði Þorgerður þegar hún fékk gesti í fjósið og strauk henni þéttingsfast aftur allan búkinn.

Kransalind var öðruvísi en hinar kýrnar. Hún lagði áherslu á sérstöðu sína og án nokkurrar merkjanlegrar fyrirhafnar réði hún öllum athöfnum kúahjarðarinnar. Ef hún pissaði þá pissuðu allar hinar. Hún réði alfarið hvert þær leituðu í haganum eftir bestu beitinni. Kransalind reis ávallt upp með því að koma fyrst undir sig framfótunum og stóð síðan upp að aftan, eins og hestar gera, öfugt við hinar kýrnar. Þegar hún lagði af stað var það merki til hinna kúnna um að nú ætti þær að fylgja henni og þá stóðu hinar upp hver af annarri, fyrst upp að aftan. Kransalind leiddi hópinn ákveðin og viss um sína stöðu.

Þorgerður beið okkar á hlaðinu tilbúin í mjaltirnar. „Hvað sagði hann um veðrið?“ spurði Tryggvi þegar hann kom upp á bæjarhólinn þar sem Þorgerður beið okkar. Það var skylda þeirra sem heima voru að hlusta á allar veðurspár í útvarpinu, sérstaklega landshlutaspána.

„Það verður gott í dag, en gæti farið að rigna í nótt“ svaraði Þorgerður og fór í fjósið á eftir beljunum.

Hún var þéttvaxin en kvik í hreyfingum. Augun björt og blá og stutt í brosið þegar hún var í hópnum, kátust allra og ekki þurfti mikið til að hláturstárin rynnu niður kinnarnar. Þorgerður stjórnaði öllu innanhúss og í fjósinu – engum kom til hugar að draga það í efa. Í fjósinu ríkti fullkomið jafnræði milli hennar og Kransalindar. Þorgerður þurfti aldrei að hefta Kransalind við mjaltir, hvað þá að binda hana á básinn og festa upp halann. Kransalind færði sig rólega til þegar Þorgerður kom að henni með fötuna og kollinn og settist undir hana og tók til við mjaltirnar. Ef einhver var með eitthvert óþarfa múður í fjósinu urðu þær báðar pirraðar. Kransalind lýsti skoðun sinni með því að hrista hausinn og slengja honum til hliðar en Þorgerður minnti okkur á að beljurnar sköffuðu mikið til heimilisins og við ættum að koma vel fram við þær. Kransalind átti það til, ef einhver var að vasast í básnum hennar, að halla sér og klemma hinn óboðna gest við básagrindina í smátíma. Þegar henni fannst áminningin væri orðin nóg færði hún sig.

„Þetta gerir þú ekki aftur.“ Þau skilaboð skildu allir.

Þorgerður sagði okkur til verka – einu sinni það var nóg. Aldrei byrsti hún sig. Í kringum hana gerðust hlutirnir alltaf á einhvern dularfullan hátt án þess nokkur yrði þess var. Það bara gerðist. Verklagið var eitthvað svo einfalt að engum datt í hug að velta því fyrir sér að það hefði yfir höfuð verið einhver ástæða til þess að vinna þetta verk. Þegar við komum heim eftir útivinnu dagsins stóð ávallt stóð nægur heitur matur á eldhúsborðinu. Þrátt fyrir að Þorgerður hefði verið með okkur í heyjunum nánast allan daginn. Þetta var ekki skyndibiti, örbylgjuofninn var ekki til og frystir skyndibitar óþekktir. Einungis þriggja hellu Rafhavél með pottum og pönnum. Á eldhúsborðinu stóð heimaeldaður matur fyrir hinn tíu manna hóp sem settist að borðinu. Aldrei tók nokkur eftir því hvort hún væri að þvo þvottinn – henti kannski í eina vél. Þó við værum öll í útivinnu alla daga þá voru alltaf til ef á þurfti að halda hrein og þurr föt.

Hún mótaði umhverfi sitt og viðhorf án umfangsmikilla tilskipana. Stóð til hliðar við eldhúsborðið þar sem umræðan fór fram. Virtist ekki vera þátttakandi en leiddi hana samt og mótaði með örstuttu innleggi á réttum tíma og tókst að beina sjónum manna inn á þær slóðir sem hún vildi. Það voru einmitt þessar mæður og ömmur alþýðunnar sem höfðu verið frjóasti jarðvegur samfélagsins í gegnum aldirnar. Hinn nafnlausi og dularfulli hulduháskóli sem mótaði viðhorf sona sinna, sem þeir notuðu er þeir byggðu upp velferðarsamfélagið. En það voru síðan karlarnir sem sjálfhverfir reistu sér minnisvarða á grunni þeirra mála sem komust í höfn. Konurnar gerðu gott úr því sem var, án öfundar í garð annarra.

Ef Þorgerður heyrði illt tal um einhvern sagði hún gjarnan „Aumingjans maðurinn.“ Það var eina innlegg hennar í þannig umræðu.

Þorgerður kom til okkar niður á tún í heyverkin að loknum mjöltum, en ég fór heim og náði í kýrnar. Þegar kúnum var hleypt út að loknum mjöltum stóð Kransalind ávallt kyrr á sínum bás og fylgdist hneyksluð með því öngþveiti sem skapaðist þegar hinar kýrnar ruddust samtímis úr í sínum básum. Kransalind hreyfði sig ekki fyrr en allar voru komnar út – þá lagði hún af stað. Róleg og tíguleg, leit hvorki til hægri eða vinstri þegar hún gekk út. Úti biðu kýrnar, en röðuðu sér síðan upp og fylgdu okkur Kransalind út í hagann. Hún virti mig ekki viðlits þegar ég opnaði hliðin og gekk hnarreist inn í hagann.

„Þetta er mitt ríki.“

—–

Tryggvi vann á rakstrarvélunum en Þorgerður fylgdi honum með hópinn á eftir sér, flekk úr flekk. Fyrstu dagana þurftu allir að vera með vettlinga þó um hásumar væri, annars yrðu eymslin vegna sprunginna blaðra  óbærileg. Allan daginn var dreifunum sem rakstrarvélarnar skildu eftir rakað saman og saxað saman við föngin og sætin sett upp hvert af öðru.

„Ekki skilja eftir neinar dreifar á túninu. Það er óþolandi sóðaskapur og illa farið með,“ sagði Þorgerður. Þetta hafði hún lært hjá föður sínum sem hafði búið á jörðinni á undan henni. Hver tugga gat skipt sköpun ef veturnir teygðu sig fram eftir vorinu og  tók fyrir alla vorbeit.

Í lok dagsins rann dalalæðan sína venjubundnu leið inn dalinn yfir Hópið norðan úr íshafinu. Fjöllin stóðu roðaslegin í kvöldsólinni upp úr hvítri þokuslæðunni sem smám saman fyllti dalbotninn þannig að ekki sást lengur yfir eyrarnar til næstu bæja. Í stillunni varð svo hljóðbært að samtöl og hlátrasköll fólksins heyrðust milli bæja í dalnum. Allstaðar var fólkið kátt að ljúka löngum vinnudegi og leggja af stað heim í kvöldmatinn.

Ari, bróðir Þorgerðar, kom alltaf norður í sumarfríi sínu til þess að taka þátt í heyönnunum. Hann var skattstjóri fyrir sunnan í orlofi og tók því fram fleyg og hellti út í kaffibollana. Ari hafði þægilega nærveru. Hann var nokkuð langleitur með dökkt hár, augum grá og gáfuleg, kíminn og kersknin aldrei langt undan og grunnt á glensinu. Skoðanir hans í þjóðmálum voru vel mótaðar og ákveðnar þannig að Tryggvi margefldist í nærveru Ara.

Þorgerður hafði soðið mikið af silungnum mínum. Það var ákveðin húsregla hvernig borða ætti silunginn. Þegar hann var settur í pottinn var hausinn skorinn af og fiskurinn síðan þverskorinn. Setja átti hausinn upp í sig í heilu lagi. Sama átti við um bitana og þeir voru því skornir í passandi stærð. Þegar búið var að sjúga matinn af beinunum var þeim skyrpt á diskinn og næsti biti tekinn.

„Það besta er næst beinunum,“ sagði Tryggi og sporðurinn stóð út um annað munnvikið. „Ef þið gerið þetta ekki svona þá erum við að henda mestu orkunni í ruslið.“

„Harla var hún nú einkennileg ræðan hennar Auðar Auðuns í útvarpinu um daginn,“ sagði Þorgerður og beindi tali sínu að bróður sínum.

„Já þetta er hárrétt,“ sagði Ari „Bygging leikskóla ætti að vera helsta baráttumál þeirra sem vilja stuðla að jöfnuði kynjanna.“

Hér var Þorgerður á heimavelli „Það er ekkert niðurlægjandi þótt konur velji það að vilja vinna heima og sjá um börnin og búið. Þórunn er greinilega einhver borgarkona og er með þessu að tala niður til kynsystra sinna. Hún er með þessu einungis að staðfesta á karllæg viðmið. Það eru margar konur sem eiga þess ekki annan kost en að vera heimavinnandi á meðan börnin eru að komast á legg. Það er engin skömm að því, þær eru þar að leggja grunninn að þessu samfélagi og vinna gegn minni ójöfnuði í samfélaginu.“

Þorgerður hélt áfram, „Konan sýnir sjálfstæði sitt þó svo hún sinni skyldum sínum, það er bara efnafólk sem hefur aðgang að leikskólum. Þær eru margar sem vinna mun betur að jöfnun kynjanna en hún Þórunn án þess að bera það á torg. Þær þurfa ekki að setja á langar ræður til þess að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.“

Að loknum kvöldverðinum lagðist Tryggvi fyrir eftir endilöngum eldhúsbekknum þannig að þeir sem þar sátu urðu að víkja. Hann kom sér vel fyrir og teygði sig upp í útvarpið og hækkaði. Fréttirnar voru að byrja. Tryggvi endursagði þær jafnharðan til þess að tryggja að allir leggðu örugglega réttan skilning í það sem fram fór í veröldinni.

„Heyrðu nú, eru Rússarnir að búnir að stinga Kanana af? Fyrst Spútnik og svo Gagarín. Nú er Kennedy að keppa við Krúsjeff og blaðrar eitthvað um að hann ætli að senda mann til tunglsins. Til hvers andskotans? Hvað haldið þið að það kosti mikið? Ég er nú ekki hissa á því að Krúsjeff fari úr skónum og banki aðeins í Kanana. Væri þeim nú ekki nær að hjálpa bændunum í Afríku um hundrað þúsund traktora og bora fyrir vatni. Ha? Krúsjeff er minn maður, hann fletti ofan af villimanninum Stalín. Það mun aldrei vaxa grasstrá á gröfinni hans Stalíns.“

Kersknin skein úr andliti hans og kímnin geislaði úr augunum, fyrirboði þess að nú ætlaði hann að fá einhvern til þess að rífast við sig.

„Heldur þú að það séu til kettir með níu rófur?“

„Nei, það er enginn köttur með níu rófur“ svaraði ég og hló með honum.

„Akkúrat. Það er enginn köttur með níu rófur. En sjáðu nú til. Kötturinn er nefnilega með einni rófu fleiri en enginn köttur. Ef enginn köttur er með níu rófur þá hljóta allir kettir að vera með tíu rófur,“ sagði Tryggvi og hló mikinn.

„Guð laun. Skál!“ sagði Tryggvi við Ara. Hann tók sér þrjár kúfullar skeiðar af sykri og hrærði vel og lengi í bollanum. Þorgerður stóð upp og hvarf inn í þvottahús.

„Ari, þið þarna fyrir sunnan viljið skattleggja allt til andskotans,“ sagði Tryggvi. „Þið verðið að átta ykkur á því að sá munur er á sveitaheimilunum og hjá ykkur í borginni, að menn hlaupa ekki fyrir næsta húshorn og kaupa sér fisksporð í soðið. Það er óraunsætt hjá ykkur að ætlast til þess að á sveitaheimilum sé geymsluaðstaða fyrir allan þann mat sem fjölmenn heimili þurfa. Því er eðlilegt að við bændurnir nýtum lítt notaðar beitarspildur til þess forða frá skemmdum þeim matvælum sem ekki komast fyrir í frystikistunni. Það eru vandaðir búskaparhættir. Þið getið ekki ætlast til þess að við séum með margar frystikistur,“ sagði Tryggvi. Hann var orðinn ör eftir að hafa kallakaffið, að auki var ekki oft að í eldhúsinu væri staddur maður sem gaman var að ræða við um landsins gagn og nauðsynjar og Tryggvi tvíefldist við hvern kaffibolla.

„Það er okkar myndist einhverjar afurðir á okkar beitarspildum sem ekki rata í pott húsfreyjunnar. Þið hjá skattinum getið ekki ætlast til þess að við séum að rugla heimilisbókhaldið með því að senda trippin í sláturhús. Þess vegna seljum við þau sem lausafjármuni til hestamanna í borginni.“

„Er það hið rétta eðli mannsins, að vera latur og ónytjungur? Allir hafa hvöt til þess að bjargast, jafnvel að verða ríkir,“ sagði Tryggvi og hélt áfram. „Ríkið hefur brugðist og lagt til hliðar samkennd og jöfnuð en látið markaðshyggjuna ráða sinni för. Stjórnmálamennirnir eru búnir að endurbæta regluverkið þannig að bændum er gert að fara út í tilgangslausar framkvæmdir ef okkur á að takast að nýta alla styrkina.

Kallakaffið gerði þá rjóða í kinnum og svitaperlurnar spruttu fram. Það var nánast sama hvað sagt var, allt virtist verða svo skemmtilegt og broslegt.

„Ég varð sko gjöra svo vel að láta grafa tveggja kílómetra langan skurð lengst upp á hálsi fjarri öllum möguleikum um ný tún. Það var ekkert pláss fyrir þennan skurð hér niður á eyrunum og að auki eru þar engir mýrarflákar. Hvað átti ég að gera?“ sagði Tryggvi í afsökunartón og sló út höndunum.

„Já, það er rétt við lifum á tímum þar sem allt er metið til silfurs og seðla og menn kalla það raunsæi,“ svaraði Ari „En það eru til verðmæti sem ekki verða metin til fjár og eru þó þau sem gefa mannlegu lífi innihald og meiningu.“

Ari fékk sér góðan sopa af kaffinu og hélt svo áfram: „Seðlarnir fúna og við líka en við komumst ekki hjá dómi komandi kynslóða um það hvernig við skilum landinu okkar í þeirra hendur. Það er hægt að bæta tjón af pólitískum afglöpum en eyðilegging á náttúrumenjum eru í flokki þeirra afglapa sem ekki verða bætt.“

„Já, en til þess að fá þennan styrk var eina leiðin grafa þennan skurð eftir endilöngu mýrarsvæði. Allir vita að þar er mófuglinn en nú er fuglinn á bak og burt, til neyddur til þess að leita á önnur mið. Skurðurinn tók sig vitanlega til og fleytt í burtu allri lífsbjörg fuglanna. Þetta eru afleiðingar gerða stjórnmálamanna sem fara einu sinni á fjögurra ára fresti út fyrir borgarmörkin. Þá til þess eins að ljúga einhverju í okkur og vita ekkert hvaða afleiðingar ákvarðanir þeirra geta haft,“ svaraði Tryggvi og lá nú mikið niðri fyrir.

„Nóbelskáldið okkar sagði nú nýverið þegar menn voru að semja um málmbræðslu í Straumsvík að okkur væri tamt að halda því fram í ferðaauglýsingum að á Íslandi gæfist tækifæri til þess að líta óspillta náttúru,“ svaraði Ari „Hið sanna í málinu er að Ísland er eina landið í Evrópu sem er gerspillt af mannavöldum. Því hefur verið spillt á umliðnum þúsund árum samtímis því að Evrópa hefur verið ræktuð upp.“

„Við komum að ósnortnu landi þegar við komum til Íslands. Vöxnu lyngi og kjarri umluktum gróðurmiklum mýrum sem voru morandi af allskonar smákvikindum sem héldu uppi fuglalífinu. En stjórnmálamenn sáu sér leik á borði á atkvæðaveiðum með því að verðlauna bændur ef þeir ræstu fram mýrar undir yfirskini túnræktar. Mýrarnar eru öndunarfæri landsins. Við ættum að verðlauna þá menn sem vilja moka ofan í skurðina,“ sagði Ari.

„Finnst þér kannski betra að Orkustofnun keyri yfir okkur með stóriðju sem knúin er afli úr straumvötnum landsins til þess að fullnægja draumi þingmanna fyrir sunnan um verksmiðjurekstur hér á landi? Stóriðju sem kemst af með sáralítinn mannafla. Sala rafmagns til Straumsvíkur verður rekin með tapi, vittu til. Þjóðartekjur okkar af álbræðslunni eru ekki aðrar en daglaun þeirra verkamanna sem þar vinna. Það er komið fram að þeir verða ekki fleiri en þeir sem starfa í meðalsveit,“ sagði Tryggvi, en hann vildi greinilega skipta um umræðuefni og skipti yfir í gamansaman tón.

„Hún er alltaf að þvælast fyrir manni þessi andskotans forsjárhyggja framsóknarstóðsins. Ég fór í vor að hitta kaupfélagstjórann okkar blessaðan og sagði honum að ég vildi taka út peninga. Ég var ákveðinn að kaupa ekki Gypsí jeppa af kaupfélaginu og vildi sýna þeim að ég gæti keypt minn fyrsta bíl af þeim sem ég vildi versla við. Ari, hvað heldur þú að kaupfélagstjórinn hafi sagt við mig? Ha, hvað heldur þú?“ sagði Tryggvi.

Hann breytti rödd sinni og hermdi eftir kaupfélagstjóranum „Hvað ætlar þú nú, Tryggvi minn, að gera við alla þessa peninga? Við erum með allar þær vörur sem þið þurfið.“

„Og þá sagði ég við hann: Þetta er mitt innlegg. Mínir peningar. Þér kemur ekkert við hvernig ég ráðstafa þeim,“ sagði Tryggvi og sló þéttingsfast í eldhúsborðið.

Tryggvi hafði allt frá æsku undirbúið þessa sjálfstæðisbaráttu. Vildi ekki sætta sig við hið fyrirsjáanlega hlutskipti ef ekkert væri að gert yrði hann áfram undirokað vinnuhjú kaupfélagsins. Hann stóð í báðar lappirnar og var sjálfstæður maður. Samvinnuhugsjónin fór visnandi og sumir fundu hjá sér þörf á því að gera upp reikningana við kaupfélagið. Tryggvi varð þannig í augum margra í sveitinni tákn baráttu hins undirokaða gegn ofríki og forsjárhyggju valdastéttarinnar. Baráttuandi, ódrepandi löngun til frelsis; þráin til þess að geta borið höfuðið hátt. Uppreisn.

„Þessir aumingjar standa enn með annan fótinn í gamla kyrrstöðusamfélaginu og hræðast hið óþekkta,“ sagði Tryggvi og var nú farinn að berja í borðið við hverja einustu setningu. „Þeir sjá ekki þörfina á því að við rífum okkur upp. Þeir halda að tilgangur breytinganna séu einungis breytinganna vegna.“

„Ari, erum við eitthvert helvítis meðaltal?“ sagði Tryggvi og hélt áfram.

„Þið þarna fyrir sunnan með allar ykkar háskólagráður eruð búnir að reikna það út að maður sem stendur með annan fótinn í ísfötu og hinn í fötu með sjóðheitu vatni hafi það að meðaltali gott. Í hvorn fótinn eigum við að stíga? Ha?“

„Ég á mína inneign fyrir mína framleiðslu af mínu landi og get ráðstafað arði minnar vinnu án afskipta kaupfélagsins,“ sagði Tryggvi. „En kaupfélagsstjórinn sagði að ég fengi enga peninga án þess að hann vissi í hvað þeir ættu að fara.“

Þorgerður var fyrir löngu komin inn í svefnherbergi og þeir urðu tveir eftir í eldhúsinu. Morgunverkin biðu og tóku ekkert tillit til þess hversu langt fram í nóttina kvöldið dróst. Náttúran togaði mig út á bæjarhólinn með sínum furðulegu kynjatónum knúnum fram af einhverju almætti samræmis sem fékk mann til þess að setjast fram á brúnina  og horfa á daginn skila sér inn í kvöldið undir dirrindí og velli fuglanna. Garpur notaði tækifærið þegar ég fór út og haltraði út til þess að pissa og stóð lengi fremst á bæjarhólnum, þefaði í allar áttir af nóttinni. Hún breiddi smám saman mjúka töfrablæju sína yfir allan dalinn undir töfraljómum nætursólarinnar. Fuglarnir héldu áfram að syngja og kvaka elsku sína yfir ungana sem földu sig í móanum fyrir rebba, kjóanum og hröfnunum. Ég gekk með hestagirðingunni. Þar reistu vinnuhestarnir snöggt upp höfuðið og brokkuðu nokkra faðma frá mér. Þeir þekktu mig. Brugðu undir sig höfðinu en reistu sig síðan. Sperrtu eyrun, fnæstu og störðu á mig.

„Fáum við frið?“ stóð í augum þeirra.

Rykið sem þyrlaðist upp þegar ég gekk um skraufþurra moldargötuna glóði í sólinni og varpaði smáum skuggum á götuna eitt andartak áður en þeir leystust sundur og hurfu inn í nóttina. Ég fór úr skónum og gekk berfættur í dögginni í grasinu og sterk lykt af þurri töðunni fyllti vitin. Það var eitthvað svo þægilegt hvernig grasið tróð sér óboðið milli tánna og þær svöruðu með því að slíta upp stráin.

Á bæjarhólnum framan við bæinn stóð stoltur nýr hergrænn Rússajeppi.

Guðmundur Gunnarsson, Herðubreið, júlí 2015

1,399