trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 09/07/2015

Sumarlesning Herðubreiðar (V): Þegar lögreglan beitti táragasi á landleguballi á Siglufirði

Mig hafði lengi langað að fara til Siglufjarðar í síld, því miklar sögur fóru af lífinu þar. Mér fannst spennandi að fá að kynnast lífinu í síldarbænum af eigin raun, meðan á síldarævintýrinu stóð. Sumarið 1959 gafst mér svo tækifærið, en þá var síldin farin að minnka fyrir Norðurlandi og straumurinn af fólki frá öllum landshornum, sem vildi fara höndum um silfur hafsins, því ekki eins mikill. Það vantaði fólk á plan sem Fiskiver á Akranesi starfrækti og þegar mágkona mín bauðst til að taka að sér heimilið, sló ég til og lét drauminn verða að veruleika.Bjarnfríður Leósdóttir

Þegar ég kom til Siglufjarðar var niðaþoka yfir öllu. Ég sá glitta í fjall hinum megin við fjörðinn og fann að eitthvert ferlíki var fyrir ofan mig. Það sótti að mér sterk innilokunarkennd. Mér fannst óþægilegt að hafa svona þröngt í kringum mig, enda alin upp á flatneskju þar sem fjöllin eru mátulega langt í burtu að mínu mati. Ég hafði aldrei áður búið í bragga. Við sváfum í kojum, fjórar saman í herbergi, allt konur frá Akranesi og varð stundum svolítið ónæðissamt.

En ekki kom síldin. Ég hafði því nógan tíma til að skoða mig um eftir að þokunni létti. Mér fannst ljóminn yfir staðnum minni en ég hafði gert mér í hugarlund. Frá bryggjunni og upp í fjall var bara ein gata. Það var allt og sumt. Úr frásögnum af Siglufirði hafði Hvanneyrarskálin yfir sér mikinn ljóma. Þar gerðust ævintýrin sem sungið var um í dægurlögunum. Ég fór auðvitað upp í Hvanneyrarskál að skoða staðinn þar sem síldarstúlkur og síldarsjómenn felldu hugi saman. Ég var gift kona og þriggja barna móðir, og ekki beint í leit að ævintýrum, þó ég viðurkenni að innst inni dreymdi mig um að finna eitthvað af því, sem hafði verið gert svo heillandi. Ljóð og söngvar gefa hlutunum töfrablæ sem ég vildi síst vera án. En auðvitað finnur maður ekkert.

Mér fannst gaman að fylgjast með mannlífinu í bænum. Þarna ægði saman alls kyns fólki og sumt var ef til vill í sömu erindagjörðum og ég. Þegar hálfur mánuður var liðinn, höfðum við aðeins einu sinni verið kallaðar í söltun. Þá saltaði ég í sex tunnur að mig minnir. Silfur hafsins lét á sér standa þegar ég mætti galvösk til leiks.

Það var komin helgi og landlega á bátaflotanum vegna brælu. Um kvöldið átti að sjálfsögðu að vera ball á Hótel Höfn. Ég vildi ólm komast á landleguball og labbaði niður í bæ til að ná mér í miða, en þeir voru allir löngu uppseldir. Ég var vonsvikin að komast ekki á ballið, komin alla leið norður í fjörið á Siglufirði, og er að rölta um bæinn, þegar ég hitti kunningjafólk frá Akranesi sem var í skemmtiferð, ásamt hóp af Akurnesingum. Þau bjóða mér að koma með sér heim til vinafólks síns og ég borða með þeim kvöldverð. Síðan er mér útvegaður miði á ballið, því fólkið var allt komið með miða.

Við fórum svo niður á Hótel Höfn. Þar er allt orðið troðfullt og góð stemning. Við skemmtum okkur vel og ég dansa mikið. En allt í einu finn ég skrýtna lykt og dettur fyrst í hug að kviknað sé í húsinu. Ég ákveð strax að vera róleg og sýna stillingu, og hvísla að manninum sem ég er að dansa við hvort hann finni ekki undarlega lykt. Þá voru allir búnir að finna hana og greip mikil ringulreið um sig í húsinu. Lyktin stafaði af táragassprengju sem lögreglan hafði kastað, til að reyna að hemja mannfjölda sem stóð fyrir utan hótelið og reyndi að komast inn. Það voru víst nærri tvö þúsund manns, því í höfninni lágu hvorki meira né minna en hundrað og fimmtíu síldarbátar.

Allir hættu að dansa og þustu fram í anddyri, en þar var búið að brjóta stóra rúðu sem var eftir allri lengd þess. Fyrir utan sáum við æstan mannfjöldann troðast og æpa með brennivínsflöskur á lofti. Lögreglan reyndi að ráða við múginn með kylfum, en það bar lítinn árangur. Ég þorði ekki fyrir mitt litla líf að fara út í þessi ósköp og ætlaði frekar að hörfa inn í danssalinn aftur, en vissi ekki fyrri til en einn úr kunningjahópnum vippaði mér út um brotna gluggann og út á götu. Skömmu seinna lét hurðin undan þrýstingnum og mannfjöldinn ruddist inn í húsið og braut þar allt og bramlaði. Það var því lán að við komumst út í tæka tíð.

Ég var bara á kjólnum því ég gat ekki náð í úlpuna mína í hamagangnum. Það fyrsta sem ég sá var kona í grænni dragt sem lá á götunni og blóðið lagaði niður í þessa fínu dragt. Hún var hágrátandi og fólk stumraði yfir henni, því hún hafði fengið flösku í höfuðið. Ég varð miður mín út af konunni og að vera að asnast á þennan dansleik, og fór að hugsa heim til barnanna minna. Ef eitthvað kæmi nú fyrir mig eins og þessa konu. Ég var ákveðin í að forða mér heim í bragga sem fyrst og gekk upp götu með fólkinu.

Þá mættum við mjög drukknum sjómanni sem sagði við okkur: „Hvað er eiginlega að ske? Er komin þjóðhátíð?“ Ég býst við að hann hafi verið frá Vestmannaeyjum og fundist stemningin þjóðhátíðarleg. Okkur fannst þetta svo fyndið að brúnin léttist heldur betur á okkur, og ég fór aftur heim með fólkinu. Daginn eftir fór ég niður á Hótel Höfn að ná í úlpuna mína og frétti að allt hefði verið gereyðilagt í húsinu; stólar og borð brotin og meira að segja ljósakrónur dregnar niður. Talið var að þetta hefðu verið mestu landleguslagsmál í sögu Siglufjarðar. Annar eins mannfjöldi hafði aldrei verið saman kominn í skemmtanahugleiðingum, enda ekki verið gripið til táragass á Íslandi nema í þetta skipti, á Friðardaginn 1945 og á Austurvelli 1949, að því er ég held.

Út um gluggann á bragganum sáum við bátana í höfninni og var fyndið að fylgjast með sjómönnunum daginn eftir. Einn sáum við dröslast upp úr bát í niðurbrettu klofstígvéli á öðrum fæti og blankskóm á hinum. Ég hitti ungan Akurnesing sem ég reyndi að hjálpa. Hann var illa á sig kominn og jakkinn svo rækilega rifinn að hann hékk rétt saman á kraganum.

Nú var ég búin að fá nóg af Siglufirði í bili, og spurði Akurnesingana hvort væri laust sæti í rútunni hjá þeim. Jú, jú. Þau höfðu laust sæti og ég fór með þeim heim á mánudagsmorgun, með létta pyngju en reynslunni ríkari. Ég saltaði aðeins í sex tunnur, en fékk að taka á stóru demantssíldinni sem var ólík smásíldinni sem kom á land á Akranesi. Það var ólíkt minna erfiði að salta stóru síldina og fékkst meira fyrir, því borgað var fyrir hverja tunnu. Þrjú hundruð síldar gátu farið í eina tunnu af Siglufjarðarsíld, en allt upp í eitt þúsund af Suðurlandssíldinni sem ég var vön að vinna við.

Elísabet Þorgeirsdóttir, Í sannleika sagt, lífssaga Bjarnfríðar Leósdóttur (Forlagið, 1986)

1,260