Ritstjóri Herðubreiðar 19/07/2015

Sumarlesning Herðubreiðar (IX): Faðirvorið í bundnu máli

Í Sjálfstæðu fólki segir einhvers staðar að Bjartur í Sumarhúsum hafi aldrei nennt að læra Faðirvorið, enda þyki honum lítið til frelsara koma sem ekki getur barið saman rímaða bæn. Þess vegna hefur blundað í mér alllengi forvitni um það hvernig Faðirvorið gæti hljómað í bundnu máli. Ég er áreiðanlega ekki sá fyrsti sem gerir tilraun til að „yrkja Faðirvorið“, en hér er mín auðmjúka tilraun:Davíð Þór Jónsson

Faðir vor

.

Faðir vor á himnum háa,

hlustaðu‘á mig, barnið smáa,

lofa heilagleika þinn.

Veröld öll þitt verði ríki,

vilja þinn ei framar svíki,

himnafaðir hæsti minn.

.

Hlotnist mér að bíta‘og brenna,

bróður minn og systur kenna

manni hverjum mennskum í.

Ger oss fólk sem fyrirgefur.

Fyrirgefið allt þú hefur.

Ávallt fagni‘ég undri því.

.

Hið illa‘og ljóta ei mín freisti.

Í mér blómstri ljóssins neisti.

Ger oss laus við lygi‘og fals.

Þú við börnin þín sért sáttur.

Þín er dýrðin öll og máttur.

Sannlega‘er það sannast alls.

Davíð Þór Jónsson

Avatar
Latest posts by Ritstjóri Herðubreiðar (see all)
0,789