trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 06/07/2015

Sumarlesning Herðubreiðar (II): Tólgarmálið í Trékyllisvík og stjörnuvitni ákæruvaldsins

Guðmundur Guðmundsson vinnumaður í Ingólfsfirði (og síðar bóndi í Stóru-Ávík) háði harða glímu við samviskuna á jólaföstunni 1866. Hann hafði orðið vitni að glæp, hvorki meira né minna, og hann vissi að þögnin gerði hann samsekan. Því fór svo að Guðmundur settist við dálitla grútartýru tveimur dögum fyrir jól, páraði bréf til hreppstjórans og létti á hjarta sínu.Hrafn Jökulsson

Hreppstjórinn í Árneshreppi las bréf vinnumannsins í Ingólfsfirði, og fékk staðfestingu á því sem sveitin hafði hvískrað um síðustu vikurnar. Hreppstjórinn hugsaði málið í sex vikur og skrifaði svo sjálfum sýslumanni Strandamanna sem sat að Bæ í Hrútafirði. Svo er að sjá að bréfið hafi verið sjö vikur á leiðinni þennan spöl, en eftir að kvörn réttlætisins var á annað borð komin af stað gat enginn mannlegur máttur stöðvað hana. Minnisstæðasta glæpamál Árneshrepps á 19. öld var í þann veginn að upplýsast.

Í lok maí var Sigurður E. Sverrisson sýslumaður kominn alla leið norður í Trékyllisvík og þar var réttur settur. Fyrsta vitnið var Guðmundur Guðmundsson vinnumaður.

—–

Um haustið hafði danska kaupskipið Anna Emilie strandað við Drangahlíð í fárviðri, drekkhlaðið ull, tólg og lýsi og var farmurinn metinn á heila 40 þúsund ríkisdali. Af níu manna áhöfn fórust fimm, þeirra á meðal skipstjórinn P.S. Smith og verslunarmaðurinn Wulff, og voru þeir jarðsettir í Árneskirkjugarði í Trékyllisvík.

Nokkuð af góssinu úr Önnu Emilie rak á fjörur og var haldið uppboð á strandstað, 6. október 1866, sem skilaði 1350 ríkisdölum; um þremur prósentum af andvirði farmsins. Uppboð voru á þessum tíma einhver helsta skemmtun sem hægt var að hafa í fásinninu og komu menn um langan veg til að bjóða í strandgóssið – en fljótlega fékk sá kvittur byr undir báða vængi að einhverjir hefðu gerst fingralangir í fjörunum undir Drangahlíð og að ekki hefði allt góssið skilað sér á uppboð sýslumanns.

Og þá erum við aftur komin að Guðmundi Guðmundssyni vinnumanni. Hann upplýsti fyrir réttinum að Jón Jónsson bóndi á Eyri hefði „fengið sig léðan ásamt bát til þess, einsog Jón bóndi hafði að orðið kveðið, að sækja spýtnarusl norður að Dröngum sem hann hefði keypt á uppboðinu.

Þeir Jón og Guðmundur réru frá Eyri að Dröngum en komu við á Seljanesi „og hafi Jóni, sem er hneigður fyrir brennivín, verið gefið þar brennivín svo hann hafi orðið til muna kenndur.“

Enn gerðu þeir félagar hlé á róðrinum til að taka land undir Drangahlíð, en þar reyndist Jón hafa borið saman og huslað tólg – strandgóss úr Önnu Emilie. Jón upplýsti Guðmund um að hann hefði falið tólgina þegar hann var á ferð á uppboðið og notið aðstoðar Guðmundar bróður síns á Melum og Arngríms Alexíussonar vinnumanns á sama bæ.

Allt þetta tíundaði Guðmundur Guðmundsson vinnumaður af mikilli nákvæmni í réttarhöldunum í Trékyllisvík, og því varð fátt um varnir þegar sökudólgarnir voru kallaðir fyrir sýslumann. Að vísu var minni þeirra dálítið gloppótt, enda virðast þeir hafa verið komnir alllangt undir væng óminnishegrans þegar þeir báru tólgarkubbana úr fjörunni. Þeim bar hinsvegar saman um að líklega hefðu þetta verið ein 20 kíló, sem metin voru á ríflega 6 ríkisdali, og hafði sýslumaður hliðsjón af því þegar hann kvað upp dóm sinn.

Jón Jónsson var höfuðpaurinn í málinu – „hvatamaður til tólgarstuldarins“ – og að auki var komið á daginn að hann hafði hirt skóflu úr fjörunni og þótti sýslumanni allt benda til þess að skóflan hefði komið úr hinu strandaða skipi. Sigurður sýslumaður taldi hæfilega refsingu fyrir svo voðalega glæpi 54 vandarhögg, sem greidd skyldu í tvennu lagi. Guðmundur á Melum og Arngrímur vinnumaður voru dæmdir í 27 vandarhögg hvor, þó þeir hefðu aldrei séð örðu af tólginni, og það er síðan til marks um fullkomið vanþakklæti sýslumanns – eða hið blinda réttlæti miðaldanna sem enn var við lýði – að Guðmundur Guðmundsson vinnumaður skyldi hýddur 10 vandarhöggum.

—–

Tólgarmálinu í Trékyllisvík var áfrýjað til Landsyfirréttar, sem var æðsta dómstig á Íslandi, og þar var kveðinn upp ögn mildari dómur í janúar 1869. Nú var Jón á Eyri dæmdur til að þola 15 vandarhögg en þeir Guðmundur og Arngrímur á Melum 10 hvor, en Landsyfirrétti fannst ekki tilhlýðilegt að hýða stjörnuvitni ákæruvaldsins og upphafsmann málsins, og því slapp Guðmundur Guðmundsson undan svipunni. Honum var hinsvegar gert að greiða hluta málskostnaðar, sem var nákvæmlega tíu sinnum meiri en andvirði tólgarinnar.

Sigurður sýslumaður var enn á ferð í Trékyllisvík sumarið 1869 til að framfylgja dóminum, og hinn 15. júlí fengu hryggsúlur Melamanna að kynnast svipunni. Jón Jónsson á Eyri sinnti í engu boði sýslumanns um að mæta til athafnarinnar og þar var ekki fyrren 19. október 1870 sem böðullinn loksins reiddi svipuna á loft – og mun þetta hafa verið síðasta opinbera hýðingin á Íslandi.

Hrafn Jökulsson, Þar sem vegurinn endar (Skuggi, 2007)

1,292