trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 05/07/2015

Sumarlesning Herðubreiðar (I): Hvernig ómagarnir urðu ríkir og jafnharðan bláfátækir aftur

Búlandsnesið er Kristfjárjörð. Flestöll skjöl varðandi þessa jörð, sem lengstaf var talin hin tíunda verðmætasta á Íslandi, eru löngu týnd, þau sem varða eignarhald Krists á jörðinni. Í Fornbréfasafninu getur þó að finna skrif Gissurar biskups Einarssonar frá árinu 1541 um þessa eign, sem sennilega hefur lent í umsjá kirkjunnar löngu fyrir siðaskipti. Hitt er ljóst að einhver eigandi jarðarinnar til forna gaf hana fátækum í Geithellnahreppi fyrir sálu sinni.Stefán Jónsson

Fátækir hétu þeir samkvæmt fornri skilgreiningu, sem ekki gátu framfleytt sér af eigin rammleik. Hreppsómagarnir í sveitinni hafa þá tæpast verið fleiri en sex að tölu og voru þar með alls ekki fátækir lengur, heldur orðnir ríkustu menn á Austurlandi. Nú var forsjármönnum Geithellnahrepps vandi á höndum, að sjá farborða sálu gefandans, því tæplega kæmist hún í heimavist með englum, ef auður hans hafnaði af bókhaldslegum og lagalegum ástæðum hjá ríkismönnum.

Neyttu hreppsnefndarmenn vitsmuna og svo þess að hreppsómagar voru hvorki sjálfráða né fjárráða að lögum. Komu þeir málum fyrir á þá lund, að þiggjendur þessara auðæfa héldu áfram að vera fátækir og urðu þó eigendur að tíundu dýrustu eign á Íslandi. Í fundargerðarbók hreppsnefndar mun hafa verið færð samþykkt á þá lund, að sökum ósjálfræðis og ófjárræðis hinna fátæku og vegna sálarheillar gefanda skyldi hreppsnefndin annars yfirráð eignarinnar og ráðstafa arðinum á þá lund, að hreppsómagar héldu áfram að vera fátækir. Búlandsnesinu var því skipt með gögnum og gæðum milli hreppstjóra og oddvita, og skyldu þeir í staðinn deila með sér framfærslu ómaganna.

Ekki hef ég af því að segja, að þessir forríku sveitarlimir í Geithellnahreppi hafi átt við þrengri kost að búa en gerðist um snauða ómaga annarra sveitarfélaga. Það er á hinn bóginn ljóst af heimildum, að arðurinn af þessari stóreign hefði mátt endast til þess að halda mjög marga sveitarlimi all ríkmannlega á þess tíma mælikvarða, en einnig það hefði kannski getað skemmt skrattanum og komið umræddri sál í vanda, enda áttu menn ekki neitt á hættu með það.

Þegar fram liðu stundir var vörslu eignarinnar breytt á þá lund, að létt var á hreppstjóra og oddvita þeirri kvöð að hafa sjálfir sveitarómaga á framfæri sínu persónulega, heldur guldu þeir leigu, hvor fyrir sinn hluta eignarinnar. Hreppsnefndin skipti síðan upphæðinni í meðlög með ómögunum og arðshlutur þeirra af eign sinni færður þeim til skuldar, rétt eins og þeir ættu alls ekki Búlandsnesið. Höfund brestur guðspekilega þekkingu til að álykta um það, hvernig hertar ráðstafanir valdsmanna til að varðveita fátækt erfingjanna kunni að hafa plumað sig upp á sálarheill hins látna auðmanns, en svo fór um það er lauk, að hreppsnefndin svipti fátæka endanlega þessari eign sinni.

Það gerðist í mínu minni á stríðsárunum síðustu. Þá var Geithellnahreppi skipt með eignum og skuldum og Búlandsnesið þaðan í frá látið heita eign nýja sveitarfélagsins, Búlandshrepps. Ég vil ekki nefna þennan verknað forvina minna og frænda í Geithellnahreppi neinum leiðinlegum nöfnum, heldur einungis leyfa mér þá getgátu, að einmitt þannig kunni nú einmitt að standa á þessu þrotleysi fátæktarinnar í öllum heiminum, að það eru gjarnan þeir snauðu sem stolið er frá, sínu litlu frá hverjum, og safnast þegar saman kemur. Hér hafa menn steytt á sömu steinunum og hin síðari árin í tilraunum sínum til þess að bæta öðru fremur hag þeirra fátækustu við gjörð kjarasamninga. Forrit mannlífskerfisins byggir á því, að sumir skuli eiga meira en aðrir, og því verður ekki haggað nema með því að skipta um forritið. Þess eru dæmi að slíkt hafi verið reynt með þeim árangri, að aðrir urðu þá ríkari en sumir, sem var víst reyndar ekki ætlunin.

En þetta dæmi um vandræðaskapinn út af ríkidæmi fátækra í Geithellnahreppi finnst mér frásagnarvert, vegna þess hve sjaldgæft það hlýtur að vera, að tilölulega margir bjargálna geti kynslóðum saman haft mjög mikið af sárafáum fátæklingum.

Stefán Jónsson, Að breyta fjalli (Svart á hvítu, 1987)

1,230