Stjórnmálalæsi
Þessa dagana er mikið rætt um byrjendalæsi sem mér þykir illa smíðað orð og ekki auðskiljanlegt. Einkum þegar það er komið í setningu eins og þessa úr Fréttablaðinu í morgun … einkunnir barna í skólum með byrjendalæsi … vegna þess að það er ekki alveg á hreinu hvað verið er að fjalla um; eða hvað er skóli með byrjendalæsi?
Þetta plagar mig þó ekki úr hófi. Það er annars konar læsi sem ég tel ástæðu til þess að hafa áhyggjur af. Reyndar ólæsi; pólitískt ólæsi stjórnmálamanna. Það gerir að verkum að þeir átta sig hvorki á þeim málefnum sem þeir eru að fást við né á þankagangi þjóðar sinnar. Frægt varð þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra sagði á vordögum að Íslendingar ættu að vera bjartsýnir og jákvæðir, en væru það ekki vegna þess að skynjun þeirra á raunveruleikanum væri röng, það væri rof á milli raunveruleika og skynjunar hjá þjóðinni. Ekki hjá honum. Nei.
Ásmundur Einar Daðason, aðstoðarmaður forsætisráðherra hefur að undanförnu skrifað orðmargar en innihaldslausar greinar um Landsbankann og verðtryggingu. Um hvort tveggja er til mikil vitneskja og langur skýringatexti. Ef hann hefur kynnti sér það sem fyrir liggur hefur hann ekki skilið það. Þá vantar hann lesskilning, aðstoðarmanninn.
Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar alþingis hefur frá fyrstu dögum sínum í stjórnmálum látið mikið fyrir sér fara. Hún er ekki hlédræg. Hún talar. Og hefur sterkar skoðanir á öllu mögulegu þó að hún viðist stundum ekki vita hvað hún er að tala um. Þessa dagana er hún að fimbulfamba um málefni öryrkja, en hvaðeina sem hún segir er rekið öfugt ofan í hana aftur. Formaður fjárlaganefndar er ólæs.
Pólitískt ólæsi er hættulegt.
- Sálumessa - 02/07/2020
- Umhverfisvændi - 21/04/2020
- Er brennivínið besti kostur? - 26/03/2020