Sterki maðurinn
Árið fjögur hundruð og fjörutíu samþykkti Rómakirkjan að telja lausnarann fæddan tuttugasta og fimmta desember árið eitt. Hún gerði það til þess að yfirtaka hátíðir sem mannkynið hafði haldið öldum saman til þess að fagna hækkandi sól á norðurhveli. Síðar bætti kirkjan í samráði við kaupmenn einum degi framan við fæðingardaginn til þess að gera afmælið að kauptíð og öðrum aftan við svo að trúboðarnir gætu talað oftar og lengur.
Nú er mál-tíð presta. Á afmælinu fá þeir inni í útvarpi og sjónvarpi og blöðum. Það láta flestir átölulaust, jafnvel hinir trúlausu. Þetta er eitthvað sem maðurinn lætur yfir sig ganga og hlustar. Og það er margt að heyra í málæði, sumt fallega sagt en margt án samhengis. Biskupinn talar um aukna fátækt en biður um peninga til að setja í kirkjubyggingar. Hann talar um gildi fjölmenningar en telur nauðsynlegt að íslenska aðflutta fólkið með því að auka því kirkjusókn.
Og hann er ekki einn, biskupinn. Þeir eru allir að, undirsátar hans. Meðal annars Bláfjallapresturinn sem svalaði sýnihneigð sinni hér um árið með því að boða kristni í skíðabrekkum. Nú talaði hann úr kirkju um þá hörmung að stjórn Reykjavíkurborgar muni amast við kirkjuklukknasöng. Sem hún hefur ekki gert. Hann skrökvar.
Og hann talar meira og biður um sterka manninn. Biður um sterkan leiðtoga. Biður um sterkan foringja sem leiði þjóðina út úr myrkrinu. En þar er hún, sagði hann í afmælinu. Í myrkrinu.
Eins og þjóðin veit er umræddur klerkur frímúrari en ekki bara skíðaprestur, sóknarprestur, sálusorgari, módel og trúboði. Með alla þessa titla í bak og fyrir kallar hann á sterka manninn. Er það vegna þess að hann þekkir ekki sögu þess hróps með mönnum. Veit hann ekki af Hitler, Mússúlíní, Frankó og öðrum sterkum mönnum Vestur-Evrópu, sem kallað var eftir áður og fyrr? Þekkir hann virkilega ekki afleiðingar þess að þeir svöruðu kallinu? Veit hann ekki hvers hann er að biðja?
Ellegar.
Vill hann þetta? Er hann kannski hrópandinn? Fyrirrennarinn? Er hann með ákveðinn mann í huga? Stórmeistara Frímúrarareglunnar? Biskupinn yfir Íslandi? Nýkrossaðan Sigmund Davíð? Varla. Þá hefði hann sagt það fullum stöfum til þess að tryggja sér skjól undir pilsfaldi sterka mannsins ef hann hlýddi kallinu.
Þegar ólíkindatillögur líta dagsins ljós búa oftar en ekki ólíkindi að baki. Þess vegna leyfi ég mér að halda að séra presturinn hafi verið að kalla á sjálfan sig, tala til sjálfs sín, kalla eftir sjálfum sér. Að minnsta kosti ætla ég að leyfa mér að halda að það hafi verið þannig meint hjá honum. Ákallið. Þá er þetta hættulaust hjal því að fáir trúi ég að muni koma í kórinn.
Gleðilegt nýtt ár og höfum hugfast að það ber að hindra upprisu sterka mannsins. Alla tíð.
- Sálumessa - 02/07/2020
- Umhverfisvændi - 21/04/2020
- Er brennivínið besti kostur? - 26/03/2020