trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 14/06/2014

Stephen Fry eða Berlusconi? Rúgbrauð með rjóma eða ítalskt grappa? Flóknasti leikurinn á HM í Brasilíu hingað til

Sérfræðingateymi Herðubreiðar skiptist í tvo jafnstóra hópa um úrslitin í leik Englands og Ítalíu í kvöld. Röksemdir eru ýmist sóttar í heitar ástríður eða ískalt raunsæi. Þetta er greinilega einn af flóknari leikjum keppninnar.Fry og Berlusconi

Bragi Valdimar SkúlasonBragi Valdimar Skúlason telur þjóðeinkenni Ítala munu reynast þeim dýrkeypt: „England tekur þetta, af þeirri einföldu ástæðu að Ítalirnir verða of uppteknir við að horfa á sjálfa sig á risaskjánum fyrir ofan völlinn. Þessir Rómverjar eru klikk.“

Þóra HallgrímsdóttirÞóra Hallgrímsdóttir kýs mýkt og mannúð: „England gegn Ítalíu er eins og Stephen Fry gegn Silvio Berlusconi (þó hann hafi haft það auga að ráða Marco van Basten í Milan ’87). Það er Fry. Alltaf Fry.“

Pétur TyrfingssonPétur Tyrfingsson er ekkert fyrir mýkt: „Því miður hefur harður bisniss og alþjóðahyggja kapítalsins eyðilagt enskan fótbolta. Auðjöfrarnir ráða öllu og kaupa heldur leikmenn héðan og þaðan í stað þess að ala upp ungviði þjóðarinnar og gefa því tækifæri. Enska úrvalsdeildin er úrvalsdeild alþjóðlegra fótboltafélaga. Innfæddir engilsaxar troðast auðvitað undir í þessari samkeppni. Enda dvínar áhugi alþýðudrengja á að stunda fótbolta þar í landi af metnaði umfram leik og skemmtun. Kapitalið á úrkynjunarstigi sínu eyðileggur allt sem er menningarlegt. Það eru einsog hver önnur svik að halda ekki með, spá og viðurkenna ekkert annað en sigur Englendinga gegn einhverjum hallærislegum Dressman-auglýsingum úr landi Berlusconis!!! Og jafnvel þó þeir tapi þá hafa þeir samt unnið 2-1 alveg sama hvernig leikurinn fer.“

KolbeinnKolbeinn Óttarsson Proppé er tvístígandi, en pönkið vinnur: „England 1 – 0 Ítalía. Úff, þetta er erfitt. Hárgel gegn hárígræðslu. Ég hef áður sagt að allir spádómar eigi að byggjast á stuðningi og óskum og það er erfitt að óska þessum liðum nokkurs árangurs. Líklega ætti maður að halda með Englandi, hafandi glápt á enska boltann, en það er bara eiginlega ekki hægt. Það er þó skömminni skárra að styðja þá en Ítalina. England fær minn stuðning, en bara fyrir pönkið og landlægt tannleysi.“

Þorgeir TryggvasonÞorgeir Tryggvason er glöggur bókmenntaskýrandi: „Ítalski þjóðsöngurinn er mjög ítalskur. Og í textanum kemur fram að sjálf sigurgyðjan – Viktoría – er rómverskur þræll. Það er nefnilega það. Englendingar syngja hinsvegar:

Rúgbrauð með rjóma á,

rúgbrauð með rjóma á

það er gott að fá.

Þetta var fyrsta vers,

svo kemur annað vers

og það er alveg eins.

Öll vitum við að enska versið hefur verið óbreytt í hálfa öld, og þó rúgbrauð sé þrumufæða þá er rjóminn ekkert að vinna með Rooney. Ítalskur sigur.“

Hildur SverrisdóttirHildur Sverrisdóttir átti góða æsku: „Ég var á Ítalíu þegar þeir unnu heimsmeistaratitilinn 1982. Allt ætlaði um koll að keyra á troðfullum götunum og ég þá að verða fjögurra ára ku hafa haft á orði að mér þætti þetta ekkert sérstaklega skemmtilegt og heldur of hávaðasamt leikrit. En minningin er nú samt góð og mótaði eindreigna slagsíðu með Ítalíu í öllum heimsmeistarakeppnum síðan. Forza Italia!“

Ingunn SnædalIngunn Snædal spáir frá hjartanu: „Ítalir munu klárlega vinna. Þeir líta betur út í stuttbuxum – og jakkafötum – og það gefur þeim sjálfstraust og þá er helmingur baráttunnar unninn fyrirfram. Svo heita þeir svo femínískum nöfnum – Andrea og Daníela og Mattia, það er eitthvað við það, einhver kvenleg hlið sem hlýtur að vera styrkjandi. Englendingar hafa óhrjálegt og gisið þriggja daga skegg og svo dragnast þeir með leifar af svo skelfilegri heimsvaldastefnu um ökklana og hún íþyngir þeim. Auk þess hef ég verið á Ítalíu. Maturinn er dásamlegur. Svo hef ég líka farið til Englands.“

Eiríkur JónssonEiríkur Jónsson er mjög afgerandi: „Öfugt við Ítali eru Englendingar ekki mjög góðir í fótbolta – né öðru. Þeir hafa keyrt sitt veldi á auðlegð annarra þjóða um aldir og gera enn í ensku úrvalsdeildinni. Pantið rétt dagsins á enskri krá og svo á annarri á Ítalíu. 10-0 fyrir Ítalíu.“

HeimirHeimi Björn Janusarson langar í Landrover: „Ítalskt grappa eða enskt viskí, þar stendur grappan sterkari að vígi. Ítölsk vín eða enskur bjór, þarf að ræða það eitthvað? Landrover eða Fiat – OK mig langar í Landrover. England–Ítalía, hvorugt með ess í nafninu en bæði eiga ýmislegt gott, þannig að niðurstaðan er eitt eitt.“

Í þessari flóknu og viðkvæmu stöðu kann að vera gagnlegt að bera liðin tvö saman myndrænt. Virðum fyrir okkur yfirbragð þeirra á meðfylgjandi mynd. Hvort liðið er á leið á alvarlegt fótboltamót og hvort að fara í gott frí til Bahama?

England–Ítalía

Flokkun : Efst á baugi
1,763