Spurn
Núorði dregur ferðamennska betur í þjóðarbúið en aðrar atvinnugreinar. Meginástæðan fyrir áhuga útlendinga á landinu eru víðáttur þess, óbyggðir og óspillt náttúra. Ríkisstjórnin veit þetta. Samt rífur hún upp rammaáætlun um virkjanir og línulagnir sem augljóslega munu spilla náttúrunni, draga úr ferðamennsku og lækka þjóðartekjur.
Ríkisútvarpið eitt fjölmiðla sagði frá því í síðustu viku að hér væri staddur útlendingur sem færði rök fyrir því að vitlegt væri fyrir okkur að friða miðhálendið. Breyta því í þjóðgarð. Það væri besta tryggingin fyrir því að ferðamenn héldu áfram að koma hingað til lands.
Sömu daga og Útvarpið greindi frá þessu sagði það og frá öðrum útlendingi sem hér var og flutti sannfærandi rök fyrir því að við ættum að selja fiskveiðiheimildir á markaði. Það myndi afla ríkissjóði verulegra tekna. Ef menn vildu fara varlega væri ráðlegt að byrja á því að bjóða upp makrílkvótann og laga síðan framtíðar uppboðsskilmála að reynslu sem þá fengist. Þetta heyrðu ráðherrarnir áreiðanlega. En þeir gera ekkert með það. Þeir hafa ákveðið að afhenda útgerðinni veiðileyfi fyrir slikk.
Það er vitað að skattaþjófar „eiga“ misvel fengna miljarða á reikningum á Tortóla. Í meira en hálft ár hefur fjármálaráðherra gefið þjófunum færi á að fela féð annars staðar og dregið að veita skattinum heimild til þess að kaupa gögn um það hverjir þetta eru. Nú hefur umræða um þjófana kafnað í orðræðu um daglega handvömm ráðherra í öðrum málum.
Það er alkunna að það vantar fé til viðhalds ferðamannastaða, til byggingar Landsspítala, til endurreisnar tryggingakerfisins, til viðgangs skólakerfisins og til greiðslu erlendra skulda. Peningurinn til þess arna bíður þess eins að verða sóttur. Því er spurt, hvers vegna leggur engin þingmaður fram ályktunartillögu um friðun miðhálendisins, um uppboð á aflaheimildum, um að ríkið kaupi upplýsingarnar um skattaþjófa?
Það sýnist ætla að verða nægur tími til þess arna þar sem allt bendir til þess að þingið sitji á rökstólum út sumarið að sögn forsætisráðherra.
- Sálumessa - 02/07/2020
- Umhverfisvændi - 21/04/2020
- Er brennivínið besti kostur? - 26/03/2020