trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 09/02/2017

Sonnetta

Og Veðurstofan varar enn við stormi
því vindum stríðum suðrið óstöðvandi
í erg og gríð nú andar hér að landi
og ekki nema von að maður dormi,

og almennt sé í frekar slöppu formi
í fjúki, slyddu, él og hagli’ og krapi
sem lýsir sér í leiðinlegu skapi
og löngun eftir annars konar normi.

Lóan mín góða, hvenær kemur þú
og kveður burt norðanátt með nístingskalda,
hraglanda og kvef, með ljúfu ljóðin þín?

Komdu með vorið, kærleik, von og trú,
krókusa og sól með geisla sína valda.
Sólin er nefnilega lífgjöf mín.

Guðmundur Andri Thorsson
Flokkun : Ljóðið
2,611