Sólstafir
Þótt farið sé að bera á landflótta héðan á nýjan leik koma samt alltaf einhverjir til baka með reynslu, kunnáttu og mannvit. Það er dýrmætt. Einn slíkur, sem starfað hefur erlendis í áratugi og unnið sér slíkt traust og virðingu þar að honum var falið að stýra einhverju virtasta sjúkrahúsi heimsins, Karólínska í Stokkhólmi, er kominn heim. Þetta er Birgir Jakobsson, sem við höfum nýskeð fengið yfir okkur sem landlækni. Það hefur þegar hvesst umhverfis hann. Það er gott.
Í Fréttablaðinu í dag, 15.05.´15. er stutt og greinargott viðtal við Birgi. Þar kemur fram að hann hefur á fáum vikum náð að átta sig á því hvað er gott við íslenska heilbrigðiskerfið og hvað úr lagi gengið. Hann segir, sem satt er, að heilbrigðiskerfið hafi orðið illa úti í Hruninu, en bætir því við að vandi þess hafi ekki byrjað þar. Vandinn er sá sami og hann var þegar hann var við störf hérlendis 1988.
„Við notuðum ekki góðærið til að bæta lestina í íslenskri heilbrigðisþjónustu og gera hana eins góða og mögulegt er,“ segir hann og fer síðan inn á jákvæðu brautirnar: „Hvað varðar þjónustuna sjálfa þá eru aðallega þrjú atriði sem eru mikilvæg forgangsverkefni. Það er að finna leiðir til að bæta heilsugæsluna á höfuðborgarsvæðinu, að bæta og gera skilvirkari sérfræðiþjónustu úti á landi og að skapa forsendur til reksturs háskólasjúkrahúss…“
Birgir talar um einkavæðingu heilbrigðiskerfisins og segir stefnuna í þeim málum óskýra, „það vanti að tryggja gæði og öryggi þjónustunnar“. Hann segist ekki hafa trú á einkavæðingu „á vissum hluta Landspítala eða að brytja hann niður í einingar. Við eigum að halda þjónustunni þar saman, en það er alltaf hægt þegar tækifæri gefst að skapa litlar einkareknar einingar en það þarf að gera með gæði, aðgengi og öryggi þjónustunnar í huga.“
Landlæknir bendir á leiðir til úrbóta. “Það þarf að víkka út starfsemi heilsugæslunnar, ráða þangað fjölbreyttari hópa starfsfólks, sálfræðinga, næringarráðgjafa, þjálfara, aðila í heimahjúkrun og félagsráðgjafa. Það þarf líka að hafa þjónustuna sveigjanlegri, hafa teymi sem keyra um og vitja fólks … Heilbrigðiskerfið þarf að sinna sívaxandi hópi fólks og sjúkrarými eru dýr. Þess vegna er mikilvægt að efla forvarnir. Það margborgar sig.“
Undir lok viðtalsins kemur fram að Birgir telur vissa léttúð einkenna hugarfar margra Íslendinga. Þeir hugsi oft ekki til þeirra sem minna mega sín. … „Það er mikil hugmyndafræði frjálshyggju í þessu samfélagi. Jafnvel þegar hún … gengur gegn lýðheilsu þá segja ráðamenn bara allt í lagi og loka augunum fyrir því,“ og vísar þar til áfengisfrumvarpsins og nýlegs afnám á sykurskatti. „Þetta stangast hvort tveggja á við öll þekkt markmið um lýðheilsu og heilbrigði almennings.“
Atarna er gott viðtal. Þar kveður við nýjan tón ferskleika og jákvæðni. Og til þess að halda henni til enda þessa pistil geri ég það að tillögu minni að landlækni verði falið – jafnvel alþingi feli honum það ef heilbrigðisráðherra er enn þá sofandi – að setja niður á blað athuganir sínar á stöðu heilbrigðiskerfisins og gera langtíma áætlun um endurreisn þess og uppbyggingu. Í hugum margra er þetta forgangsmál í íslensku samfélagi.
Það er líkast því að lenda undir sólstöfum í þungbúnum garra að kynna sér viðhorf hins nýja landlæknis. Verða var við jákvæða rödd í þungu andrúmslofti bölsýninnar. Sá sem stendur í geislanum fær það á tilfinninguna að það sé ekki öll von úti þrátt fyrir allt.
- Sálumessa - 02/07/2020
- Umhverfisvændi - 21/04/2020
- Er brennivínið besti kostur? - 26/03/2020