trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 02/02/2018

Sögur Tómasar frænda – takk, Tommi

Hvað skal segja? Það er hægt að segja svo margt, en svo er líka hægt að hugsa og minnast hans Tómasar Emm sem hefur verið svo góður vinur og félagi í tæpa hálfa öld.

Ég sá hann fyrst þar sem hann fór fyrir hljómsveitinni Amor, syngjandi bassaleikari sem kunni að auki að fnæsa í klarinett eins og Sörensen rakari. Litlu síðar birtist Tommi svo í stofu 17 í MH, munstraður til að sinna lágtíðnisviði tónlistar í uppfærslu nemendafélagsins á leikritinu Ásu krypplingi.

Fyrsta sagan sem ég heyrði Tómas segja var af því þegar hann forðaði Karli O. Runólfssyni tónskáldi og stjórnanda Lúðrasveitar drengja frá því að detta ofan af þaki Háteigskirkju í miðju taktslagi. Síðar urðu sögur Tómasar frænda óteljandi.

Nú hefur hann kvatt þessa vora vídd löngu áður en dansleiknum á að vera lokið. Ég hef aldrei hitt nokkra lifandi manneskju sem gat fundið Tómasi neitt til foráttu sem heitið gat. Reyndar var hann stundum seinn á æfingar framan af en söðlaði svo um og varð stundvísari en sjálf Alheimsklukkan.

Meistari orðaleikjanna hafði skírteini upp á það að snúa snilldarlega upp á tungumálið oft á dag og á kvöldin líka. Minnugur umfram hið eðlilega mátti fletta upp í honum um allt sem hann lumaði á þegar aðrir gerðust gleymnir og áttavilltir. Og svo lifði hann lífinu ákkurat eins hann ákvað sjálfur, svo dásamlega sérvitur og stefnufastur um margt. Ég hef alltaf skynjað hann sem leiftrandi greindan og ef á bjátaði hafði hann skilning og gæsku til að veita af.

Virtúósinn Tómas Emm verður seint oflofaður, en líkt og einhver allt annar maður sagði einhverntímann: „Þrátt fyrir galla mína er ég samt ekki gallalaus“.

Valgeir Guðjónsson

1,782