trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 01/09/2014

Sogandi org og hrynjandi dynkir — Lýsing á jarðeldum norðan Dyngjufjalla 1875

„Stundum logaði í öðrum endanum á gjánni og allt í einu datt eldurinn niður, en þá heyrðust sogandi org og hrynjandi dynkir og óhljóð, sem fylltu geiminn.“

(Mynd: Twitter/RÚV)

(Mynd: Twitter/RÚV)

Þannig lýsir Friðrik Guðmundsson eldsumbrotum norður af Dyngjufjöllum árið 1875. Hann var þá unglingspiltur á Grímsstöðum á Fjöllum og fylgdist því með stórkostlegum náttúruhamförum í návígi.

Lýsing Friðriks á jarðeldunum miklu er svona:

„Í hrossaleit haustið 1874 gat leitarmaður þess að hann hefði komið að nýrri gjá, sem nú lá út og suður öræfin í stefnu af Dyngjufjöllum, og var þessi sprunga hvergi víðari en svo, að hann gat stigið yfir hana. Um þessar sömu mundir voru farnar að koma fréttir úr öllum áttum í kringum okkur um jarðskjálfta, sem menn hafi orðið varir við.

Seint í október þetta sama haust er annar maður í hrossaleit á Mývatnsöræfum, og hefir mikið stórfelldari sögu að segja en áður spurðist. Hann hefir komið að nýrri gjá, sem var svo víð, að hann hann gat hvergi stokkið yfir hana, og hann hélt að gjáin væri fleiri mílur á lengd, og suðurendinn á gjánni vísaði beint á Dyngjufjöll, þennan vítisbrunn, sem allir nú óttuðust frá því á páskum næstliðinn vetur. Á hinn bóginn urðu jarðskjálftarnir alltaf tíðari og tíðari.

Það er komið fram að jólum og menn eru farnir að fyllast hryllingi. Jarðskjálftarnir eru orðnir svo harðir, að hýbýli manna og skepna gera sig líklegust til að falla ofan á hvað sem fyrir verður; og til að tryggja líf manna, hvað sem öðru líður, leita nú bændur uppi hvern spýtugaur, sem lauslegur lafir, til að reka undir baðstofuþökin.

Og ennþá kemur frétt af gjánni að hún er komin norður í gegnum þjóðveginn, og bændur úr öllum nærliggjandi sveitum, sem eiga hesta á Mývatnsöræfum, leggja nú af stað eða senda sína duglegustu menn til að ná hestunum. Allar fréttir bera það með sér, að harðastir og átakanlegastir eru jarðskjálftarnir á Grímsstöðum; og faðir minn, sem hafði einhvern veginn numið einföldustu reglu til að mæla vegalengd á milli tveggja ákveðinna staða, mældi nú af hlaðinu á Grímsstöðum að litlum fjallhól, sem stóð á austurbarmi gjárinnar, og var það rúm dönsk míla, eða fjórar og hálf míla ensk. Það var því ekkert spursmál með það, að Grímsstaðir voru langnæsti bústaðurinn við þessa gjá, hvað sem framtíðin ætlaði að af henni hlytist.

Alltaf versnuðu áhyggjuefnin. Allan janúar og fram í miðjan febrúar leið svo engin mínúta að ekki skylfi sætið, ef maður settist niður, og margir komu þeir kippir inn á milli, að við héldum að baðstofan myndi hrynja niður, og aldrei heyrði ég föður minn skipa eins valdalega og ákveðið fyrir öllum hreyfingum heimilisfólksins eins og eina nótt, er allir vöknuðu og hentust fram úr rúmum sínum, og hann skipaði öllu fólkinu að standa fast við skilrúmsveggina í baðstofunni, og daglega voru reknar stoðir undir hana, þó sterk væri.

17. febrúar 1875 gaus eldur upp úr gjánni. Það var mjög hrikaleg og geigvænleg sjón fyrir okkur, sem bjuggum svo nærri gosinu. Gjáin var orðin svo löng, að hún var sjálfsagt 20 mílur enskar; en aldrei logaði upp úr henni allri í einu, og sjaldnast held ég að bálið hafi verið lengra út og suður eftir gjánni en tvær til fjórar mílur. En þegar maður bjó svo nærri, þá sýndist bálið svo geysilega hátt. Stundum logaði í öðrum endanum á gjánni og allt í einu datt eldurinn niður, en þá heyrðust sogandi org og hrynjandi dynkir og óhljóð, sem fylltu geiminn, en aðeins í eina eða tvær mínútur, en þá kom eldurinn upp í hinum enda gjárinnar, þó 20 mílur á að gizka væru milli endanna.

Nú hafði gjáin lengst svo norður, að ekki var orðin lengra en sem svaraði tveimur mílum enskum að Jökulsá á Fjöllum. Og var um það hugsað af þeim, sem næstir stóðu, hvað annars mundi á daginn drífa, ef Jökulsá lenti í eldvellandi gjána – og kaldlyndir gárungar héldu að það gæfi áður alveg óþekkta skemmtistund. Annars lágu ógn og áhyggja eins og martröð á geði alvarlega hugsandi manna, orkan og hrikasýningarnar lýstu svo átakanlega vanmætti mannsins, og einlæg viðurkenning fyrir náttúrulögmálinu varð að eins konar landnámi, andleg séreign, sem stöðvaðist í eiginlegu trausti á almáttinn. Menn sáu glóandi kletta, sem voru fleiri faðmar á hvern veg, kastast eins og kúlu úr riffli á logandi vegum lengst upp í loftið, og falla svo til baka í fjölda mörgum fossandi þáttum eins og rennandi vatn úr loftinu, sumt ofan í gjána aftur, en annað allt á báða barma hennar, og hlóðst þar upp, þangað til það rann af stað í allar áttir og myndaði margra mílna langt og breitt hraun á lágslétt hálendið. Að lokum hlóðst það svo hátt upp í miðjunni, að það seig saman og storknaði yfir gjána, eftir að hafa logað og þreytt kraftana hvíldarlaust í tvo mánuði.

Picture 5Lengi vel hélt eldurinn opnum smáglufum á milli, sem þá oftast logaði upp úr, og í myrkrinu á kvöldin sáust raðir af þessum ljósum í smágötum í hraunbreiðunni, og var það oft og tíðum fögur sjón. Allt fram að mánaðamótunum nóvember og desember næsta vetur sáust þessir logar af og til upp úr hrauninu, og allan þann vetur tolldi aldrei snjór í hrauninu, hvað mikið sem hríðaði og renndi og hvað hart sem frostið var. Eldgosið var í hávestur frá okkar heimili, en baðstofugluggarnir sneru allir í hásuður; en þó var birtan af jarðeldinum á snjónum svo mikil á hæðum og fjöllum suður af bænum, að lesa mátti á bók við birtu þá í baðstofunni, þó um hánótt væri.“

Friðrik flutti síðar til Vesturheims og skrifaði endurminningar sínar í Heimskringlu í Winnipeg 1930-1934, en þær komu síðar út á bók hér á landi.

Einn aukreitis fróðleiksmoli: Friðrik var orðinn blindur þegar hann ritaði endurminningarnar og notaði til þess blindraritvél sem börn hans gáfu honum. Hann bjó þá í bænum Mozart í Saskatchewan.

1,711