trusted online casino malaysia
Úlfar Þormóðsson 19/03/2016

Sláturtíð

Við erum undarleg þjóð. Nú þegar við höfum, fyrir tilverknað annarra og vegna sérkenna og fegurðar landsins, fengið upp í hendur svo öfluga atvinnugrein að hún skákar fiskveiðum, erum við tekin til við að eyðileggja hana. Að yfirlögðu ráði. Fyrir tilstilli þeirra sem vinna í henni og við hana og með hjálp ríkisvaldsins.

sauðfjárrækt

Nú hafa sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu „ákveðið að markaðssetja sig framvegis gagnvart erlendum ferðamönnum undir vörumerkinu „Reykjavík Loves“. Þannig mun Hafnarfjarðarbær, Kópavogsbær, Mosfellsbær, Seltjarnarnes og Garðabær hér eftir kynna sig undir nafni Reykjavíkur samkvæmt samningi sem að bæjarstjórar sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu undirrituðu fyrr í dag“, segir í Vísi.is. í gær, 18 mars. Ætlunin með þessu er að „fjölga heimsóknum erlendra ferðamanna í nágrannabæi borgarinnar.“

Og rökin. Lesið þetta, haft eftir bæjarstjóranum í Kópavogi: „Reykjavík er okkar sterkasta vörumerki hér á höfuðborgarsvæðinu. Þannig að fyrir okkur er bara markmiðið að fá túristana og ef að þeir halda að þeir séu að fara inn í eitthvert annað sveitarfélag þá held ég að leiðin verði í hugum þeirra lengri. Þannig að við teljum að þetta sé bara gott með þetta að markmiði að fá inn fleiri túrista í Kópavoginn.“

Ragnheiður Elín

Sum sé; tixið er þetta: Útlendingur sem ætlar að gista í Reykjavík fær inni í Mosó, Hafnarfirði, jafnvel Kópavogi, og veit ekki af því fyrr en hann er búinn að borga og allir græða nema ferðlangurinn.

Þeir sem selja ferðamönnum mat láta ekki sitt eftir liggja við að spinna blekkingavefinn. Samkvæmt fréttum frá matvælaeftirlitinu, Matís, fóru menn frá því á veitingahús og tóku 27 sýni af fiski sem var á matseðlinum. Átt sýni leiddu í ljós að fiskurinn sem var í boði reyndist af annarri tegund en útlendingurinn bað um og borgaði fyrir. Mogganum ofbauð og splæsti forsíðufrétt á þetta undir fyrirsögninni „Orðspor þorsksins gæti beðið skaða“.

Ferðamálaráðherra, fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, tekur þátt í leiknum. Hann, sem er hún, fór með Flugleiðum til USA vegna nýrrar flugleiðar, og færði borgarstjóranum í áfangastað að gjöf, til landkynningar,  íslenska lopapeysu, made in China.

Sumstaðar er þetta kallað að éta útsæðið, annars staðar að slátra mjólkurkúnni. Hjá okkur eru þetta heillaráð og yfirveguð stjórnsýsla.

Latest posts by Úlfar Þormóðsson (see all)
Flokkun : Efst á baugi
1,459