trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 04/12/2014

Skuggar

María BjarnadóttirEftir Maríu Bjarnadóttur

Nú ekki sól né sumar til mín ratar,

því sit ég hér í skugga um miðjan dag,

en ef að sálin útsýn hverri glatar

er ekki von um fagurt sólarlag.

 

Það færist til mín húm úr öllum áttum,

og yfirskyggir dapran huga minn,

þar læðist vofa geigs í dimmum gáttum,

en gleðin hvergi til mín vogar inn.

 

Og enginn hjálpar örbirgð minnar sálar,

og enginn réttir hönd að leiða mig.

En sífellt kvíði skuggamyndir málar

og mínum sporum snýr á villustig.

 

En brátt á enda er æviskeið mitt runnið,

og ekki stóð á heimsins þunga dóm,

því lítið hef ég lífsins köllum unnið

ef launin verða þessi auðn og tóm.

 

Hvers hef ég þá að vænta á vegarenda

fyrst var mín ævi svona tilgangslaus?

Til hvers var förin, ef hún loks skal lenda

svo langt frá því sem hugur mannsins kaus?

 

María Bjarnadóttir (1896-1976) (Haustlitir, 1964)

Flokkun : Ljóðið
1,350