trusted online casino malaysia
Valgerður Bjarnadóttir 18/05/2014

Skrítið og seinbúið svar

Af alkunnri og margítrekaðri sammvinnufýsi og sáttavilja, svaraði innanríkisráðherra fyrirspurn okkar Marðar Árnasonar um meintan leka á persónuupplýsingum um Tony Omos og fleiri á föstudaginn var. Ég fékk tilkynningu kl 20:50 um að svarinu hefði verið útbýtt og svo var þinginu slitið kl 22:24.  – Það gefst því tækifæri til að spyrja ráðherrann nánar um svarið þegar þingið kemur saman í september.

Í svarinu kemur fram að ekki er til formlegt minnisblað í ráðuneytinu en það er til samantekt. Ég hélt nú reyndar að minnisblöð væru ekki formleg, heldur einmitt minnisblöð sem í eðli sínu eru varla formleg í stjórnsýslunni.

Engin meiðandi ummæli eru í samantektinni, segir í svarinu. Mér finnst skrítið að þetta sé sérstaklega tekið fram. Finnst sannast að segja gefið í skyn að það væri ekki alvarlegt þó samantekt/minnisblað sem ekki hefur að geyma meiðandi ummæli berist til óskyldra aðila utan ráðuneytisins.

Alvara hins meinta leka hefur aldrei snúist um hvað segir í samantektinni/minnisblaðinu, heldur að persónuupplýsingar berist þangað sem þær eiga ekki erindi.

Það er upplýsandi, sem kemur fram í svarinu, að samantektin var ekki unnin að beiðni eða með vitund ráðherra eða skrifstofu hennar.  – Það er sérstaklega fróðlegt vegna þess að í úrskurði Hæstaréttar um þennan pappír kemur fram að hann var sendur ráðherra, ráðuneytisstjóra og tveim aðstoðarmönnum ráðherra  kl 17:17 þann 19. nóvember, daginn áður en mótmæli voru fyrirhuguð við innanríkisráðuneytið.

Var það þá að frumkvæði embættismanna í ráðuneytinu sem þessum upplýsingum var allt í einu safnað saman á eitt blað? Og upplýsingarnar síðan sendar ráðherra, ráðuneytisstjóra og hinum pólitísku starfsmönnum ráðuneytisins að loknum almennum vinnudegi í ráðuneytinu.

Ráðherrann hefur ávítað okkur sem höfum spurst fyrir um þetta mál um að sækja að embættismönnum. Það höfum við ekki gert, enda ber ráðherrann ábyrgð á starfsemi ráðuneytisins. Nú bendir ráðherrann hins vegar á embættismenn, það er sannarlega eftirtektarvert ef það er rétt orð yfir gjörninginn.

Engin svör eru gefin um hver hafi stjórnaði rannsókn ráðuneytisins, eða hvað hafi verið til skoðunar.

Niðurstaða rekstrarfélags stjórnarráðsins er endurtekin. Sem sagt að ekkert hafi verið sent úr málaskrá – sem er reyndar ekki skrítið því af öðru sem sagt hefur verið um þetta mál má ráða að samantektin/minnisblaðið er ekki á málaskrá eða var það alla vega ekki. – Eftir stendur hvort og hvert samantektin var send.

Að lokum segir í svarinu að ráðherrann eða aðrir geti ekki tjáð sig um málið á meðan rannsókn stendur yfir. Reyndar er ekkert sem bannar einum né neinum að segja eitthvað efnislega um málið, og reyndar er forvitnilegt hvers vegna ráðherrann kýs að gera það ekki.

Þann 7. febrúar var sagt frá því á vef innanríkisráðuneytis að öll gögn er varða málið hafi verið afhent ríkissaksóknara. Þetta er vissulega alvarlegt mál, en ekki mjög viðamikið – eða hvað? Nú hefur rannsókn staðið yfir hátt í fjóra mánuði. Er óeðlilegt að velta fyrir sér hvenær þessari rannsókn muni ljúka?

Svar við fyrirspurn okkar Marðar er hér að finna:  http://www.althingi.is/altext/143/s/1232.html

Flokkun : Pistlar
1,473