trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 15/12/2017

Skjaldborg um sérhagsmunina

Eftir Guðmund Andra Thorsson

Virðulegi forseti, góðir landsmenn.

Við erum ofurseld dyntum og lögmálum náttúrunnar hér á landi og við höfum lært að laga okkur að þeim. En náttúrulögmálin ríkja ekki jafn víða í lífi okkar og stundum mætti ætla.

Það er til dæmis ekki náttúrulögmál að hér séu háir vextir og yfirþyrmandi afborganir af lánum fyrir allt venjulegt launafólk sem er bara að fullnægja þeirri grundvallarþörf hverrar fjölskyldu – og grundvallar mannréttindum – að hafa húsaskjól.

Gjaldmiðillinn er ekki náttúrulögmál og krónan er ekki þjóðargersemi sem við eigum að elska eins og lóuna eða holtasóleyna, heldur ákveðið fyrirkomulag á skiptingu verðmæta í samfélaginu sem hentar þeim ríku og voldugu, sérhagsmunum, en bitnar á öllum almenningi í formi vaxtaokurs og verðtryggingar, að ekki sé talað um þær stórfelldu kjaraskerðingar sem við kennum við gengisfellingar.

Það er ekki náttúrulögmál sem veldur því að arður þjóðarinnar af sjávarauðlind sinni í formi veiðigjalda er eitt prósent af tekjum ríkisins. Það er ákvörðun stjórnmálamanna að hafa þetta svona vegna þess að það hentar voldugum öflum. Fyrir vikið verðum við af öflugum, réttlátum og varanlegum tekjustofni til að styrkja samfélagið en ofsagróði kvótaeigendanna smýgur um allt þjóðlífið með alls konar afleiðingum – sá sem á annað borð ratar aftur heim frá skattaskúmaskotum heimsins.

Það er ekki náttúrulögmál sem við þurfum bara að aðlagast að ráðherrar svíki loforð sín eftir kosningar eins og gert var með þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarumsókn að Evrópusambandinu og gert hefur verið aftur og aftur – og enn og aftur nú – í framlögum til heilbrigðismála og menntamála. Í lýðræðisríki ættu svikin kosningaloforð að vera pólitískur ómöguleiki.

Það er ekki náttúrulögmál að þessi ríka og vel menntaða þjóð búi við heilbrigðiskerfi sem einkennist af stjórnleysi, langvarandi vanrækslu, óhóflegu vinnuálagi og sífelldum þrýstingi til einka- og gróðavæðingar kerfis sem landsmenn vilja að sé opinbert.

Ekkert af þessu er náttúrulögmál en allt vitnar þetta um að almannahagsmunir eru fyrir borð bornir en ákvarðanir teknar með sérhagsmuni að leiðarljósi. Þetta er ekki vegna þess að stjórnmálamenn séu spilltar og vondar manneskjur heldur þarf gagngerar og djúptækar kerfisbreytingar á íslensku samfélagi. Því miður vitnar ekkert í stefnuræðu forsætisráðherra eða komandi fjárlögum um að slíkar breytingar séu í vændum heldur bendir flest til þess að núverandi stjórnarflokkar hafi ákveðið að slá skjaldborg um sérhagsmunina.


Ræða flutt í umræðum á alþingi um stefnuræðu forsætisráðherra 14. desember 2017.

1,282