Skítamix
Sölumenn Arion banka eru komnir með vænlega kaupendur á krókinn. Það munu vera erlendir vogunarsjóðir, sem eitt sinn voru kallaðir hrægammar í umræðunni. Þetta er dulítið bratt og óhætt að spyrja hvort asinn við söluna sé tengdur því að vogunarsjóðirnir séu íslenskir skattaþjófar sem eiga í vændum sakaruppgjöf fyrir brot sín, og allt að 20% afslátt af gjaldeyrinum sem þeir komu undan, ef þeir flytja hann til landsins og festa í atvinnurekstri? Og stafar hann kannski líka af því að Kaupþing, sem á 87% í bankanum, réði „sérfróða“ menn til þess að annast söluna og hét að borga þeim þúsundir miljóna í bónus ef þeim tækist að selja fljótt og vel?
Ríkið á 13% í Arion. Fjármálaráðherra fer með hlut ríkisins. Hann hefur verið spurður um gang mála og svarar út úr; það liggur svo sem ekkert á, segir hann, yppir öxlum og brosir. Ráðherrann er svo áhugalaus og afskiptalítill um söluna að hann segist ekki vita hverjir eru tilbúnir til þess að kaupa; hvaða „sjóðir“, hvaða einstaklingar, ætla sér að eignast bankann þegar þar að kemur.
Ennþá er starfsvettvangur bankanna nánast sá sami og fyrir Hrun. Það er ekki búið að skilja á milli fjárfestinga- og viðskiptabankastarfsemi annars vegar og innlendrar- og erlendrar starfsemi hins vegar. Ef og þegar það verður gert, líkt og búið mun vera að gera vítt um heim, munu þeir kaupendur sem verða sér úti um banka í því lagaumhverfi sem nú gildir, fara í tug- ef ekki hundruðamiljarða skaðabótamál við ríkið, reist á því að viðskiptin hafi verið gerð á röngum forsendum. Og vinna málið. Þá þýðir væntanlega lítið yppa öxlum.
Eða hvað?
Er þetta kannski hönnuð atburðarráðs sem ríkisstjórnin hefur þegar lagt blessun sína yfir? Vita ráðherrarnir meira en þeir gefa upp, vita þeir að væntanlegir kaupendur, skattaþjófarnir í aflöndum, eru góðkunningjar, kostunaraðilar kosningabaráttu þeirra og nánir venslamenn? Ef svo er munu þeir brosa áfram.
- Sálumessa - 02/07/2020
- Umhverfisvændi - 21/04/2020
- Er brennivínið besti kostur? - 26/03/2020