trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 21/10/2017

Skemmtilegasti maður í Kópavogi? – Minningarorð um einstakan öðling, sem ellin missti af

Bjarni Pálsson kennari og skólastjóri – en ekki síður húmoristi og mannvinur – var borinn til grafar í vikunni.

Herðubreið birtir minningarorð þriggja samferðarmanna.

———-

Bjarni Pálsson, föðurbróðir minn, var kvikur og snar í snúningum og stundum svo fljótur á fæti að það var eins og hann væri farinn áður en hann var kominn inn úr dyrunum.

Hann var svo lifandi að það er eiginlega óhugsandi að hann geti verið dáinn.

Bjarni var maður samskipta við fólk og beið þess alltaf í ofvæni að deila með manni einhverri skemmtisögu eða fyndinni útleggingu á helstu viðfangsefnum samtímans. Hann var skemmtilegasti maður sem ég hef hitt, meistari orðsins og bjó yfir einstakri kaldhæðinni kímnigáfu.

Ógleymanleg eru orðaskipti hans við móður sína, ömmu mína, þegar hún tjáði honum að hún vildi helst geta valið líknardauða frekar en að fara út úr heiminum. Hann svaraði að bragði að það væri skiljanleg ósk, en bónin kæmi því miður alltof seint því hún hefði verið kolrugluð árum saman. Þá hló amma Anna dátt.

Bjarni var kennari alla tíð. Hann var svo laginn stærðfræðikennari að honum tókst jafnvel að laða fram stærðfræðigáfu þar sem hennar hafði aldrei áður orðið vart. Þess fengu ófá ættmenni í öngstræti próflesturs að njóta. Og ekki bara það: Þegar ég hóf að reka mitt eigið fyrirtæki fyrir tveimur áratugum síðan kenndi hann mér undirstöðuatriði bókhalds og hjálpaði mér svo þaðan í frá við að stemma af og klára ársreikningagerð og skattskil. Hann vildi kenna manni nógu mikið til að maður yrði sjálfbjarga og hafði engan áhuga á að gera sjálfan sig að ómissandi millilið. Ég mun alltaf minnast þessara stunda fyrir framan tölvuna þegar við ræddum jöfnum höndum skattalagabreytingar, pólitík og réttar framtalsaðferðir. Það voru unaðsstundir.

Samfylgd mín með Bjarna var líka pólitísk. Hann varð ungur jafnaðarmaður, starfaði með Samtökum frjálslyndra og vinstri manna fyrir vestan og Alþýðuflokknum og Samfylkingunni síðar. Hann bjó í kjördæmi mínu alla mína pólitísku tíð og var mér ráðgjafi og vinur. Hann hafði tröllatrú á því að flest samfélagsleg úrlausnarefni væri hægt að leysa með sameiginlegu átaki og því að gefa fólki tækifæri og styðja það til sjálfsbjargar.

Keppinautar hans í pólitíkinni fyrir vestan í gamla daga óttuðust hann öðrum meira því á framboðsfundum dró hann þá sundur og saman í háði, svo hlegið var og klappað þannig að undir tók í þéttsetnum félagsheimilunum. Hann hafði sama hátt á fundum hér syðra og gerði engan mannamun. Hann hafði rótgróna vantrú á öllu valdi, krafðist rökræðu og beitti kímninni óspart á til að afbyggja orðskrúð og fáfengileika. Ég man ófáar ræður og tilsvör þar sem einhver sjálfskipaður handhafi sannleikans endaði með allt niðurumsig eftir samræður við Bjarna.

Samfylgd Bjarna og Valborgar var löng og farsæl og þau fylgdust að í öllu. Á milli þeirra var fallegt samband og djúp virðing og þau voru stolt af börnunum fjórum og stórum afkomendahópi. Ég á þess því miður ekki kost að fylgja mínum kæra föðurbróður síðasta spölinn vegna skyldustarfa erlendis, en kveð með þakklæti og bið Valborgu og frændsystkinum mínum og fjölskyldum þeirra blessunar. Guð blessi minn góða frænda.

Árni Páll Árnason

———-

Þeir sem guðirnir elska
deyja ungir.
Barnið í þeim lifði
og ellin fór hjá.

Bjarni Pálsson var afar kær heimilisvinur og félagi okkar hjóna. Hann var aldinn að árum þegar hann féll frá. Við sem höfðum við hann samneyti upplifðum hann þó ekki sem aldraðan mann.

Hann var gamansamur og einstaklega orðheppinn og sá alla jafna aðra fleti á hverju máli en þá sem almennt blöstu við. Oft mjög spaugilega. Því var hann oftast rosalega skemmtilegur maður. Hann hafði sansa æskunnar. Þannig lifði hann og dó ungur.

Bjarni var kennari í Reykjavík og mörg ár skólastjóri á Núpi. Eftir Núp kenndi hann stærðfræði í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ. Nemendur þar kusu hann oft vinsælasta kennarann. Sú staðreynd er ósvikin eftirmæli.

Eitt af mörgu sem einkenndi Bjarna Pálsson umfram annað fólk var fádæma óeigingjörn hjálpsemi.

Þegar hann varð áttræður gáfum við hjónin honum bók og létum fylgja henni eftirfarandi texta: „Áttræður er í dag Bjarni Pálsson, fyrrum farmaður um heimsins höf. Uppalandi og skólastjóri og tilsjónarmaður með fjárreiðum og skyldum einstaklinga, félaga og fyrirtækja. Þannig hefur hann tíðum bægt vandræðum frá þeim sem honum var annt um.“

Algengt var að Bjarni eyddi mörgum stundum á dag til að reka alls konar erindi fyrir annað fólk. Hann stóð í bréfaskriftum og viðtölum við útlendingastofnun til að hjálpa nýbúum sem áttu enga að. Hann hjálpaði fjölda eldri og yngri vina sinna að reka erindi sín í bönkum og öðrum stofnunum, skrifaði fyrir þá bréf og fór með þeim í viðtöl.

Þá er ótalinn fjöldi áfengissjúklinga sem voru og eru að vinna að því að ná tökum á lífi sínu. Oftar en ekki eru þeir með vanefndar margra ára skyldur sínar við samfélagið og stofnanir þess. Fyrir fjölda ára var ég einn þeirra mörgu sem Bjarni tók undir sinn verndarvæng. Það tók mig rúm fjögur ár að ljúka og standa að fullu skil á mínum skuldum við samfélagið. Þá skiptu ráð og hjálp Bjarna sköpum. Þau fjölmörgu, sem nutu hjálpar hans, geta aldrei fullþakkað. Reyndar held ég að hann hafi ekki ætlast til neins þakklætis fyrir hjálpina, – honum var hún svo eðlislæg.

Trúlega þykir lítil rökvísi í því að segja að Bjarni Pálsson hafi verið öldungur, sem ellin missti af. En mér finnst það nú samt.

Aðstandendur Bjarna þekkja hug okkar hjóna til þeirra á þessari stundu.

Birgir Dýrfjörð

———

„Það er engin ástæða til að vera leiðinlegur,“ sagði félagi okkar Bjarni Pálsson einhvern tíma. Því til sönnunar er að finna, í skjalasafni fjármálaráðuneytis og fyrirtækjaskrár, ein fyndnustu bréf til stjórnvalda sem hafa verið skrifuð. Þar hélt Bjarni á penna fyrir okkur jafnaðarmenn í Kópavogi.

Eitt af verkefnunum við að sameina flokka var að halda utan um eignir þeirra. Fyrirtækjaskrá sagði þvert nei við þeirri hugmynd að hægt væri að stofna almennt félag með það eitt að markmiði að útvega alþýðuhreyfingu jafnaðarmanna húsnæði og í framhaldinu hófust einar skemmtilegustu bréfaskriftir sem ég hef fylgst með.

Bjarni sótti okkar málstað með frábærri rökvísi og þekkingu á lögum og reglum. Allt saman kryddað hans ísmeygilega húmor og ýmsum smásögum. Eftir síðasta bréfið sem var sent beint til fjármálaráðherra unnum við, en þó aðallega Bjarni, fullnaðarsigur.

Mér finnst þessi snerra lýsa Bjarna vel – einlægur áhugi á að vinna sínu samfélagi vel, endalaus dugnaður og ósérhlífni í alls kyns verkefnum fyrir hreyfingu okkar jafnaðarmanna, hvort sem er hér í Kópavogi eða víðar, og alltaf stutt í húmorinn og gleðina.

Ég kann ekki að telja öll þau verk sem Bjarni tók að sér á okkar vettvangi og annars staðar, allt frá sparisjóðsstjórn vestur á fjörðum til þess að sitja í stjórn húsfélags Samfylkingarinnar í Kópavogi. Við sem nutum þess að fá að starfa með honum gleymum því hins vegar ekki hvernig hann lagði til.

Því fleiri sem eru reiðubúnir til að leggja fram tíma sinn og þekkingu til samfélagsmála, að hjálpast að við úrlausn verkefna, eins og Bjarni, því betra verður samfélagið. Já, og það er engin ástæða til að að vera leiðinlegur á meðan.

Fyrir hönd Samfylkingarfólks í Kópavogi votta ég Valborgu og fjölskyldunni allri samúð okkar og þakkir.

Flosi Eiríksson

 

 

 

1,271