trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 27/02/2020

Sjö áratugir af gleði, ást og hlýju – Jakob Frímann kveður Ragga Bjarna

Jakob Frímann Magnússon skrifar

Er fyrir lá að Ragnar Bjarnason skyldi beðinn að koma fram á Degi íslenskrar tónlistar í desember síðastliðnum féll það mér í skaut að bera upp erindið, sækja hann heim og afhenda honum geisladisk með umbeðnu lagi.

Það var tekið afar hlýlega á móti sendiboðanum og ekki tekið í mál annað en að maður settist með þeim Helle í hlýlegri setustofu þeirra sómahjóna í austurhluta höfuðborgarinnar.

Það var spjallað og spaugað, ferill Ragga sem útvarpsmanns á Aðalstöðinni m.a. rifjaður upp, umbeðna lagið Froðan eftir Geira Sæm. og Þorvald Bjarna sett í geislaspilarann og möguleikar reifaðir.

Sjónvarpið var í gangi. Það var verið að sýna gamlan íslenskan þátt í svart-hvítu. Þar birtist okkur sjálfur Gylfi Þ. Gíslason fv. menntamálaráðherra og við ákváðum þá þegar að veita honum sæmdarheitið „Guðfaðir íslenskrar tónlistarmenntunar“. Við ræddum hversu ómetanlegt það hefði verið íslenskri æsku að öðlast tækifæri til gjaldfrjálsrar tónlistarmenntunar fyrir hans tilstilli.

Þá birtist Bjarni Benediktsson fv. dómsmálaráðherra á skjánum og við fyrirgáfum honum samstundis þau mistök að hafa ekki veitt fyrsta trompetleikara Duke Ellington-stórsveitarinnar, Rex Stewart, landvistarleyfi hér árið 1947 – en viðmið ráðherrans voru á þá leið að hér skyldi „alvöru listamönnum heimil landvist en trúðum eigi“ (!).

Raggi var auðvitað maður djassins, rokksins og cha, cha, cha. Hann lét það aldrei slá sig neitt út af laginu þótt fyrirlitning ráðandi afla á Íslandi væri megn á slíkri músík fram eftir 20. öldinni. Þetta átti líka eftir að breytast og Raggi sjálfur að verða einhver elskaðasti listamaður þjóðarinnar, gerast borgarlistamaður Reykjavíkur, hljóta allar æðstu viðurkenningar á sviði tónlistarinnar og hljóta að endingu heiðurslaun Alþingis sem gladdi mjög þann sem þetta ritar og svo mikinn fjölda annarra. Eilífa þökk fyrir það hafi Páll Magnússon og aðrir nefndarmenn í allsherjar- og menntamálanefnd.

Svart-hvíta sjónvarpsmyndin hélt áfram að rúlla og við ferðuðumst með henni gegnum áratugina, hlógum og spjölluðum langt fram eftir kvöldi.

Ég hugsaði á heimleiðinni hversu farsæll Raggi hefði verið í lífi sínu og starfi, hversu glaðlyndur og sáttur hann virtist alla tíð. Og góður við alla þá sem á hans vegi urðu.

Í dag er íslenska þjóðin eilítið skekin yfir smitandi veirusjúkdómi frá Kína, en umfram allt þó sameinuð í væntumþykju sinni og þakklæti fyrir Ragga Bjarna og allt sem hann gaf okkur í heila sjö áratugi. Við vottum Helle, börnum, barnabörnum, vinum og nánustu vandamönnum okkar innilegustu hluttekningu.

Þó Raggi hafi fæðst á djasstímum, varð hann einhvern veginn holdgervingur þeirra gilda sem mest einkenndu hippatímann:

Love, Peace & Happiness.

Með miklum söknuði, en í sönnum anda kærleika, friðar og hamingju, kveðjum við Ragnar Bjarnason, okkar hljómprúða, góða og glaðlynda fylginaut í gegnum lífið.

Með alúðarþökkum fyrir alla frábæru músíkina!

Jakob Frímann Magnússon

Flokkun : Menning
2,100